Framkvæmdir í Laugarnesskóla

Farið verður í umfangsmikið viðhald og endurnýjun í Laugarnesskóla á næstu árum. Saga skólans er löng og tímabært að uppfæra húsakost skólans, ekki síst með tilliti til kennsluhátta framtíðarinnar.
Framkvæmdir hófust í janúar 2023
Undirbúningur
Í framkvæmd
Lokið

Skýringarmyndir

Hvað verður gert?

Undanfarin misseri hafa verið umtalsverðar mótvægisaðgerðir í skólanum vegna leka- og mygluvandamála. Þær miða að því að fjarlægja rakaskemmt byggingarefni, stoppa lekaleiðir og þétta eins og kostur er. Þeim fylgja þá ítarleg þrif og jafnan er lofthreinsitækjum komið fyrir á viðeigandi stöðum. Mótvægisaðgerðirnar eru hugsaðar til þess að tryggja áframhaldandi skólastarf meðan undirbúnar eru stærri og viðameiri framkvæmdir. Mótvægisaðgerðum er nú lokið í Laugarnesskóla en þeim áfram fylgt eftir.

Stóru verkefni skólans lúta þá að þéttingu veðurhjúps og ytra byrði elsta hluta skólans. Samhliða þarf að uppfæra loftræstingu og endurnýja glugga svo eitthvað sé nefnt. Innra byrði verður þá mikið til endurnýjað. Ytra byrði hússins nýtur friðunar og verður þétting þess unnin í góðri samvinnu með Minjastofnun.

Samhliða endurnýjun í Laugarnesskóla er verið að hugsa grunnskólamál í Laugardal og Laugarnesi heildrænt og til framtíðar en ljóst er að nemendum fjölgar í hverfinu næstu ár. Greiningarvinna er langt komin og ættu niðurstöður að liggja fyrir ársbyrjun 2024.

Hvað mun þetta kosta?

Frumkostnaðaráætlun er í vinnslu.

Hvar er kennt á meðan?

Húsnæði KSÍ hefur gagnast skólanum til bráðabirgða á meðan unnið hefur verið að mótvægisaðgerðum. Verið er að undirbúa bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemi skólans þegar hann verður tekinn til heildarendurnýjunar.

Hvernig gengur?

Apríl 2024

Niðurstöður heildarúttektar Eflu gefa til kynna vandamál í nýrra húsi skólans sem og í stofum þar sem ekki hefur verið farið í mótvægisaðgerðir áður. Á svæðum þar sem gerðar hafa verið mótvægisaðgerðir koma sýni vel út. Unnið verður að mótvægisaðgerðum í sumar með hliðsjón af úttekt Eflu.

Febrúar 2024

Gerð heildarúttekt á Laugarnesskóla af Eflu að nýju.

Desember 2023

Tekin sýni til eftirfylgdar sem koma vel út og kalla almennt ekki á frekari mótvægisaðgerðir.

Forsagan

Elsti hluti Laugarnesskóla er kominn vel á níræðisaldur og ytra byrði hans ásamt miðrými skólans í seinni byggingaráfanga er friðlýst. Greinargerð EFLU á rakaástandi og innivist skólans, sem hafa legið til grundvallar mótvægisaðgerðum, kom út í ágúst 2022.

 

Í kjölfarið hefur verið unnið að mótvægisaðgerðum í skólanum en skólinn var tekinn út af Eflu að nýju í febrúar 2024. Niðurstöður þeirrar úttektar kalla á frekari mótvægisaðgerðir sem unnið verður jafnt og þétt að í góðu samstarfi við skólastarfið.

Vantar þig meiri upplýsingar?

Áhersla er lögð á góða upplýsingamiðlun á framkvæmdatímanum.

  • Umhverfis- og skipulagssvið Borgartúni 12-14 105 Reykjavík s. 411 1111
  • Skóla- og frístundasvið Borgartúni 12-14 105 Reykjavík s. 411 1111

Hægt er að hafa samband í tölvupósti á netföngin usk@reykjavik.is og sfs@reykjavik.is ef einhverjar spurningar vakna.

Síðast uppfært 13.05.2024