Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð fór með verkefni jafnréttisnefndar og önnur verkefni á sviði mannréttindamála í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð var starfandi í Reykjavík kjörtímabilið 2018-2022. Á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur þann 19. júní 2018 var ákveðið að sameina mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð. Nýtt ráð heitir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð. Samþykkt fyrir nýtt ráð var afgreidd í borgarstjórn 6. nóvember 2018. Á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur 21. júní 2022 var stofnað mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð sem tekur við hluta verkefna ráðsins og nýtt stafrænt ráð sem tekur við öðrum verkefnum.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt fyrir mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráð og samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð mótar stefnu í mannréttinda, stjórnkerfis- og lýðræðismálum, tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs hvað varðar verksvið þess. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með rekstri mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar og að samþykktum og stefnumörkun Reykjavíkurborgar á verksviði ráðsins sé fylgt. Þá fer ráðið með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð fer með verkefni jafnréttisnefndar skv. lögum nr. 10/2008 og önnur verkefni á sviði mannréttindamála í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stuðlar þannig að bættum mannréttindum borgarbúa. Ráðið fer einnig með verkefni sem viðkoma lýðræði, samráði og þátttöku borgarbúa og hefur umsjón með skipulagi stjórnkerfis Reykjavíkurborgar. Þá fer mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð með það verkefni að auka gagnsæi í stjórnsýslu borgarinnar og gera þjónustu við borgarbúa skilvirkari, markvissari og sýnilegri. Auk þess skal mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð stuðla að skilvirkri nýtingu upplýsingatækni í þágu stefnumörkunar borgarinnar.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð fer m.a. með eftirtalin verkefni:

a. Er borgarráði og öðrum borgaryfirvöldum til ráðuneytis á sviði mannréttinda, stjórnkerfisbreytinga, lýðræðismála, upplýsingatækni og þjónustu, ber ábyrgð á kynningu mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stuðlar að þekkingaröflun og miðlun upplýsinga.

b. Gerir tillögur til borgarráðs um mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og ber ábyrgð á að henni sé framfylgt. Gerir einnig tillögur til borgarráðs um íbúalýðræði, stjórnkerfisbreytingar, gagnsæi stjórnsýslunnar, samráð og þátttöku borgarbúa, þjónustutengd verkefni, fyrirkomulag þjónustu, þjónustuveitingu og verkefni í rafrænni þjónustu.

c. Er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttindamála. Er öðrum borgaryfirvöldum til samráðs og ráðgjafar um verkefni á sviði mannréttindamála. Veitir umsagnir um tillögur að verkefnum annarra borgaryfirvalda sem varða mannréttindi borgarbúa. Hefur samvinnu við ríki, önnur sveitarfélög og félagasamtök um mannréttindamál og veitir árlega mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar.

Mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráð er skipað 7 fulltrúum kjörnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann og skal hann vera borgarfulltrúi. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð heldur að jafnaði tvo fundi í mánuði, annan og fjórða fimmtudag í mánuði.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa annast framkvæmd mannréttindastefnu, verkefni ráðsins og samskipti við aðrar stofnanir.

Starfsmaður ráðsins er Elísabet Pétursdóttir verkefnastjóri á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. 

Hér má finna allar fundargerðir mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs.