Notendaskilmálar korta menningar- og íþróttasviðs

Notendaskilmálar kortanna eiga við um sundkort í sundlaugarnar í Reykjavík, Ylströnd og kort í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

1. Samþykki skilmála

Með kaupum og notkun sundkorta í sundlaugarnar í Reykjavík, Ylströnd og korta í Fjölskyldu- og húsdýragarðs af Reykjavíkurborg kt. 530269-7609, samþykkir korthafi að fylgja þessum skilmálum.

2. Skilgreiningar

Eftirtalin hugtök hafa þessa merkingu þar sem þau koma fyrir í skilmálum þessum:

  • Starfsstaðir eru sundlaugarnar í Reykjavík, Ylströnd og Fjölskyldu- og húsdýragarður.
  • Sundlaugarnar í Reykjavík eru:
     
    • Árbæjarlaug
    • Breiðholtslaug
    • Dalslaug
    • Grafarvogslaug
    • Klébergslaug
    • Laugardalslaug
    • Sundhöll Reykjavíkur
    • Vesturbæjarlaug
       
  • Fullorðinn eru einstaklingar sem eru 18 ára og eldri.
  • Skiptakort – sundkort með inneign á ákveðin fjölda ferða.
  • Tímabilskort – kort sem gefið er út með nafni og kennitölu einstaklings og er aðeins til einkanota fyrir þann einstakling.
  • Kortin veita aðgang að sundlaugum í Reykjavík og Fjölskyldu- og húsdýragarði.
  • Kortin eru sjálfsafgreiðslukort sem skanna þarf við aðgangshlið sundlaugar og sýna í afgreiðslu Fjölskyldu- og húsdýragarðs.
  • Kortin eru margnota og hægt er að fylla á þau.
  • Aðgangsauðkenni eru kort, armbönd eða önnur rafræn auðkenni sem veita einstaklingum aðgang í gegnum sjálfsafgreiðsluhlið.

3. Notendareglur

Skiptakort

  • Hægt er að kaupa sundkort/skiptakort með inneign á ákveðinn fjölda ferða.
  • Fleiri en einn einstaklingur getur notað skiptakort.
  • Skiptakort gildir ekki fyrir hópa.
  • Gildistími skiptakorta er 48 mánuðir frá kaupdegi.

Tímabilskort

  • Eru kort sem gefið er út fyrir ákveðinn einstakling og er til einkanota fyrir þann einstakling.
  • Eru aðgreind fyrir börn, fullorðna, aldraða og aðra skilgreinda hópa.
  • Kortið veitir ótakmarkaðar ferðir yfir fyrirfram skilgreint tímabil.
  • Hægt er að nota kortið í sjálfsafgreiðsluhliðum einu sinni á dag en kjósi eigandi að nýta kortið aftur sama dag þarf að snúa sér til afgreiðslu.
  • Mynd er tekin af eiganda tímabilskorta til auðkenningar sé hann yfir 18 ára.
  • Ef korthafi heimilar ekki myndatöku þarf hann að snúa sér til afgreiðslu við hverja komu og sýna skilríki.

Fjölskyldukort

  • Gildir fyrir tvo fullorðna og fjögur börn. Mögulegt er að bæta við fleiri einstaklingum gegn gjaldi.
  • Einungis skráðir korthafar geta notað kortið. Ekki er hægt að skipta út korthöfum á gildistíma.
  • Veitir aðgang á hefðbundnum þjónustutíma og að atburðum sem eru á vegum garðsins.
  • Við notkun kortsins er heimilt að óska eftir framvísum skilríkja.
  • Mynd er tekin af eigendum fjölskyldukorta til auðkenningar séu þeir yfir 18 ára.
  • Ef korthafi heimilar ekki myndatöku þarf hann að snúa sér til afgreiðslu við hverja komu og sýna skilríki.

Reglur þessar gilda yfir öll útgefin kort menningar- og íþróttasviðs á vegum Reykjavíkurborgar.

4. Gjaldskrá

Reykjavíkurborg gefur árlega út gjaldskrá fyrir starfsstaði Reykjavíkurborgar í Reykjavík. Gjaldskrá hvers árs er aðgengileg á heimasíðu Reykjavíkurborgar og hangir uppi á starfsstöðum.

5. Skilareglur

Skiptakortum er ekki hægt að skipta yfir í tímabilskort.

Ekki er hægt að leggja inn kort tímabundið.

Ekki er boðið upp á framselja tímabilskort á aðra kennitölu.

6. Vanefndir, lokun korta

Ef korthafi gerist brotlegur við notendareglur samkvæmt skilmálum þessum hefur Reykjavíkurborg heimild til að afturkalla og loka korti fyrirvaralaust .

7. Glötuð kort

Korthafi getur tilkynnt glatað kort á næsta starfsstað eða sent póst á sundkort@reykjavik.is og fengið inneign sína flutta yfir á nýtt aðgangsauðkenni.

Greitt skal fyrir nýtt aðgangsauðkenni samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

Korthafi ber ábyrgð á allri notkun kortsins fram að lokun þess.

Finni einstaklingur kort er honum óheimilt að nota það. Mælst er til að tilkynna fund kortsins á sundkort@reykjavik.is eða skila því í afgreiðslu næsta starfsstaðar Reykjavíkurborgar.

8. Misnotkun á kortum

Verði einstaklingur uppvís að því að framvísa tímabilskorti/fjölskyldukorti sem skráð er á annan einstakling hefur Reykjavíkurborg heimild til þess að loka viðkomandi korti.

9. Persónuvernd

Um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Reykjavíkurborgar gilda lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 (persónuverndarlög). Með því að samþykkja skilmála þessa veitir korthafi Reykjavíkurborg heimild til að vinna með gögn sem verða til við notkun kortanna.

Vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við notkun korts fer fram af hálfu menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkur. Megintilgangur vinnslu persónuupplýsinga er að veita þá þjónustu sem korthafi hefur óskað eftir og veitt er með framvísun kortsins. Vinnslan byggir á upplýstu samþykki hins skráða.

Veiti notandi ekki umbeðnar persónuupplýsingar getur það leitt til þess að ekki verði unnt að samþykkja umsókn um útgáfu korts. Þá á notandi á rétt á að draga samþykki sitt til baka hvenær sem er. Afturköllun samþykkis mun þó ekki hafa áhrif á lögmæti vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli samþykkisins fram að afturkölluninni. Uppsögn vegna samnings um kort skal beina á netfangið sundkort@reykjavik.is. Þá er einnig unnt að hafa samband símleiðis í síma 411 1111. Aðgangur að vinnslu persónuupplýsinga er takmarkaður við það starfsfólk sem þurfa hann starfs síns vegna.

Reykjavíkurborg notar upplýsingar um nafn, mynd, kennitölu og netfang korthafa til að auðkenna hann í hliðum þjónustustöðva. Persónuupplýsingar þessar eru jafnframt unnar í þeim tilgangi að opna og endurútgefa glötuð kort ef við á, sem og til að framkvæma flutning á inneignum notenda á milli auðkenna, sé þess óskað. Þá kann Reykjavíkurborg að nota tengiliðaupplýsingar korthafa til að gera honum viðvart ef röskun verður á þjónustu.

Reykjavíkurborg mun einnig nýta persónuupplýsingar notenda í því skyni að framkvæma tölfræðilegar greiningar í því skyni að bæta þjónustu til notenda og greina notkun hennar, svo sem til þess að sjá hversu margir gestir eru inni á hverju þjónustusvæði hverju sinni.

Í þeim tilfellum sem starfsfólk Reykjavíkurborgar óskar eftir útgáfu korts er persónuupplýsingum miðlað frá næsta yfirmanni til skrifstofu menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkur svo unnt sé að gefa út kort í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um starfskjör.

Notendur geta á hvaða tíma sem er óskað eftir upplýsingum um þær persónuupplýsingar sem varðveittar eru í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.

Hafa má samband við persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar í síma 411 1111 eða með því að senda tölvupóst á netfangið personuverndarfulltrui@reykjavik.is.

10. Lög og varnarþing

Skilmálar þessir fara eftir íslenskum lögum, svo og öll mál sem rísa kunna af notkun nema um annað sé sérstaklega samið.

Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

11. Gildistími

Skilmálar þessir gilda frá 28. ágúst 2019

 

Reykjavík, 24. ágúst 2019.