Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar 2021–2030
Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar ásamt aðgerðaáætlun var samþykkt í borgarstjórn 19. október 2021.
Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar miðar að því að efla lýðræðislega þátttöku borgarbúa og formgera enn frekar möguleika borgarbúa til þess að hafa áhrif á málefni sem þá varða. Forsenda fyrir farsælli ákvarðanatöku um borgarmálefni eru vandaðar upplýsingar, víðtæk þátttaka og samtal fulltrúa mismunandi sjónarmiða. Að samráði loknu verði teknar ákvarðanir sem byggja í senn á niðurstöðum samráðs og áherslum kjörinna fulltrúa sem starfa í umboði kjósenda sinna hverju sinni. Stefnan gildir til ársins 2030 en aðgerðaáætlun sem fylgir henni og inniheldur mælanleg markmið gildir til ársins 2024.
- Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar 2021-2030
- Aðgerðaáætlun með lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2024
Um lýðræðisstefnuna
Vinna við stefnuna hófst haustið 2019 í þverpólitískum stýrihópi þar sem áttu sæti fulltrúar þeirra flokka sem áttu sæti í Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði borgarinnar. Drög að stefnunni voru í umsagnarferli frá júlí til september árið 2021 og þegar búið var að bregðast við öllum þeim ábendingum og athugasemdum sem þar komu fram varð til sú stefna sem nú liggur fyrir.
Stefnudrögin voru unnin í opnu samráðsferli sem aðgengilegt var öllum. Covid setti vissulega svip sinn á ferlið en með rafrænum lausnum í bland við aðrar aðferðir tókst að bjóða upp á víðtækt samtal um lýðræði og þátttöku í Reykjavík.
Tilgangur stefnunnar er þríþættur
- Fyrir íbúa - Að styðja við lýðræðislega þátttöku íbúa og auka möguleika þeirra til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt, ákvarðanatöku og stjórnun sveitarfélagsins.
- Fyrir kjörna fulltrúa - Að styðja kjörna fulltrúa í því að þekkja óskir borgarbúa hverju sinni, byggja ákvarðanir sínar á bestu mögulegu upplýsingum, svara fyrir teknar ákvarðanir og upplýsa um grundvöll þeirra. Stefnan styður kjörna fulltrúa í því að velja með hvaða hætti og á hvaða tímapunkti þeir hafa samráð í stefnumarkandi málum.
- Fyrir stjórnsýslu - Að gera stjórnsýslu Reykjavíkurborgar betur kleift að undirbúa og framkvæma samráð í samvinnu við kjörna fulltrúa og íbúa. Stefnan styður við vandaða stjórnsýslu og stuðlar að góðu samstarfi íbúa, kjörinna fulltrúa og þjónustukerfis borgarinnar. Virkt samspil ofangreindra þátta er lykill að farsælli útkomu í lýðræðislegri borg.
Samráðsferlið
Skref 1
Opið samráðsferli stóð yfir á vefnum Betri Reykjavík frá febrúar 2020 til júní 2021. Þar gátu allir sem vildu sett inn sínar hugmyndir um lýðræði og þátttöku.
Skref 2
Rýnihópar voru framkvæmdir af ráðgjafafyrirtæki þannig að valið var úr hópi íbúa Reykjavíkur af handahófi til þess að ræða lýðræðismál. Samantekt á umræðum rýnihópa.
Skref 3
Vinnufundir í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar voru haldnir til að undirbúa gerð stefnunnar. Samantekt vinnuhópa.
Skref 4
Opinn rafrænn fundur Stefnumót við lýðræðið, var haldinn 25. nóvember 2020 um framtíð lýðræðis í Reykjavíkurborg. Öll voru velkomin og fundurinn vandlega auglýstur. Allt upplýsingaefni og skráningarform fyrir fundinn var í boði á þremur tungumálum auk þess sem boðið var upp á túlkaþjónustu. Samantekt fundar um stefnumót við lýðræðið.
Hafa samband
Nánari upplýsingar veitir
Sérfræðingur í lýðræðismálum og starfsmaður stýrihóps um mótun lýðræðisstefnu á Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar er Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir.
- Netfang: sigurlaug.anna.johannsdottir@reykjavik.is
- Sími: 4114155