Göngugötur
Göngugötur eru sá áfangastaður borga sem flestir kjósa að heimsækja til þess að dvelja á og njóta. Göngugötur eru jafnan lausar við bílaumferð en henni fylgir mikil mengun af völdum útblásturs, svifryks og hávaða. Göngugötuvæðing er eðlilegur áfangi í þróun borga til að skapa vistvænna, öruggara og heilnæmara umhverfi. Reynslan hefur sýnt að íbúar og gestir borga vilja hafa göngugötur í miðborgum.
Göngugötur
Hvaða áhrif hafa göngugötur á verslun?
Í nágrannalöndum okkar hefur verslun aukist við göngugötuvæðingu. Við göngugötur þrífst jafnan blómleg verslun og þjónusta í rólegu og vistlegu umhverfi. Við göngugötur okkar í borginni eru fjölbreyttar verslanir, veitingastaðir, barir og önnur þjónusta sem eflir mannlíf og styrkir göturnar sem göngugötur.
Hvað með þau sem eiga erfitt með gang?
Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru í hliðargötum eða í nálægð við göngugötur en eins og umferðarlög gefa til kynna þá eru stæði fyrir hreyfihamlaða einnig á flestum göngugötum í dag. Þess ber þó að geta að við akstur á göngugötu skal gæta fullrar varúðar og taka tillit til gangandi vegfarenda sem eru í forgangi á götunni. Ekki skal aka hraðar en á gönguhraða og ef mikil umferð gangandi er við götuna skal leitast við að leggja í hliðargötum.
Hvað með aðkomu neyðarbíla?
Viðbragðsaðilar eins og lögregla, sjúkraflutningar og slökkvilið hafa greiðan aðgang að göngugötusvæðum borgarinnar. Aðgengi þeirra til að athafna sig er betra á göngugötusvæðum en öðrum götum þar sem hindranir eru færri.
Hvað með veðrið?
Frá árinu 1960 hafa göngugötur verið innleiddar víða á Norðurlöndum. Göngugötur má finna í nánast hverjum einasta dönskum, norskum og sænskum bæ óháð stærð, staðsetningu eða veðurfari. Regn, kuldi eða vindur hefur ekki hamlað þessari þróun. Rannsóknir hafa sýnt að sami fjöldi gesta kemur á öllum árstíðum á þessar götur óháð veðri.
Hvað með íbúa við göngugötur?
Íbúar sem á samþykktu skipulagi hafa bílastæði á baklóð fasteignar sem ekki er aðgengilegt með öðrum hætti en akstri um göngugötu, geta sótt um göngugötukort. Það er gert með því að senda tölvupóst á gongugotur@reykjavik.is.
Eingöngu er gefið út eitt göngugötukort fyrir hvert bílastæði sem uppfyllir ofangreind skilyrði. Áður en ekið er um göngugötu skal kortinu komið fyrir með áberandi hætti í bílnum.
Við sérstakar aðstæður geta íbúar einnig fengið afnot af göturýminu utan tilskilins vöruflutningatíma, til dæmis ef staðið er í flutningum, viðgerðum á húseign og svo framvegis.
Hvar á ég að leggja?
Það er ódýrast að leggja í stæði í bílahúsum borgarinnar, Stjörnuport, Vitatorg, Bergstaðir og Traðarkot eru næst göngugötu Laugavegar, Vegamótastígs, Vatnsstígs og Skólavörðustígs. Í nágrenninu eru enn fleiri bílahús þar sem hægt er að finna stæði.
Hvað með viðburði?
Viðburðir mega ekki valda ónæði fyrir íbúa eða rekstraraðila eða skapa hættu. Enn fremur eru flestir viðburðir háðir afnotaleyfi Reykjavíkurborgar.
Undantekningar eru á þessu en viðburður án tónlistar með allt að þremur listamönnum er leyfður alla daga frá klukkan 10-20. Sömuleiðis er tónlistarviðburður með allt að fjórum flytjendum leyfilegur frá klukkan 14-20 virka daga og frá 12-20 um helgar. Í báðum tilfellum er það skylda að listamenn og flytjendur fær sig að minnsta kosti um 50 metra á klukkustundar fresti.
Hvað með útiveitingar?
Rekstraraðilar við göngugötur geta fengið leyfi til að vera með útiveitingar eða stilla upp vöru sinni fyrir framan reksturinn. Þá er sem fyrr lykilatriði að aðgengi bæði gangandi og neyðaraksturs sé ekki skert.
Athygli er vakin á því að útiveitingar ná eingöngu til opnunartíma viðkomandi staðar og að þær eru aldrei leyfðar lengur en til klukkan 23.
Samþykkt um göngugötur
Allar þær reglur sem gilda um notkun göngugatna í Reykjavík er hægt að skoða í samþykkt um göngugötur í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti í 6. september 2022. Þar er farið yfir helstu atriði sem fjallað er um hér í meiri smáatriðum.
Hvað með vörulosun?
Aðgengi fyrir vörulosun er betra á göngugötum þar sem færri hindranir eru en í almennum göturýmum. Vörulosun á flestum göngugötum er heimil fyrir vöruflutningaaðila á milli kl. 07.00-11.00 á morgnana.
Vörulosun sem fer fram án notkunar vélknúinna ökutækja, eins og með rafmagnsreiðhjólum, rafknúnum trillum eða sambærilegum tækjum, er eftir sem áður heimil utan vörulosunartíma.
Kort af leiksvæðum
Þú getur skoðað kort af opnum leiksvæðum og almenningsgörðum.
Tengdar fréttir
Göngugötur í Reykjavík
Okkur langar að heyra í þér!
Hafðu samband í gegnum netfangið gongugotur@reykjavik.is