Endurhæfing í Virknihúsi

Í Virknihúsi getur fólk farið margþættar leiðir í endurhæfingu fyrir þátttöku á vinnumarkaði eða í átt til aukinnar virkni og þátttöku. Markmiðið er alltaf að bæta lífsgæði fólks og auka tækifæri þess í lífinu með áherslu á sjálfsstyrkingu, nám og bata. 

Hvernig kemst ég í endurhæfingu?

Flest endurhæfingarúrræðin eru fyrir fólk sem er með félagslega ráðgjöf hjá Reykjavíkurborg. Þú hefur samband við þjónustumiðstöð til að biðja um félagslega ráðgjöf. Ráðgjafinn þinn metur síðan í samráði við þig hvaða úrræði henta best þínum þörfum. 

""

Grettistak

Átján mánaða endurhæfing fyrir fólk með langvarandi félagslegan vanda vegna vímuefnaneyslu. Markmiðið er að styðja fólk til sjálfshjálpar með þátttöku í námi eða atvinnu. Áhersla á bata, sjálfsstyrkingu, aukna félagslega færni og almenna virkni í samfélaginu. Að auki er stuðningur til þátttöku í nám, vinnu eða aðra virkni.

Kvennasmiðjan

Endurhæfing fyrir mæður á aldrinum 24-45 ára sem eiga við langvarandi félagslegan vanda að stríða. Markmiðið er að bæta lífsgæði og styðja í nám eða á vinnumarkaðinn. Áhersla á sjálfsstyrkingu, bóklegt og verklegt nám auk þess að bæta  félagslega færni, almenna virkni og aðstoð við atvinnuleit. 

IPS ráðgjöf

Ráðgjöf og aðstoð til einstaklinga á fjárhagsaðstoð með að finna störf með stuðningi. Markmiðið er að bæta lífsgæði einstaklinga og þátttöku með því að fara í starf. Stuðningurinn felst í eftirfylgni, viðtölum og ráðgjöf til bæði til starfsmanns og atvinnurekanda. 

TINNA

Úrræði fyrir einstæða foreldra á aldursbilinu 18-34 ára sem eru með fjárhagsaðstoð, endurhæfingarlífeyri eða örorku. Helsta markmið er að fólk auki lífsgæði sín og barna sinna. Áætlun er gerð í samræmi við einstaklinginn með það að markmiði að auka sjálfsstyrkingu, virkni og þátttöku í leik og starfi. Lengd tímabils er einstaklingsbundið. 

Bataskóli Íslands

Bataskólinn er fyrir 18 ára og eldri einstaklinga sem eru með geðrænar áskoranir. Boðið er upp á fjölbreytt námskeið sem samin eru og flutt af fólki með mismunandi bakgrunn. Bataskólinn starfar eftir batamiðaðri hugmyndafræði. Hægt er að sækja beint um nám í Bataskólanum án þess að vera með félagslega ráðgjöf frá Reykjavíkurborg.

Hugarafl

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar er með samning við Hugarafl sem þjónustar einstaklinga með fjárhagsaðstoð og þurfa á endurhæfingu að halda vegna geðrænna áskorana.