Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Teikning af fólki tala saman og vinna við skrifborð.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fer með verkefni á sviði mannréttinda- og ofbeldisvarnarmála í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Ráðið fer einnig með verkefni jafnréttisnefndar samkvæmt lögum.

Samþykkt fyrir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð ráð var afgreidd í borgarstjórn 20. september 2022.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt fyrir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð mótar stefnu í mannréttinda- og ofbeldisvarnarmálum tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs hvað varðar verksvið þess. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með rekstri mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar og að samþykktum og stefnumörkun Reykjavíkurborgar á verksviði ráðsins sé fylgt. Þá fer ráðið með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fer með verkefni jafnréttisnefndar skv. lögum nr. 10/2008 og önnur verkefni á sviði mannréttindamála í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stuðlar þannig að bættum mannréttindum borgarbúa.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð fer m.a. með eftirtalin verkefni:

  1.  Er borgarráði og öðrum borgaryfirvöldum til ráðuneytis á sviði mannréttinda þ.m.t. jafnréttis- og jafnlaunamála, kynjaðrar starfs- og fjárhagsáætlunargerðar, ber ábyrgð á kynningu mannréttindastefnunnar og annari tengdri stefnumörkun auk þess sem ráðið stuðlar að þekkingaröflun og miðlun upplýsinga.
  2. Er borgarráði og öðrum borgaryfirvöldum til ráðuneytis á sviði ofbeldisvarna og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins.
  3. Gerir tillögur til borgarráðs um endurskoðun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar ef tilefni er til og ber ábyrgð á að henni sé framfylgt.
  4. Er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttindamála. Er öðrum borgaryfirvöldum til samráðs og ráðgjafar um verkefni á sviði mannréttindamála. Veitir umsagnir um tillögur að verkefnum á vegum borgarinnar sem varða mannréttindi borgarbúa. Á samvinnu við ríki, önnur sveitarfélög og félagasamtök um mannréttindamál og veitir árlega mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar.
  5. Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skal mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð sjá til þess að Reykjavíkurborg setji sér áætlun um mannréttindamál fyrir nýtt kjörtímabil. Skal sú áætlun taka mið af lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Lögum nr. 85/2018 um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. Lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Áætlunin skal lögð fram til samþykktar í borgarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, hún rædd árlega í borgarstjórn og endurskoðuð eftir þörfum.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð er skipað 7 fulltrúum kjörnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann og skal hann vera borgarfulltrúi. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar.

Formaður ráðsins er Magnús Davíð Norðdahl.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð heldur að jafnaði tvo fundi í mánuði, annan og fjórða fimmtudag í mánuði. Einn fundur í mánuði skal að jafnaði tileinkaður ofbeldisvarnarmálum og á þá fundi skal boða áheyrnarfulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Samtaka um kvennaathvarf og landlæknis.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa annast framkvæmd mannréttindastefnu, verkefni ráðsins og samskipti við aðrar stofnanir.

Starfsmaður ráðsins er Elísabet Pétursdóttir verkefnastjóri á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.