Saman gegn ofbeldi

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti vorið 2014 að fara í átak gegn heimilisofbeldi í samstarfi við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið og Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfið á að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi.

Aðstoð fyrir brotaþola

Öll eiga rétt á aðstoð og ofbeldi er aldrei brotaþola að kenna.

 

Ef þú býrð við ofbeldi eða hefur orðið fyrir ofbeldi, eða ef þú þekkir til einhvers sem er í þeim aðstæðum eru ýmis úrræði í boði.

 

Þú getur alltaf hringt í 112, og þú getur líka fengið aðstoð hjá ýmsum grasrótarsamtökum eða félagsþjónustunni.

Aðstoð fyrir gerendur

Heimilisfriður, meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum, býður gerendum ofbeldis í nánum samböndum upp á meðferð.

 

Öll sem leita til Heimilisfriðar byrja í einstaklingsviðtölum.

 

Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja.

Ofbeldi. Hvar get ég leitað hjálpar? (Auðlesinn texti)

Ofbeldi getur verið:

 

Líkamlegt ofbeldi. Til dæmis að kýla, slá og sparka.

 

Andlegt ofbeldi. Til dæmis að hóta, skamma, ógna, niður-lægja og stjórna.

 

Kynferðis-legt ofbeldi. Til dæmis nauðgun eða kynferðis-leg áreitni. Kynferðis-leg áreitni er til dæmis snerting sem þú vilt ekki.

 

Þú getur alltaf hringt í 112.

Hvað er ofbeldi?

Heimilisofbeldi getur verið af ýmsum toga. Hér eru myndbönd sem varpa ljósi á heimilisofbeldi út frá ýmsum hliðum.

Hér á eftir eru upplýsingar um helstu birtingarmyndir þess.

  • Líkamlegt ofbeldi: T.d. kýla, slá, sparka, hrinda.
  • Andlegt ofbeldi: T.d. hóta, skamma, ógna, niðurlægja, stjórna.
  • Kynferðisleg misnotkun: T.d. nauðgun eða kynferðisleg áreitni. Þegar fatlað fólk á í hlut á þetta einnig við athafnir sem fatlaður einstaklingur hefur ekki samþykkt/gæti ekki samþykkt vegna skerðingar eða var þvingaður til að samþykkja.
  • Fjárhagsleg misnotkun: Fjármunum haldið frá fólki/notaðir í ósamræmi við vilja einstaklings.
  • Efnisleg misnotkun: Eignaréttur ekki virtur, hlutir eyðilagðir.
  • Vanræksla: Aðstoð haldið frá viðkomandi, lyfjagjöf ekki sinnt sem skyldi o.fl.
  • Elta eða hóta: Að elta manneskju og sitja fyrir henni gegn vilja hennar - eltihrellir. Hótanir um að birta á netinu nektarmyndir – hrelliklám.
  • Ofbeldi sem felur í sér mismunun: Ofbeldi og áreitni sem beinist t.d. að uppruna, kyni, kynþætti, kynhneigð, kynvitund, skerðingu eða annarri stöðu viðkomandi.
  • Stafrænt ofbeldi: Þegar tækni s.s. sími, tölvupóstur eða samfélagsmiðlar er notuð til að beita ofbeldi. Þetta getur verið að senda stöðugt skilaboð í síma, birta nektarmyndir af viðkomandi í hennar/hans óþökk eða ef gerandi sendir óumbeðnar nektarmyndir af sér. 
  • Heiðurstengt ofbeldi: Ofbeldi sem er framkvæmt í nafni „heiðurs“.
  • Þvingað hjónaband: Hjónaband sem annar eða báðir aðilar eru þvingaðir til að ganga í.
  • Limlesting á kynfærum kvenna: Fjarlægja kynfæri stúlkubarns eða konu að hluta eða öllu leyti.

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi eða vilt fræðast um hvaða aðstoð er í boði er hægt að sjá hér helstu úrræði fyrir brotaþola.

 

Smelltu hér til að lesa dæmisögur um ofbeldi.

Beiðni um skilnað hjá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu

Sýslumaður mun eiga viðtal við aðila máls vegna erindis um skilnað. Í viðtalinu, sem er við lögfræðing, staðfestir aðili beiðni sína og eru veittar upplýsingar um réttaráhrif skilnaðar og þeirra samninga sem gerðir eru um forsjá, lögheimili og meðlag/framfærslu, sem og um tiltæk úrræði ef ágreiningur kemur upp, þ.m.t. um sáttameðferð. Í viðtalinu er fjárskiptasamningur staðfestur ef við á. Viðtalið fer fram á skrifstofu sýslumanns en getur líka verið rafrænt í síma eða myndsíma. Hægt er að óska eftir því að vera ein/einn í viðtalinu.

Hafðu samband

Hægt er að hafa samband við Halldóru Dýrleifar Gunnarsdóttur, verkefnastýru Saman gegn ofbeldis ef þú vilt vita meira.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa

Ráðhúsi Reykjavíkur

Tjarnargata 11, 101 Reykjavík