Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar | Reykjavíkurborg

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar

Mannréttindastefnan er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

Mannréttindastefna borgarinnar var fyrst samþykkt í borgarstjórn 16. maí 2006. Núverandi stefna var samþykkt í borgarstjórn 18. október 2016. Stefnan leggur áherslu á heildstæða sýn í þágu borgarbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem stefnan nær til. Stjórnendum og starfsfólki ber að tryggja virðingu fyrir mannréttindum innan stjórnkerfis borgarinnar, á vinnustöðum hennar og í þjónustu. Rauði þráðurinn í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er áherslan á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þessi áhersla skal vera sýnileg og samþætt allri starfssemi og stefnumótun borgarinnar.

Hver fylgir eftir mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar?

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar, ásamt mannréttindaráði, fylgir mannréttindastefnu borgarinnar eftir og stendur vörð um að borgarbúum sé ekki mismunað. Telji borgarbúar, starfsfólk borgarinnar, hagsmunafélög eða gestir borgarinnar að á sér sé brotið með tilliti til þeirra þátta sem tilgreindir eru í stefnunni er hægt að senda ábendingar eða kvartanir.

Borgarbúar, starfsfólk borgarinnar, hagsmunafélög eða gestir borgarinnar geta sent ábendingar eða kvartanir og er úrvinnsla þeirra þeim að kostnaðarlausu.  

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum og ábendingum á framfæri við mannréttindastjóra, Önnu Kristinsdóttur, bréflega eða í tölvupósti á netfangið anna.kristinsdottir@reykjavik.is. Hún er alltaf til viðtals á mánudögum milli  kl. 10:00 - 11:00 en einnig er hægt að panta viðtalstíma hjá henni í síma 411 4153.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

7 + 2 =