Arnarskóli
Sérskóli
Kópavogsbraut 5C
200 Kópavogur
Sérskóli
Arnarskóli er heildstæður grunnskóli fyrir börn með þroskafrávik á grunnskólaaldri. Atferlisíhlutun er notuð í námi og kennslu barnanna. Með heildstæðum skóla er átt við að þjónustan er veitt alla virka daga ársins, skóli, frístund og sumarfrístund fer öll fram á sama stað með sama starfsfólkinu.
Samþykkt hefur verið að Reykjavíkurborg greiði að hámarki framlag til Arnarskóla vegna ellefu nemenda. Forgang eiga nemendur með lögheimili í Reykjavík sem nú þegar eru í Arnarskóla að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði verklags um meðferð skóla- og frístundasviðs vegna umsókna í sjálfstætt rekinn sérskóla.
Hvernig er sótt um i Arnarskóla?
Þar sem Arnarskóli er utan sveitarfélags er umsóknarferlið tvíþætt. Annars vegar þarf að sækja um mat á stöðu nemandans í námi og skólavist hjá skóla- og frístundasviði og hins vegar hjá Arnarskóla.
Forsjáraðilar sem hyggjast sækja um skólavist í Arnarskóla fyrir börn sín skila inn umsókn til skóla- og frístundasviðs fyrir 1. febrúar ár hvert og til Arnarskóla fyrir 1. mars ár hvert.
Ferlið er með þeim hætti að foreldrar sem óska eftir skólavist í Arnarskóla fyrir barn sitt geta óskað eftir að fram fari mat á stöðu nemandans í námi til samræmis við samþykkt verklag áður en foreldrar sækja um í Arnarskóla. Óska þarf eftir slíku mati fyrir 1. febrúar ár hvert.
Jafnframt þarf að leggja fram beiðni um skólavist í grunnskóla í sveitarfélagi utan lögheimilis nemanda fyrir sama tíma.
Samþykkt hefur verið að Reykjavíkurborg greiði að hámarki framlag til Arnarskóla vegna ellefu nemenda. Forgang eiga nemendur með lögheimili í Reykjavík sem nú þegar eru í Arnarskóla að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði verklags um meðferð skóla- og frístundasviðs vegna umsókna í sjálfstætt rekinn sérskóla.
- Umsókn um námsvist í grunnskóla í sveitarfélagi utan lögheimilis nemanda
- Beiðni um skólavist í Arnarskóla
Berist skóla- og frístundasviði beiðni um mat á stöðu nemandans í námi vegna ráðgerðar umsóknar í Arnarskóla mun skóla og frístundasvið kalla eftir frekari gögnum frá forsjáraðilum svo sérstakt matsteymi geti lagt mat á umsókn til samræmis við samþykkt verklag um umsóknarferlið.