Vörulosun

Þrátt fyrir að vörulestun- og losun sé nauðsynlegur hluti af borgarlífinu þá getur samspil hennar og annarrar umferðar skapað vandamál. Hér fyrir neðan getur þú kynnt þér gildandi reglur og nálgast leiðbeiningar sem ætlað er að tryggja að allt gangi sem best fyrir sig.

Almennar reglur um vörulosun

Við vörulosun þarf að gæta þess að ekki skapist hætta eða óþarfa óþægindi fyrir aðra umferð. Ökutækið skal staðsett í merktu stæði eða við ystu brún götu og hægra megin miðað við akstursstefnu, nema annað sé gefið til kynna með skiltum eða öðrum merkingum. Gæta þarf að dyr ökutækisins opnist ekki á hátt sem valdið getur hættu eða óþarfa óþægindum. 

Heimilt er að stöðva ökutæki í skamman tíma til vörulosunar við götukant, þar sem umferðarmerki gefur til kynna bann við lagningu ökutækja.  

Vörulosun í göngugötum

Í göngugötum er vörulosun einungis leyfð á skilgreindum vörulosunartímum sem fram koma á umferðarmerki við götuna. Vörulosunartímar á göngugötum í Reykjavík eru milli kl. 07.00 og 11.00 frá mánudegi til föstudags og milli kl. 08.00 og 11.00 á laugardögum.

Ef um er að ræða tímabundna göngugötu, er ekki þörf á að greiða stöðugjald þó stöðvað sé í skilgreindu bílastæði. 

Óheimilt er:

  • Að stöðva ökutæki til vörulosunar við götukant, þar sem umferðarmerki gefur til kynna bann við stöðvun ökutækja nema undanþágu fyrir vörulosun sé getið á undirmerki. 
  • Að staðsetja ökutæki við vörulosun á gangstétt, göngustígum, hjólastígum, hjólareinum, umferðareyjum, grassvæðum eða öðrum sambærilegum svæðum sem ekki eru ætluð umferð bifreiða.

Um vörulosun er fjallað í 28. og 29. grein umferðarlaga.

Athugið að ef lagt er í gjaldskylt bifreiðastæði þarf að greiða stöðugjald!

Vörulosun er óheimil á eftirfarandi stöðum:

  • í sérmerktum stæðum, t.d. sérmerkt stæði fyrir fatlaða eða stæði ætluð bílum til rafmagnshleðslu.
  • á gangbraut eða innan 5 metra frá henni. 
  • á vegamótum eða innan 5 metra frá næstu brún akbrautar á þvervegi. 
  • þannig að skyggi á umferðarmerki eða umferðarljós. 
  • í veggöngum, undir brú eða á brú, nema sérstaklega sé gert ráð fyrir því. 
  • þar sem vegsýn er skert - í eða við blindhæð eða beygju eða annars staðar. 
  • þar sem akbraut er skipt í akreinar með óbrotinni mið- eða deililínu milli akreina eða svo nálægt slíkri línu að torveldi akstur inn á rétta akrein. 
  • á hringtorgi. 

Göngugötur

Göngugötur er sá áfangastaður borga sem flestir heimsækja til þess að dvelja á. Flestir sem fara fram um Laugaveg gera það fótgangandi en umferð bifreiða er einnig mikil en þeim fylgir mengun af völdum útblásturs og svifryks.

Göngugötur eru eðlilegur áfangi í þróun borga og hefur reynslan sýnt að íbúar borga vilja göngugötu í miðborgum.