Dagforeldrar
Dagforeldrar í Reykjavík eru sjálfstætt starfandi og gæta barna frá sex/níu mánaða aldri. Dagforeldrar ákveða sjálf sína gjaldskrá, en borgin niðurgreiðir hluta af vistunargjaldinu.
Að sækja um hjá dagforeldri
Til að skrá barnið þitt hjá dagforeldri hefur þú samband við viðkomandi dagforeldri. Hafðu í huga að margir dagforeldrar eru með biðlista eftir plássum, svo það er gott að hafa samband með góðum fyrirvara.
Það eru engin pláss laus, hvað á ég að gera?
Dagforeldrar halda sjálf utan um sína biðlista og geta veitt frekari upplýsingar um stöðu þeirra. Þó að ekkert sé laust einmitt núna þá gæti borgað sig að hafa samband og ræða málin. Önnur úrræði sem vert er að skoða eru sjálfstætt starfandi leikskólar og ungbarnaleikskólar borgarinnar.
Hvað kostar að vera hjá dagforeldri?
Dagforeldrar ákveða sjálf sína gjaldskrá, en borgin niðurgreiðir hluta af vistunargjaldinu. Þá er boðið upp á aukalega niðurgreiðslu fyrir börn sem hafa náð 18 mánaða aldri.
Þá hafa dagforeldrar leyfi til að bæta við öðrum gjöldum, til dæmis fyrir bleyjur eða sérfæði.
Hvernig virka niðurgreiðslur?
Niðurgreiðsla af vistunargjaldi hjá dagforeldri ræðst af hjúskapar- og námsstöðu forsjáraðila. Niðurgreiðslan er greidd beint til dagforeldra. Það þýðir að reikningurinn sem berst frá dagforeldri er nú þegar með niðurgreiðslu og er sú upphæð sem forsjáraðilar þurfa að greiða úr eigin vasa.
Ef barn hefur náð 18 mánaða aldri hækkar niðurgreiðsla sjálfkrafa og þá greiða forsjáraðilar jafnmikið fyrir vistun hjá dagforeldri og þau myndu annars greiða fyrir leikskóla.
Að velja dagforeldri
Það er stórt skref að setja barnið sitt í fyrsta skipti í dagvistun og því mikilvægt að vanda valið og kanna allar aðstæður vel. Dagforeldrar gæta barna frá allt að sex mánaða aldri og vinna mikilvægt umönnunar- og uppeldisstarf.
Bættar aðstæður dagforeldra
Aðstæður dagforeldra hafa verið bættar til að hvetja til nýliðunar í hópi dagforeldra í Reykjavík. Stofnstyrkur til dagforeldra var hækkaður, boðið er upp á árlegan aðstöðustyrk og endurmenntun hefur verið bætt. Hækkuð var niðurgreiðsla til barna sem náð hafa 18 mánaða aldri.
Langar þig að gerast dagforeldri?
Dagforeldrar í Reykjavík eru sjálfstætt starfandi, en Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála veitir rekstrarleyfi til þeirra.
Getum við aðstoðað?
Daggæsluráðgjafar starfa í Suðurmiðstöð. Þeir sinna lögbundnu eftirliti með starfsemi dagforeldra, ráðgjöf til dagforeldra, ráðgjöf til foreldra og sjá um að greiða niðurgreiðslur til dagforeldra. Hægt er að hafa samband við daggæsluráðgjafa í gegnum netfangið daggaesla.umsjon@reykjavik.is