Fossvogsbakkar

Útivistarsvæði

Fossvogur
105 Reykjavík

""

Um Fossvogsbakka

Fossvogsbakkar er eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Þar er að finna þykk sjávarsetlög frá lok ísaldar.

Fossvogsbakkar eru innst í Fossvogi og fylgja strandlínunni um 2 km í vesturátt að Nauthólsvík. Á Fossvogsbökkum eru jarðminjar en í bökkunum eru sjávarsetlög frá lok ísaldar fyrir 11.000 árum. Í setlögunum er að finna ýmsa steingervinga, einkum skeljar lindýra. Þá er jökulset í lögunum sem gefa upplýsingar um sögu jökulhörfunar á svæðinu.  Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Grunnupplýsingar

Stærð: Friðlýsta svæðið er 17,8 hektarar.

Reglur: Um friðlýsta svæðið gilda ákveðnar reglur samkvæmt náttúruverndarlögum. Jarðvegsnám og aðrar framkvæmdir eru bannaðar nema með leyfi frá Umhverfisstofnun. Ganga skal snyrtilega um svæðið og gæta þess að valda ekki tjóni á jarðminjum.

Samgöngur:

  • Bílastæði við Nauthólsvík.
  • Göngu- og hjólastígar liggja um svæðið frá Nauthólsvík, Öskjuhlíð, Fossvogsdal og Kópavogi.
  • Strætó: Leið 19 - Stöð: Nauthólsvík /HR

Jarðfræði

Setin í Fossvogsbökkum eru talin vera um 11.000 ára gömul eða frá lok síðustu ísaldar. Líklegast mynduðust þau í einu af síðustu hlýskeiðunum eftir að bráðnun jökla hafði leitt til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Lögin ná yfir 2 km strandlengju en eru þó misþykk og sumstaðar nær rofin í burt af sjávaröflunum. Þykkust eru lögin í botni Fossvogs og vestast í setlagasyrpunni, nálægt Nauthólsvík. Hámarksþykkt setlaganna eru tæpir 5 metrar.

Setlögin liggja ofan á grágrýtisklöpp sem tilheyrir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndaðist við eldsumbrot á hlýskeiðum síðustu ísaldar, sennilega fyrir 100-200 þúsund árum. Neðsta lag setlaganna er jökulberg myndað úr jökulruðningi sem bendir til hörfunar jökla. Má sjá jökulrákir á sumum hnullungum í jökulberglaginu. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög en einnig skálaga sandsteinn á stöku stað. Þetta bendir til þess að sjávarstaða hafi hækkað og að á svæðinu hafi verið grunnsævi.

Í siltsteinslaginu sjást ummerki um gárur og sandöldur sem eru merki um sjávarfallastrauma. Í sjávarsetinu er mikið af steingervingum. Þar er fyrst og fremst um að ræða skeljar samlokutegunda svo sem halloku, rataskel, smyrsling, gimburskel, trönuskel og kúskel auk fleiri tegunda, en einnig skeljar kuðunga líkt og beitukóngs og skeljar hrúðurkarla. Flestir steingervingarnir finnast óbrotnir í lífstöðu sem bendir til þess að setið hafi myndast við kyrrlátar aðstæður.

Ofan á sjávarsetinu má finna meira jökulberg sem bendir til þess að allra síðustu jökulskeið ísaldar hafa átt sér stað eftir að setlögin mynduðust. Í þessu jökulbergi eru ummerki um áhrif rennandi vatns áberandi sem bendir til þess að jökullinn hafi verið þunnur og hreyfanlegur, enda ísöldin endanlega að líða undir lok.

Heimildir

  • Auglýsing um Friðlýsingu Fossvogsbakka í Reykjavík (1999). Stjórnartíðindi, B-deild, nr. 236.
  • Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík og nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117
  • Áslaug Geirsdóttir (1979): Fossvogslögin – Lokaritgerð fyrir B.Sc –próf í jarðfræði frá Háskóla Íslands
  • Ljósmynd: Snorri Sigurðsson.