Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar

Teikning af tveim húsum.

Ár hvert eru veittar viðurkenningar fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum og fyrir lóðir þjónustu-, stofnana- og fjölbýlishúsa sem þykja til fyrirmyndar. 

Fegrunarnefnd

Fegrunarnefnd Reykjavíkurborgar var skipuð í maí árið 1968. Eftirtalin félagssamtök áttu fulltrúa í nefndinni: Arkitektafélag Íslands, Húsmæðrafélag Reykjavíkur, Garðyrkjufélag Íslands og Húseigendafélag Reykjavíkur. Af hálfu borgarinnar voru skipaðir í fegrunarnefnd þeir Hafliði Jónsson, þáverandi garðyrkjustjóri í Reykjavík, Gísli B. Björnsson, grafískur hönnuður og Gunnar Helgason, borgarfulltrúi sem var hvatamaður að stofnun fegrunarnefndar.

Á afmæli Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst árið 1968 valdi Fegrunarnefndin í fyrsta sinn fegurstu götu Reykjavíkurborgar og varð Safamýri fyrir valinu. Margar fleiri götur í Reykjavík þóttu til sóma fyrir útlit borgarinnar t.d. Einimelur, Hvassaleiti, Kleifarvegur og Sporðagrunnur.

Árlega uppfrá því hafa fegrunarviðurkenningar verið afhentar fyrir falleg hús og lóðir í Reykjavík, oftar en ekki í tengslum við afmæli Reykjavíkurborgar, eða um haustið.

 

Sendu inn hugmynd eða ábendingu

Óskað er eftir ábendingum um hús og lóðir sem verðskulda fegrunarviðurkenningu í ár.

Valið verður í höndum vinnuhóps sem skipaður er fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði og Borgarsögusafni.

Ábendingar skulu sendar inn með tölvupósti merktum Fegrunarviðurkenningar 2025 á skipulag@reykjavik.is í síðasta lagi þann 4. júlí 2025.

Teikning af húsi sem er eins og blómapottur í laginu og kona vökvar gróður á þakinu