Heiðmörk

Útivistarsvæði

Heiðmörk
110 Reykjavík

Heiðmörk

Um Heiðmörk

Heiðmörk er stærsta útivistarsvæðið í nágrenni Reykjavíkur og tilheyrir Græna treflinum sem umlykur allt Höfuðborgarsvæðið. Landsvæði Heiðmerkur fellur undir tvö önnur sveitarfélög auk Reykjavíkur, Garðabæ og Kópavog. Í Heiðmörk er fjölskrúðugt náttúrufar en þar ber mikið á skógrækt sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur sinnt frá upphafi svæðisins sem var friðað árið 1950.

Grunnupplýsingar

Stærð: um 3000 hektarar.

Samgöngur:

 • Á bíl er ekið inn í Heiðmörk eftir Rauðhólavegi frá Þjóðvegi 1 og Hraunslóð frá Þjóðvegi 1 að austanverðu og Hlíðarvegi frá Vífilsstöðum að vestanverðu.
 • Átta áningarstaðir eru í Heiðmörk með bílastæðum og margvíslegri aðstöðu.
 • Göngu- og hjólastígar og reiðleiðir liggja víða um Heiðmörk.
 • Engar almenningssamgöngur liggja inn í Heiðmörk. Nálægustu strætóstöðvar eru í Norðlingaholti (Leiðir 5 og 19), Vatnsendahverfi í Kópavogi (Leið 28) og við Vífilsstaði í Garðabæ (Leið 21). Þaðan er hægt að ganga eða hjóla.

Þar má finna: Skógrækt – Jarðminjar – Fuglalíf – Sögulegir staðir - Gönguleiðir – Hjólaleiðir – Reiðleiðir – Skíðaganga – Sveppatínsla –Berjatínsla -  Grillaðstaða – Bekkir – Pikknikborð – Stangveiði – Útsýnisstaðir – Friðland – Leiksvæði – Fótboltavöllur – Blakvöllur.

Saga

 • Árið 1947 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að stofna "friðland" og "skemmtigarð" fyrir Reykvíkinga í Heiðmörk. Friðlandið var stofnað úr landi Elliðavatnsbæjar og úr hluta landi Hólms og Vatnsenda og síðar bættist við hluti úr landi Vífilsstaða og afrétti Garðatorfu.
 • Skógræktarfélag Reykjavíkur hóf skógrækt í Heiðmörk árið 1950 og hefur sinnt svæðinu alla tíð síðan þá.
 • Rannsóknir á vatnasviði Heiðmerkur fóru fram á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar. Þrjú vatnsverndarsvæði hafa verið stofnuð innan Heiðmerkur.
 • Fornleifarannsóknir hafa verið stundaðar við bæinn Elliðavatn, nánar tiltekið í Þingnesi sem er forn þingstaður. Þar hafa fundist mannvistarleifar frá tímabilinu 900-1100.

Landslag og jarðfræði

Heiðmörk er að mestu láglent svæði en hæstu ásar eru milli 150 og 175 metrar á hæð. Elliðavatn liggur að hluta innan friðlandsins og þar eru nokkur minni vötn t.d. Helluvatn, Hraunhúsatjörn og Myllulækjartjörn. Vatnsföllin Bugða og Suðurá eru í norðurhluta friðlandsins.
Jarðfræði Heiðmerkur endurspeglar ungan aldur svæðisins og nálægð við virkar eldstöðvar. Töluvert er um jarðmyndanir í og nálægt Heiðmörk svo sem hraunfláka og hella (t.d. Maríuhellar). Þekktustu og mest áberandi jarðmyndanir á svæðinu eru Rauðhólar nyrst í Heiðmörk, en þeir eru gervigígar sem mynduðust við gufusprengingar er Leitahraun rann yfir votlendissvæði Elliðavatns.

Gróðurfar

Friðlandið í Heiðmörk er vel gróið svæði. Ræktaður skógur er fyrirferðarmikill eða rúmlega 20% af heildarsvæðinu. Þá er villtur birkiskógur á álíka stóru landsvæði. Mosa- og lyngmóar eru ríkjandi gróður utan skóglendisins en lúpínustóð og graslendi er einnig áberandi. Við Elliðavatn er allstórt votlendissvæði með mýrum og flóum en annars er lítið um votlendi í Heiðmörk. Hátt í 200 tegundir háplantna hafa fundist í Heiðmörk en tegundafjöldi lágplantna og sveppa er einnig töluverður.

Dýralíf

Mikið fuglalíf er í Heiðmörk enda fjölbreytileg búsvæði þar að finna sem eru vinsæl meðal fugla svo sem skóglendi, mólendi og votlendi. Algengustu varptegundirnar eru hrossagaukur, þúfutittlingur, skógarþröstur og auðnutittlingur. Í skóglendinu hafa nýlegir landnemar hafið varp t.d. glókollur, krossnefur og skógarsnípa. Við Elliðavatn og tjarnirnar innan vatnsverndarsvæða verpa ýmsir vatnafuglar t.d. álft, grágæs, himbrimi og allmargar andategundir. Rjúpur eru algengar í Heiðmörk, sérstaklega á veturna. Auk hrossagauksins verpa margar aðrar vaðfuglategundir verpa í Heiðmörk t.d. heiðlóa, jaðrakan, lóuþræll, óðinshani, spói og stelkur. Bæði smyrill og fálki sjást reglulega í Heiðmörk sem og branduglur.
Bæði refir og minkar finnast í Heiðmörk og hafa fundist allmörg greni beggja tegunda. Í Elliðavatni hafa fundist allar fimm íslensku ferskvatnsfisktegundirnar, bleikja, lax, urriði, hornsíli og áll. Af öðru vatnalífríki er botndýralíf auðugt í vatninu en svifdýrafánan er fábreyttari.

Heimildir

 • Heimasíða Skógræktarfélags Reykjavíkur
 • Jóhann Óli Hilmarsson. 2010. Fuglalíf í Heiðmörk. Unnið fyrir Reykjavíkurborg og Garðabæ.
 • Kristbjörn Egilsson og Guðmundur Guðjónsson. 2006. Gróður í Heiðmörk. Unnið af Náttúrufræðistofnun fyrir Reykjavíkurborg.