Háubakkar

Útivistarsvæði

Súðarvogur/Naustavogur
104 Reykjavík

""

Um Háubakka

Háubakkar er eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Þar er að finna þykk setlög sem bera vegsummerki um áhrif loftslagsbreytinga á ísöld.

Háubakkar er setlagasyrpa í Elliðaárvogi þar sem er að finna sjávar- og þurrlendissetlög sem í eru steingervingar þar á meðal surtarbrandur. Háubakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Grunnupplýsingar

Stærð: Friðlýsta svæðið er 2,1 hektarar.

Reglur: Um friðlýsta svæðið gilda ákveðnar reglur samkvæmt náttúruverndarlögum. Jarðvegsnám og aðrar framkvæmdir eru bannaðar nema með leyfi frá Umhverfisstofnun. Ganga skal snyrtilega um svæðið og gæta þess að valda ekki tjóni á jarðminjum.

Samgöngur:

  • Bílastæði við Naustavog
  • Göngu- og hjólastígur liggur rétt við svæðið samhliða Naustavogi.
  • Strætóleiðir: 5-12. Stöð: Vogar.

Jarðfræði

Setlögin í Háubökkum tilheyra svokölluðum Elliðavogslögum sem mynduðust að öllum líkindum á löngu tímabili sem hófst fyrir meira en 300 þúsund árum og varði í a.m.k. 100 þúsund ár. Bæði er um sjávar- og þurrlendisset að ræða sem bendir til þess að sjávarstaða hafi verið allbreytileg á þeim tíma er setlögin mynduðust. Elliðavogslögin eru talin ná frá Brimnesi suður að Álftanesi en Háubakkar eru með betri stöðum þar sem opnur eru að setlögunum sem víðast hvar eru grafin fyrir neðan yngri hraun- og setlög. Fyrir neðan setlögin í Háubökkum er berggrunnur er myndaðist í hinni fornu eldstöð sem kennd er við Viðeyjarsund en eldvirkni í henni lauk fyrir meira en 700 þúsund árum eftir virkni í tæp 2 milljón ár. Elsta berg í Reykjavík er myndað í þeirri eldstöð. Neðstu setlögin eru jökulberg sem er líklega rúmlega 300 þúsund ára gamalt. Fyrir ofan jökulbergið taka við sjávarsetslög sem benda til hærri sjávarstöðu í kjölfar þess að jöklar bráðnuðu. Í sjávarsetlögunum er nokkuð af steingervingum, einkum samlokutegundir líkt og hallloka, kúfskel, krókskel og gljáhnytla. Þessar tegundir eru nokkuð kuldasæknar sem benda til þess að hiti sjávar hafi verið 1-2° C svalari en í dag. Fyrir ofan sjávarsetið er meira jökulberg sem er talið vera um 250 þúsund ára gamalt. Efst í setlögunum taka þurrlendisset og einkum er um að ræða móset, m.a. surtarbrand sem er um 200 þúsund ára gamall og bendir til þess að gróskusamt votlendi hafi verið á svæðinu og loftslag eilítið hlýrra en nú tíðkast. Ýmsar plöntuleifar er að finna í surtarbrandinum. Hugsanlegt er að Reykjavíkurgrágrýtið hafi runnið á sama hlýskeiði og surtarbrandurinn myndaðist en það liggur ofan á Háubakkasetlögunum.

Heimildir

  • Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík of nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117.
  • Bjarni Richter (1995): Jarðlagaskipun og ásýnd setlaga í Reykjavík vestan Elliðaáa - Lokaritgerð fyrir B.Sc –próf í jarðfræði frá Háskóla Íslands.
  • Ljósmynd: Snorri Sigurðsson.