Engey, Akurey, Þerney og Lundey

Útivistarsvæði

Engey
101 Reykjavík

Engey

Um eyjarnar

Eyjarnar í Kollafirði skipa mikilvægan sess í sögu Reykjavíkur en þar hefur verið stundaður búskapur ýmis konar einkum nýting hlunninda svo sem fuglseggja og sjávarfangs en einnig ræktun t.d. akuryrkja. Viðey er þar stærst og þekktust en hinar eyjarnar fjórar Engey, Akurey og Þerney eru ekki síður áhugaverðar og er t.d. á öllum eyjunum mikið fuglavarp. Ekki eru skipulagðar bátsferðir út í eyjurnar en öllum er þó frjálst að heimsækja þær. Allmikið æðarvarp er í Engey og þurfa vegfarendur að taka tillit til þess. Auk þess eru allar eyjarnar á Náttúruminjaskrá. Í Þerney eru bithagar sem nýttir eru sem sumarorlofsstaðir fyrir búfénað úr Húsdýragarðinum, einkum sauðfé og geitur.

Grunnupplýsingar

Stærð: Engey  er næststærst af eyjunum í Kollafirði (Viðey er stærst) eða um 0,4 km2 að flatarmáli og um 1500 m löng. Þerney er álíka stór (0,4 km2) en nokkuð breiðari. Akurey og Lundey eru minnstar. Akurey er láglend og flöt og um 0,25-0,50 ha að flatarmáli. Hún var friðlýst árið 2019. Lundey er um 400 m löng og 150 m breið.

Þar má finna: Fuglalíf – Æðarvarp – Útsýnisstaður – Siglingar.

Saga

Búið hefur verið í Engey að öllum líkindum frá landnámi. Árið 1379 var kirkja vígð í eyjunni af Oddgeir Þorsteinssyni Skálholtsbiskup. Byggð í Engey lauk 1950 og 1966 voru öll hús brennd og rifin.
Engeyingar voru frumkvöðlar í skipasmíði og mótuðu svokallað Engeyjarlag á bátum á síðari hluta 19. Aldar. Fremstur skipasmíða var Kristinn Magnússon sem smíðaði yfir 200 skip.
Árið 1870 var ljósker sett í Engey, einn fyrsti vísir að innsiglingarvita í Reykjavík.
Akuryrkja var stunduð á Akurey og Þerney.

Gróðurfar og dýralíf

Í Engey er mikið um graslendi sem eru að mestu leyti gömul tún. Mýrlendi er á eynni miðri með mýrastör ríkjandi. Þá er fallegur fjörugróður á malarkömbum syðst á eyjunni t.d. baldursbrá, fjörukál og melgresi. Máfar eru mest áberandi af fuglum í Engey, einkum sílamáfar en þar er eitt stærsta sílamáfavarp í landi Reykjavíkur. Þar verpa yfir 100 pör af æðarfuglum og er æðardúntekja af varpinu. Yfir tuttugu tegundir eru líklegir varpfuglar í Engey.

Í Þerney eru einnig gömul tún með grastegundum ríkjandi. Þar hafa fundist dúnhafrar sem eru sjaldgæfir á landsvísu. Einnig finnst kúmen í Þerney. Önnur gróðurlendi eru mýrlendi, flög, grónir melar og fjörugróður. Hátt í 100 háplöntutegundir hafa fundist í Þerney og er gróður fjölbreyttastur þar af eyjunum fjórum. Máfar eru áberandi, svartbakur og sílamáfur verpa í eyjunni. Æðarvarp er einnig í eyjunni og er það stærsta varpið á öllum eyjunum í Kollafirði.
Akurey er gróskumikil vegna áburðar frá fuglum. Nokkrar plöntutegundir eru ríkjandi t.d. haugarfi, húsapuntur, vallarsveifgras, túnsúra og njóli en einnig ætihvönn. Andfuglar eru áberandi á Akurey og líklega verpa um fimm andategundir þar auk grágæsar. Þá er lundavarp í eyjunni og lítið kríuvarp. Þórshani verpti eitt sinn í Akurey en hann er með allra sjaldgæfari fuglum á Íslandi.
Í Lundey er töluvert lundavarp eins og nafnið bendir til en einnig er teistuvarp.

Heimildir

  • Kristbjörn Egilsson, Ævar Petersen, Bergþór Jóhannsson, Haukur Jóhannesson og Agnar Ingólfsson. 1985. Innes. Náttúrufar, minjar og landnýting: Akurey, Engey, Lundey og Þerney, gróður og fuglar. Skýrslur unnar af Náttúrufræðistofnun fyrir Staðarvalsnefnd.
  • Ólafur Einarsson. 1997. Þerney, fuglar 1997. Unnið af Náttúrufræðistofnun fyrir Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar.
  • Þorleifur Óskarsson. 2002. Saga Reykjavíkur: í þúsund ár: 870-1870. Iðunn, Reykjavík.