Skilgreiningar og staða trans barna

Trans fáni

Mikilvægt er að viðurkenna og styðja við kynvitund og kyntjáningu trans barna ásamt vali þeirra á nafni og fornafni. Fræðsla til handa þeim sem vinna með trans börnum sem og aðstandendum þeirra er mikilvægur liður í því að bæta líðan þeirra, en einnig þarf að breyta uppbyggingu og skipulagi stofnanna á borð við skóla og frístundaheimili.

Kynvitund

Kynvitund er upplifun af okkar eigin kyni. Hún segir til um hvernig við viljum lifa og vera í okkar kyni. Kynvitund hefur ekki með kynfæri, líffræði eða útlit að gera, heldur með upplifun okkar af eigin kyni. Sumt fólk upplifir sig sem karla, sumt upplifir sig sem konur, sumt upplifir sig sem blöndu af hvoru tveggja, annað upplifir sig hvorki sem konu né karl. Það er einmitt kynvitundin sem segir til um hvort við erum trans eða sís. Þessu tengt er talað um úthlutað kyn, en þá er átt við það kyn sem okkur er úthlutað við fæðingu út frá kynfærum og er því ekki það sama og kynvitund.

Kyntjáning

Kyntjáning er það hvernig við tjáum kyn okkar út á við, t.d. hvernig við klæðum okkur, berum okkur, tölum, klippum hárið okkar og hvernig almennt fas okkar er. Oftast er talað um að kyntjáning sé kvenleg eða karlmannleg, en hún getur verið alls konar og þarf ekki að vera í samræmi við úthlutað kyn (líffræðina). Það að vera trans eða kynsegin má ekki rugla saman við börn sem fara út fyrir svokölluð kynjanorm, t.d. strákur sem leikur sér mikið við dúkkur og elskar pils og naglalakk. Ef hann upplifir sig sem strák þá er hann sís. En trans börn, rétt eins og sís börn, geta verið með alls konar kyntjáningu og áhugamál óháð kyni.

Trans, sís og kynsegin

Fólk sem upplifir kynvitund sína í samræmi við úthlutað kyn er sís, fólk sem upplifir kynvitund sína í ósamræmi við úthlutað kyn er trans. Það er þó allur gangur á því hvernig fólk upplifir kyn sitt og hvaða hugtök það notar til að lýsa sér. Börn gætu tengt við og notað hugtakið trans, önnur nota það hugtak e.t.v. ekki og tala einfaldlega um sig sem stelpur eða stráka (eða stálp).

  • Barn sem upplifir sig sem það kyn sem því var úthlutað við fæðingu er líklegast sís (andstæðan við trans).
  • Barn sem upplifir sig sem stelpu, en var úthlutað karlkyni við fæðingu er líklegast trans stelpa.
  • Barn sem upplifir sig sem strák, en var úthlutað kvenkyni við fæðingu er líklegast trans strákur.
  • Barn sem upplifir sig sem hvorki stelpu né strák, blöndu af bæði, eða stundum stelpu og stundum strák er líklegast kynsegin.

Kyn og fornöfn

Hugtak sem er notað yfir fullorðið kynsegin fólk er kvár. Hugtak sem er notað yfir kynsegin börn er stálp. Þessi hugtök eru sambærileg öðrum kyngreinandi hugtökum sem við notum um fullorðið fólk og börn svo sem kona, karl, stelpa og strákur. Þá er það oft svo að kynsegin fólk notar kynhlutlaus fornöfn á borð við hán (sem beygist eins og lán) en það er þó allur gangur á því og ávallt best að spyrja viðkomandi ef þú ert í vafa. Mikilvægt er að muna að hán er persónufornafn en ekki nafnorð og gera sitt besta við að nota það rétt.

 

Kona
Karl
Kvár
Stelpa
Strákur
Stálp
Hún
Hann
Hán*

*Athugið að það eru fleiri kynhlutlaus persónufornöfn í notkun og gott að spyrja viðkomandi ef þú veist ekki hvaða fornafn skal nota.

 

Staða trans barna og stuðningur

Það er engin ein rétt leið til að koma út og vera trans og er það oftast ákveðið ferli sem tekur sinn tíma. Mikilvægast er að veita barni sýnilegan og virkan stuðning. Þá er gott að átta sig á því að það er ekkert próf eða athugun sem getur sagt til um hvort barn sé trans eða sís. Eins er ekkert sem mun gera barn trans eða sís, það sem er hægt að stýra í þessu samhengi er stuðningurinn sem barnið upplifir.

 

Reynsla fagfólks sýnir að trans börn upplifa reiði, kvíða og þunglyndi, eiga á hættu að stunda sjálfsskaða, eiga frekar við átröskun að stríða og takast á við annan geðrænan vanda í hærra hlutfalli en sís börn. Á þetta sérstaklega við hjá þeim trans börnum sem upplifa þöggun og bælingu á kynvitund sinni. Það er því lykilatriði að trans börn njóti stuðnings og virðingar, þá sérstaklega frá sínum nánustu. Hægt er að lesa bækur um trans börn bæði fyrir fullorðna en einnig með börnum til að auka þekkingu og opna á samtöl um líðan, kyn og kynvitund. 

 

Þegar barn er að koma út sem trans eða með aðra kynvitund en búist var við er gott fyrir forsjáraðila og nákomna að leita ráðgjafar og stuðnings. Slíkt er hægt að fá án endurgjalds hjá Samtökunum '78 en þau eru með ráðgjafaþjónustu og halda úti stuðningshópi fyrir aðstandendur trans barna. Opinber aðstoð við trans börn og fullorðna innan heilbrigðiskerfisins er bundin við greiningu á kynama og fer fram á geðdeild Landsspítalans og BUGL. Trans börn geta fengið nafni sínu og kynskráningu breytt hjá Þjóðskrá þegar þau hafa náð 15 ára aldri, en fyrir þann tíma geta þau fengið þessar breytingar í gegn með samþykki forsjáraðila.

Teikning af hjónum með ungling á milli sín.

Kynstaðfesting

Þegar trans börn eiga í hlut er almennt talað um félagslega kynstaðfestingu. Það getur þýtt að þau að safna hári/klippa hár, breyta klæðnaði, framkomu, tjáningu að öðru leyti og nota annað nafn og fornafn. Slíkar breytingar eru oft á tíðum einfaldar og óvaranlegar en mjög mikilvægar og þýðingarmiklar fyrir barnið sem á í hlut. Börn fara ekki í aðgerðir eða varanlegar breytingar á líkömum sínum.

Þegar trans ungmenni eiga í hlut er félagsleg kynstaðfesting jafn mikilvæg, en í einhverjum tilfellum fá trans ungmenni hormónablokkera um og á kynþroskaskeiðinu. Blokkerarnir gera það að verkum að kynþroskinn er í raun settur á pásu. Slíkt er notað þegar ungmenni upplifa kynama (djúpstæða vanlíðan) í tengslum við líkama sinn og kyneinkenni. Ef svo fer að barnið vill halda kynþroskanum áfram þá hættir það að taka inn hormónablokkerana. Ef ungmennið heldur áfram á sömu braut fær það að öllum líkindum krosshormóna síðar. Þessi heilbrigðisþjónusta er veitt hjá Trans teymi BUGL, en frumgreining þarf að eiga sér stað áður en leitað er þangað.

Ef trans einstaklingur vill svo frekari úrræði á borð við krosshormóna og aðgerðir (mögulegt við 18 ára aldur) þarf hann að leita til Trans teymis Landspítala Íslands. Sumt trans fólk fer í aðgerðir eða tekur inn hormón til að breyta líkama sínum og útliti og þannig samræma það við kynvitund sína og er það yfirleitt kallað kynstaðfestandi ferli (stundum kynleiðréttingarferli), en hluti þess lýkur e.t.v. aldrei, t.d. inntaka hormóna. Annað trans fólk vill e.t.v. ekki fara í aðgerðir og/eða taka inn hormóna. Upplifun og þar með kynstaðfesting trans fólks er einstaklingsbundin og alls konar. En trans tengda heilbrigðisþjónustan sem stendur trans fólki til boða er lífsnauðsynleg.