Sérmerkt stæði
Fatlað fólk sem hefur skerta hreyfigetu og á erfitt með að komast til og frá almennu bílastæði getur átt rétt á sérmerktu bílastæði við hús sitt. Slík bílastæði eru sett upp við lögheimili einstaklinga og aðeins á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
Sérmerkt stæði, sem stundum eru kölluð P-stæði, eru ekki það sama og P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk, sem þú sækir um hjá sýslumönnum.
Á ég rétt á sérmerktu stæði?
Til að eiga rétt á sérmerktu stæði þarft þú að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Eiga lögheimili í Reykjavík.
- Búa við langvarandi hreyfihömlun sem veldur því að þú getur ekki notað almennt bílastæði við heimili þitt.
- Vera með P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk.
Bílastæðið sem sótt er um skal vera á landi í eigu Reykjavíkurborgar. Sérmerktu bílastæði er ekki úthlutað ef bílastæði fylgir íbúð þinni.
Hvernig sæki ég um P-stæði?
Þú fyllir út umsóknarform á Mínum síðum. Þar þarf einnig að skila inn eftirfarandi fylgiskjölum:
- Mynd af P-korti, útgefnu af sýslumanni.
- Læknisvottorð með upplýsingum um hreyfigetu.
Heimilt er að óska eftir eignaskiptasamningi ef upplýsingar um bílastæði sem fylgja eign liggja ekki fyrir.
Hvað gerist næst?
Umsókn er tekin til vinnslu. Farið er yfir læknisvottorð og önnur gögn sem fylgja umsókn og mat lagt á hvort skilyrði eru uppfyllt.
Ef þú uppfyllir skilyrði kannar umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar vettvang, leitar álits Bílastæðasjóðs ef um gjaldskylt stæði er að ræða og gerir tillögu til umhverfis- og skipulagsráðs um afmörkun bílastæðis. Einnig er leitað álits aðgengisfulltrúa Reykjavíkurborgar. Ef ekki fæst samþykki umhverfis- og skipulagsráðs er heimilt að synja veitingu sérmerkts bílastæðis.
Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.
Ef umsókn er samþykkt er gerður skriflegur samningur með ákvæði um tilkynningarskyldu um breyttar aðstæður t.d. ef viðkomandi flytur eða hefur ekki þörf fyrir stæðið lengur. Gildistími samnings er að hámarki 5 ár.
Hver setur upp skilti við sérmerkta stæðið?
Reykjavíkurborg lætur útbúa skilti við sérmerkta stæðið og setja það upp. Umsækjandi greiðir fyrir skiltið sjálft en ekki uppsetningu. Ef gera þarf breytingar við götur eða bílastæði á borgarlandi vegna uppsetningu skiltisins er það gert á kostnað Reykjavíkurborgar.
Lög og reglur
Sérmerkt stæði eru veitt á grundvelli eftirfarandi reglna: