Hljómskálagarðurinn, Tjörnin og Vatnsmýrin
Útivistarsvæði
Hljómskálagarður
101 Reykjavík
Um svæðið
Fá opin svæði í Reykjavík eiga sér fastari sess í hjörtum borgarbúa en Tjörnin og hennar nánasta umhverfi, Hljómskálagarðurinn og Vatnsmýrin þar sem náttúra og mannlíf mætast í miðri stórborg á einstakan máta.
Við norðurenda Tjarnarinnar hófst þéttbýlismyndun í Reykjavík á 18. öld og síðan þá hefur Tjörnin verið miðpunktur byggðar í Reykjavík og mikilvægt svæði fyrir útivist og leiki. Fyrir höfuðborg sem er að mestu umkringd sjó er einstakt að hafa svo stóra ferskvatnstjörn í miðju borgarinnar. Hið auðuga lífríki Tjarnarinnar, einkum hið fjölskrúðuga fuglalíf hefur mikið aðdráttarafl fyrir borgarbúa. Lagt hefur verið kapp að því að hlúa að velferð fuglalífsins meðal annars með verndun votlendisins í Vatnsmýri sunnan Hringbrautar en þar er nú friðland fyrir fugla sem Reykjavíkurborg stendur að í samstarfi við Háskóla Íslands og Norræna Húsið. Hljómskálagarðurinn við Suðurtjörn er með stærri almenningsgörðum í Reykjavík. Hann á nafn sitt að rekja til Hljómskálans sem reis 1923 og hefur löngum verið æfingastaður reykvískra lúðrasveita. Fjöldi smærri almenningsgarða eru í nágrenni Tjarnarinnar t.d. Hallargarðurinn, Mæðragarðurinn og Austurvöllur. Við Tjörnina og nálægar götur standa mörg merk hús t.a.m. Ráðhús Reykjavíkur, Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu, Iðnó, Fríkirkjan, Listasafn Íslands og Kvennaskólinn að ógleymdum Hljómskálanum.
Grunnupplýsingar
Stærð: Norðurtjörn (6,5 ha), Suðurtjörn (2,2 ha), Friðland í Vatnsmýri (7 ha).
Aldur: Hljómskálagarður (1923). Friðland í Vatnsmýri (1984).
Samöngur:
- Bílastæði við Fríkirkjuveg og Tjarnargötu (gjaldskylda virka daga 10-18, laugardagar 10-16).
- Strætóleiðir: 1-3-6-11-12-13-14. Stöðvar: Fríkirkjuvegur - Ráðhúsið - MR - Háskóli Íslands.
Þar er að finna: Garðyrkja - Fuglalíf - Listaverk - Bekkir - Piknikborð - Leiksvæði - Arkitektúr - Sögulegir staðir - Hátíðahöld - Merkilegar byggingar.
Umhverfi tjarnarinnar
Tjörnin í Reykjavík er gamalt sjávarlón sem lokaðist af fyrir rúmum 1200 árum og varð smám saman að ferskvatnstjörn fyrir tilstilli grunnvatnsstrauma úr Vatnsmýri. Afrennsli Tjarnarinnar er Lækurinn sem rennur úr norðausturhorni hennar í norðurátt til sjávar. Hann er nú með öllu neðanjarðar. Tjörnin skiptist nú í tvær tjarnir, Norðurtjörn og Suðurtjörn en rennsli er á milli þeirra. Manngerð smátjörn, Þorfinnstjörn er fyrir sunnan Suðurtjörn. Hljómskálagarðurinn umlykur bæði Suðurtjörn og Þorfinnstjörn og teygir sig auk þess austur að Njarðargötu. Stærri tjarnirnar tvær eru ísilagðar í frostum en heitt vatn er notað til að halda vök opinni við útfall Lækjarins hjá Iðnó. Tjörnin og Vatnsmýrin voru sett á Náttúruminjaskrá 1981 og Friðland fyrir fugla var stofnað 1984 í norðanverðri Vatnsmýrinni. Friðlandið er nú umlukið síkjum og um það liggja göngustígar sem eru opnir vegfarendum utan varptíma. Í Friðlandinu er að finna 83 tegundir háplantna, meðal annars gróður sem er einkennandi fyrir íslensk votlendi svo sem mýrastör, gulstör, hálmgresi, horblaðka og hófsóley. Margvísleg smádýr finnast í tjörninni svo sem krabbaflær, árfætlur, ánar, rykmýslirfur, vatnabobbi og hornsíli.
Fuglalíf
Fuglalífið við Tjörnina hefur verið friðað frá 1919 en fram að því hafði svæðið verið vinsælt meðal skotveiðimanna. Við friðunina jókst mjög þéttleiki og fjölbreytileiki fugla á svæðinu og hefur hið auðuga fuglalíf verið sterkt einkenni Miðborgarinnar síðan þá og þykir mikið bæjarprýði. Samhliða friðun var sett á siglingabann og gátu þá fuglar orpið óáreittir í hólmum Tjarnarinnar, en þeir eru enn þann dag í dag mikilvægustu varpstaðir svæðisins. Einkennistegundir Tjarnarinnar hafa lengstum verið endur, gæsir og álftir. Álftir voru fyrst fluttar á Tjörnina sumarið 1920 og verptu þær þar um stund en í dag er Tjörnin fyrst of fremst nýtt af vetursetufuglum og geldfuglum. Grágæsir eru reglulegir vetrargestir og nokkur pör verpa árlega í Vatnsmýri. Fimm andategundir verpa reglulega við Tjörnina. Þar er stokkönd algengust og mest áberandi. Á síðari hluta 20. aldar voru gerðar varptilraunir með níu aðrar andategundir en einungis fjórar þeirra, duggönd, gargönd, skúfönd og æðarfugl hafa verpt árlega síðan. Rauðhöfðaönd, urtönd og toppönd eru algengir gestir á Tjörninni. Í seinni tíð hafa máfar orðið mjög áberandi við Tjörnina og sækja í brauðið sem vegfarendur gefa andfuglunum. Einkum hefur sílamáfi fjölgað mjög en hettumáfur verpir í hólmum og er áberandi á sumrin. Hrossagaukur hefur verpt í Friðlandinu sem og stelkur og tjaldur og sandlóa verpa í jaðri þess. Ýmsir aðrir vaðfuglar sjást þar á sumrin sem verpa í nágrenni Reykjavíkurflugvallar t.d. heiðlóa, jaðrakan og spói. Þá verpa auðnutittlingar, maríuerlur, skógarþrestir, starar, þúfutittlingar og fleiri spörfuglar verpa í Hljómskálagarðinum og í Friðlandinu. Húsdúfur voru eitt sinn algengar við norðurenda Tjarnarinnar en þeim hefur fækkað á síðustu árum.
Saga
- Þéttbýlismyndun í Reykjavík hófst við norðurenda Tjarnarinnar en þar stóð landnámsbýlið Reykjavík. Meðfram Læknum sem rann norður úr Tjörninni stóðu býlin Stöðlakot og Skálholtskot og fleiri hjáleigur voru vestan við Tjörnina. Með Innréttingunum á sjötta áratug 18. aldar reis lítið verksmiðjuþorp við norðvesturhluta Tjarnarinnar. Þéttbýlið breiddi úr sér og umkringdi Tjörnina að norðanverðu. Dómkirkjan var vígð 1797 en hún stóð mjög nálægt bakka Tjarnarinnar og Alþingishúsið reis við hlið hennar 1881.
- Fyllt var upp í Tjörnina að norðanverðu á síðari hluta 19. aldar þannig að rými til byggðar myndaðist sunnan við Dómkirkjuna þar sem nú er Vonarstræti. Þá var hlaðið í bakka Lækjarins þannig að hann rann í beinum stokki.
- Byggðin meðfram Tjörninni að austanverður reis að mestu í upphafi 20. aldar. Þar á meðal var Fríkirkjan sem var byggð 1903 og hús Thors Jensens og Kvennaskólinn 1908-9. Á sama tíma reis húsaröðin við Tjarnargötu vestan við Tjörnina.
- Brúin yfir Tjörnina (Skothúsvegur) var fyrst reist 1920 fyrir gangandi vegfarendur en hún var stækkuð og opnuð fyrir umferð bíla á stríðsárunum. Þorfinnstjörn var búin til árið 1927 með nokkuð stórum hólma og var ætluð fuglum. Tvær tjarnir voru einnig gerðar í Vatnsmýrinni sunnan Hringbrautar á sjöunda áratug 20. aldar, Vatnsmýrartjörn og Hústjörn. Þær eru nú inni í Fuglafriðlandinu.
- Tjörnin var lengi vel nýtt til ístöku og var stórt íshús reist við austurenda Tjarnarinnar árið 1916 sem nú hýsir Listasafn Íslands. Tjörnin hefur verið vinsælt skautasvell á veturna frá fornu fari og var Skautafélag Reykjavíkur stofnað 1892.
- Hljómskálagarðurinn var búinn til á uppfyllingu eftir að mýrarflói við suðurenda Tjarnarinnar var þurrkaður og fylltur. Trjárækt hófst í garðinum 1914, stærsti trjálundurinn í dag er birkilundurinn austan Bjarkargötu. Hljómskálinn var reistur 1923. Garðurinn stækkaði smátt og smátt til suðurs samhliða aukinni garð- og trjárækt.
- Vatnsmýrin var áður fyrr stórt votlendissvæði sem Reykvíkingar nýttu meðal annars til mótöku. Mýrin var að mestu ræst fram og ræktuð á fyrri hluta 20. aldar og á fimmta áratugnum var Reykjavíkurflugvöllur reistur á svæðinu.
- 1984 var ákveðið að stofna sérstakt Friðland í norðanverðri Vatnsmýrinni ( þar sem Vatnsmýrartjörn og Húsatjörn eru) sem ásamt Tjörninni var sett undir borgarfriðun og síðar hverfisvernd. Haustið 1996 voru síki grafin umhverfis Friðlandið og göngustígar byggðir innan þess sem eru opnir utan varptíma.
- Ráðhús Reykjavíkur stendur við norðausturenda Tjarnarinnar en það var vígt 1992 en fyrst var gert ráð fyrir því á skipulagi árið 1927.
Heimildir
- Guðjón Friðriksson. 1992. Tjörnin og mannlífið. Í Ólafur Karl Nielsen (ritstjóri). 1992. Tjörnin: Saga og lífríki. Reykjavíkurborg. Jóhann Pálsson. 2003.
- Náttúruminjaskrá, 3. útgáfa. 1981. Náttúruverndarráð.
- Ólafur Karl Nielsen. 1992. Saga fuglalífs við Tjörnina. Í Ólafur Karl Nielsen (ritstjóri).1992. Tjörnin: Saga og lífríki. Reykjavíkurborg.
- Ólafur Karl Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson. 2010-2012. Fuglalíf Tjarnarinnar (árlegar ástandsskýrslur).
Ljósmynd af álftum á Tjörninni: Björn Ingvarsson.