Gæði og eftirlit

Dagforeldrar starfa sjálfstætt en Reykjavíkurborg sinnir eftirliti með daggæslu og fer í þrjár óboðaðar eftirlitsheimsóknir árlega á hvern starfsstað.

Viðmið um gæðastarf

Til eru viðmið um gæðastarf í daggæslu unnin út frá reglugerð um daggæslu í heimahúsum. Þau eru ætluð bæði fyrir foreldra og dagforeldra. Dagforeldrar geta nýtt sér þau til að skipuleggja starfið eða meta hvar þeirra daggæsla stendur.

Foreldrar geta nýtt sér viðmiðin til að skilja betur hver markmið með daggæslu í heimahúsum eru og hvaða atriði er mikilvægt að hafa í huga þegar leitað er að dagforeldri. 

Óviðunandi aðstæður

Ef eitthvað veldur þér áhyggjum í daggæslunni er mikilvægt að koma með ábendingar og athugasemdir við dagforeldrið eða daggæsluráðgjafa á Suðurmiðstöð, Breiðholti. Hægt er að hafa samband við daggæsluráðgjafa í netfangið daggaesla.umsjon@reykjavik.is

 

Ef þú telur að aðstæður barna séu með óviðunandi hætti ber bæði foreldrum og dagforeldrum að tilkynna það til Barnaverndar. Hægt er að óska eftir nafnleynd.