Öruggar borgir á Norðurlöndunum

Öruggar borgir á Norðurlöndunum, Nordic Safe Cities, er bandalag borga sem vinna að því að auka öryggi í borgum á Norðurlöndunum. Samtökin aðstoða aðildarborgir við  að auka öryggi í borgum, standa gegn aukinni skautun og berjast gegn öfgahyggju og hatri. Nordic Safe Cities Alliance var stofnað af norrænu Ráðherranefndinni árið 2016 og eru í dag sjálfstæð félagasamtök. Reykjavíkurborg hefur verið aðili að samtökunum síðan 2017.

 

Aðild Reykjavíkurborgar

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa heldur utan um aðild Reykjavíkurborgar að Nordic Safe Cities. Ofbeldisvarnarnefnd (nú mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð) samþykkti tillögur um áframhaldandi þátttöku Reykjavíkurborgar í Nordic Safe Cities 8. júní 2020 og um leið stofnun starfshóps til þess að vinna að þessari áætlanagerð og skila tillögum um næstu skref. 

Markmið Nordic Safe Cities

Nordic Safe Cities leggja áherslu á sex svið sem taka öll mið af mismunandi þáttum borgarmenningar. Markmiðið er að gera borgir og íbúa þeirra öruggari. 

Sviðin eru eftirfarandi: 

  1. Örugg almenningsrými 
  2. Öruggur vefur 
  3. Sterkar fjölskyldur 
  4. Öruggar opinberar stofnanir 
  5. Sterk ungmennatengsl  
  6. Örugg samfélög

Lögð er sérstök áhersla á:

  1. Forvarnir og að tryggja þátttöku barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi, m.a. með því að ná til og byggja upp tengsl við fjölskyldur þeirra 
  2. Samtal við íbúa, þá sérstaklega ungmenni, minnihlutahópa og hópa sem eru lítið tengdir við samfélag sitt 
  3. Fræðslu um hatursorðræðu inn í stjórnkerfið sem og gagnsæjar og áreiðanlegar upplýsingar um neikvæð áhrif þess á íbúa og lýðræði 
  4. Borgarskipulag sem eykur hlutdeild og ábyrgð fólks á sínu nærumhverfi

Hafðu samband

Hægt er að hafa samband við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ef þú vilt vita meira.

  • Upplýsingar veitir Guðný Bára Jónsdóttir sérfræðingur á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.