Vilt þú hýsa og/eða reka almenningsmarkað?

Reykjavíkurborg leitar samstarfsaðila til að finna nýjum almenningsmarkaði í Reykjavík gott framtíðarheimili og stuðla þannig að fjölbreyttu mannlífi og spennandi borgarumhverfi.  

Til að efla fjölbreytt og spennandi borgarumhverfi leitar Reykjavíkurborg nú markaðsaðila til samtals um mögulega hýsingu og/eða rekstur nýs almenningsmarkaðar miðsvæðis í borginni.

Almenningsmarkaður-myndskreyting
  • Vilt þú hýsa almenningsmarkað?

Sendu okkur þína hugmynd - opna skráningarform um húsnæði fyrir almenningsmarkað.    

  • Vilt þú reka almenningsmarkað?

Sendu okkur þína hugmynd - opna skráningarform um rekstur almenningsmarkaðar.  

  • Vilt þú selja vörur eða halda viðburði á almenningsmarkaði?

Sendu okkur þína hugmynd - opna skráningarform um vörur og viðburði á almenningsmarkaði.  

Tilgangur með markaðskönnun

Með þessari markaðskönnun er verið að kortleggja áhuga og skoðanir markaðsaðila á mögulegri hýsingu og/eða rekstri almenningsmarkaðar í Reykjavík en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hver aðkoma Reykjavíkurborgar verður til framtíðar. Reykjavíkurborg mun taka saman lista yfir þá aðila sem svara könnuninni og nota gögnin til áframhaldandi þróunar og mögulegs útboðs síðar. 

Hvaða kröfur þarf almenningsmarkaður að uppfylla?

Haustið 2022 fékk Reykjavíkurborg hönnunarstofuna m_studio til að skoða almenningsmarkaði í Reykjavík í víðu samhengi. Greiningin, sem var gerð á árinu 2023, var liður í því að ákveða hvað taka skuli við þegar Kolaportið lokar í Tollhúsinu við Tryggvagötu við flutning Listaháskóla Íslands í húsið. Markmiðið var að skoða mögulegar staðsetningar fyrir nýjan almenningsmarkað, kanna áhrif hans á borgarlífið sem og að greina rýmisþörf, aðgengiskröfur og aðrar þær kröfur sem telja má að að þurfi að uppfylla svo slík starfsemi fái blómstrað og auðgað borgina. Greiningin leiddi til þess að skilgreind voru helstu kröfur til húsnæðisins:

  • að húsnæðið sé sýnilegt og eftirtektarvert
  • að húsnæðið sé í nálægð við aðra þjónustu og á svæði sem fólk safnast nú þegar saman á
  • að gott aðgengi sé að húsnæðinu fyrir fótgangandi og hjólandi, að það sé í nálægð við almenningssamgöngur og að bílastæði séu í grennd
  • að góð aðkoma sé að húsnæðinu fyrir vöruflutninga
  • að húsnæðið henti vel undir starfsemina og sé aðgengilegt öllum

Sjá nánar greiningu m/studio_ 

Rýmisþörf og lofthæð:

Í greiningu m/studio_ er ekki talað um einhverja eina ákveðna stærð varðandi heildar rýmisþörf almenningsmarkaðar en fremur horft til framangreindra viðmiða. Fjallað er um rýmisþörf sölubása, göngu-, veitinga- og viðburðasvæða og rætt um að hentugast sé að húsnæði sé á einni hæð, að það sé sveigjanlegt og að þar sé hátt til lofts og vítt til veggja. Fram kemur að Kolaportið sé í dag um 2.250 m2 að heildargólfleti og talað er um að 1.200 m2 markaður væri í minni kantinum. 

Sjá nánar greiningu m/studio_ 

Staðsetning:

Í greiningunni er fjallað um að æskilegast sé að staðsetning sé miðsvæðis í borgarlífinu og liggi vel við samgöngum. Litið er til ýmissa fyrirmynda erlendis og teflt fram hugmyndum um nokkrar staðsetningar í Reykjavík sem höfundar telja að gæti verið spennandi að skoða frekar og þær greindar út frá framangreindum viðmiðum.

Sjá nánar greiningu m/studio_ 

Umsjón með verkefni

Umsjón með verkefninu hefur atvinnu- og borgarþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Nánari upplýsingar getur þú fengið með því að senda tölvupóst á netfangið athafnaborgin@reykjavik.is 

 

Forsaga málsins

Nánar um verkefnið i heild