Dagvinna

Heimilt er að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klukkustundir á viku eða úr 40 í 36 virkar stundir. Við hámarks styttingu (4 stundir) verður grein 3.1 um matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili óvirk. Við lágmarks styttingu (13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku) haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi.

Hvað er betri vinnutími?

Upplýsingar um breytingu á vinnutíma dagvinnufólks er að finna í fylgiskjölum þeirra stéttarfélaga sem sömdu um slíkt. Efnisinnihald fylgiskjalanna er nákvæmlega það sama en orðalag er lítillega frábrugðið milli samninga. Þá eru dæmin um útfærslu styttingar dagvinnu ekki alls staðar eins.

Ferli við innleiðingu betri vinnutíma

Verklagið sem hér er lýst er í 9 skrefum. Mikilvægt er að viðhafa öfluga upplýsingaöflun og samráð við starfsfólk varðandi innleiðingu styttingar vinnutíma.

Teikning af tveimur konum að skrifa á blað.

1. skref

Ferlið sett af stað

Starfsstaðir Reykjavíkurborgar hafa mjög ólík hlutverk, fjölbreytta daglega starfsemi og ólíka samsetningu mannauðs. Fyrir vikið er mikilvægt að betri vinnutími sé útfærður í nærumhverfinu. 

Í vinnutímahópi eru fulltrúar starfsfólks og starfsstaðar. Stjórnandi skal eiga frumkvæði að því að hefja undirbúning breytinganna og kallar saman sérstakan vinnutímahóp að fengnum tillögum trúnaðarmanna/starfsfólks og stjórnenda. Hópurinn þarf að endurspegla fjölbreytileika starfa og mismunandi aðstæður starfsfólks, s.s. bundna eða sveigjanlega viðveru. Við val á fulltrúum þarf að tryggja að ASÍ, BHM og BSRB eigi hvert sinn fulltrúa að því gefnu að starfsmenn séu félagsmenn í aðildarfélögum þessara heildarsamtaka. Miðað er við  að hóparnir verði fámennir en hver vinnustaður ákveður hvað hentar best.

Verklagið sem hér er lýst er í 9 skrefum. Alltaf skal uppfylla sömu markmið um upplýsingaöflun og samráð við starfsfólk um innleiðingu styttingar vinnutíma.

2. skref

Vinnutímahópur - upplýsingaöflun og greining

Vinnutímahópur kynnir sér fræðsluefni og leiðbeiningar um betri vinnutíma. Þá sinnir vinnutímahópur undirbúningi með upplýsingaöflun og greiningu á starfseminni. Markmið greiningarvinnunnar er að draga fram gagnkvæman ávinning starfsfólks og starfsstaðar af breyttu skipulagi og styttri vinnutíma.

Dæmi um það getur verið:

  • Greining á þjónustu og hvar helstu álagspunktar eru.
  • Greining á eðli starfa og starfsmannahópi.  Breyting á vinnutímafyrirkomulagi á ekki endilega við um alla hópa sem starfa á starfsstað þar sem sumar stéttir eru með annars konar útfærslu á vinnuskyldu en hefðbundna 40 stunda vinnuviku, s.s. kennarar.
  • Skilgreina ávinning starfsfólks og starfsstaðar af breyttu vinnufyrirkomulagi
  • Ræða þarf sóknarfæri í vinnufyrirkomulagi, verklagi, samvinnu og tímastjórnun, t.d.:
    • Hvaða breytingar þarf að gera á vinnufyrirkomulagi til að ná hámarks styttingu?
    • Hvernig má nýta vinnutímann betur?
    • Er hægt að einfalda vinnulag með hjálp tækninýjunga?
    • Hvers kyns sveigjanleika þarf samhliða styttri vinnuviku?

Með upplýsingaöflun og greiningu mótar hópurinn umræðupunkta fyrir samráðsfund með starfsfólki, sbr. 3. skref.

3. skref

Umbótasamtal

Vinnutímahópurinn boðar til samráðsfundar með  starfsfólki starfsstaðar til að ræða breytingar á vinnutíma. Hópurinn kynnir upplýsingaöflun og greiningu. Jafnframt að ræða við starfsfólk hvaða leiðir það sjái til að nýta vinnutímann betur. Þá á að taka til umræðu óskir starfsfólks um breytingu á vinnutíma með hliðsjón af þeirri þjónustu sem starfsstaðurinn veitir og starfseminni. Enn fremur að ræða hvenær breytingin á að taka gildi og/eða hvort ákjósanlegra sé að innleiða breytinguna í skrefum.

Markmið samráðsfundarins er að tryggja aðkomu alls starfsfólks  að samtalinu og ákvörðun um breytingar en það má útfæra með ólíkum hætti eftir því hvað hentar best.  Á stærri starfsstöðum gæti hentað best að starfsfólki sé skipt upp í hópa eftir t.d. deildum. Á minni starfsstöðum gæti hentað betur að samtalið sé óformlegra og í færri skrefum enda gefst öllum kostur á að taka þátt í samtalinu og koma sínum skoðunum á framfæri.

4. skref

Unnið úr tillögum

Vinnutímahópur vinnur úr samtalinu og þeim tillögum sem þar koma fram og gerir tillögur að breyttu skipulagi vinnutíma og skipulagi hléa. Sérstök tillaga skal gerð um skipulag vinnutíma þess starfsfólks sem vinnur störf þar sem sveigjanlegum hléum verður ekki við komið og afleysinga er þörf.

Tillögur um styttingu vinnutíma (fjöldi klst. og lengd hléa) geta verið fleiri en ein en þurfa að vera eins innan vinnustaðar. Tillögur að útfærslu styttingar geta verið mismunandi eftir deildum eða ólíku vinnufyrirkomulagi starfsfólks.

Vinnutímahópur getur ákveðið að kalla eftir frekari gögnum við úrvinnslu tillagna.

5. skref

Samráðsfundur

Vinnutímahópur tilnefnir fulltrúa vinnutímahóps (starfsfólks) sem tekur þátt í samráðsfundi starfsstaða. Markmið samtalsins er að miðla hugmyndum að útfærslu styttingar.

6. skref

Tillögur kynntar og ræddar

Vinnutímahópur kynnir tillögur fyrir starfsfólki og stjórnendum.  Markmið samtalsins er að tryggja að sátt og samstaða sé um tillögur um styttri vinnutíma áður en greidd eru atkvæði um þær.

7. skref

Atkvæðagreiðsla

Starfsfólk og stjórnendur greiða atkvæði um tillögur um styttingu. Að minnsta kosti helmingur starfsfólks þarf að taka þátt og þarf meirihluti að samþykkja tillöguna.

Mögulega þarf að endurtaka atkvæðagreiðslu til að komast að niðurstöðu í þeim tilvikum þar sem tillögur eru fleiri en ein. Sé atkvæði hverrar tillögu með svipaðan stuðning gæti önnur kosning milli tveggja efstu tillagnanna endurspeglað betur vilja meirihlutans og stuðlað að sátt um niðurstöðuna.

Atkvæðagreiðsla.

8a. skref

Tillaga samþykkt

Þegar breytt skipulag og útfærsla vinnutíma starfsstaðar hefur verið samþykkt sendir stjórnandi það hlutaðeigandi sviði til staðfestingar sem sendir afrit til viðkomandi heildarsamtaka launafólks og skrifstofu kjaramála til upplýsingar.

Að fenginni staðfestingu sviðsstjóra á fyrirhuguðum breytingum telst hún samþykkt.

8b. skref

Tillaga felld

Ef tillaga er felld (niðurstaðan er óbreytt skipulag vinnutíma) eða þátttaka starfsfólks nær ekki meirihluta skal senda tilkynningu um árangurslaust samtal til hlutaðeigandi sviðs/sviða sem sendir hlutaðeigandi heildarsamtökum launafólks og skrifstofu kjaramála til upplýsingar.

Sviðsstjóri kallar fulltrúa vinnutímahópa saman og næstu skref eru ákveðin.

Leita má aðstoðar innleiðingahóps sem verður starfræktur á gildistíma kjarasamninga eða til 31. mars 2023.

9. skref

Innleiðing

Breyting á vinnutíma tekur gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021.