Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

117. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 19. júní, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 117. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Bryndís Þórðardóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Erna Sveinbjarnardóttir fulltrúi skólastjóra, Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi foreldra. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Ingunn Gísladóttir starfsmannastjóri og Dagný Leifsdóttir sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 16. júní sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 1 mál (fskj 117, 1.1).

2. Kynnt umsókn um stöðu aðstoðarskólastjóra Fellaskóla frá Hólmfríði Guðjónsdóttur. Lögð fram álit starfsmannastjóra f.h. fræðslustjóra, kennararáðs og skólastjóra Fellaskóla um ráðninguna (fskj 117, 2.1, 2.2, 2.3). Samþykkt samhljóða að ráða Hólmfríði Guðjónsdóttur aðstoðarskólastjóra Fellaskóla.

3. Kynntar umsóknir um stöðu aðstoðarskólastjóra á unglingastigi í Hólabrekkuskóla frá þeim Björgvini Þórissyni, Magneu Einarsdóttur og Þorsteini Sveinssyni. Lögð fram álit starfsmannastjóra f.h. fræðslustjóra, kennararáðs og skólastjóra Hólabrekkuskóla um ráðninguna (fskj. 117, 3,2,3,3). Samþykkt samhljóða að ráða Magneu Einarsdóttur aðstoðarskólastjóra á unglingastigi í Hólabrekkuskóla.

4. Starfsmannastjóri kynnti stöðuna í ráðningarmálum grunnskólanna (fskj 117, 8.1). Fræðsluráð lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu mála í ráðningum kennara vegna næsta skólaárs. Fræðsluráð óskar eftir greiðargerð um stöðu mála á næsta fundi sínum í byrjun ágúst.

Ingunn Gísladóttir vék af fundi kl. 13:15.

5. Formaður lagði fram og kynnti fjárhagsramma fræðslumála fyrir árið 2001 (fskj 117, 4.1). Fræðsluráð Reykjavíkur felur Gerði G. Óskarsdóttur, fræðslustjóra, að vinna fjárhags- og starfsáætlun fyrir árið 2001. Fjárhagsammi ársins er kr. 6.320.000.000.- og er hann 653 m.kr. hærri en úthlutun fyrir árið 2000, sem byggir m.a. á eftirfarandi: 1. Þegar umsamdar launahækkanir eru innan rammans auk áætlaðra verðlagshækkana. 2. 2-3 nýjir skólar taka til starfa á árinu. 3. Lenging skóladagsins kemur að fullu til framkvæmda á árinu. 4. Aukningu stjórnunarkvóta til skóla. 5. Aukningu rekstararkostnaðar vegna tölvumála, matarmála og næðisstundar. 6. Aukningu rekstrarkostnaðar vegna fleiri einsetinna skóla. _____________________________ Nýmæli – viðbætur: Sérkennslumál og fagstjórn í upplýsingatækni ?

Það er von og trú fræðsluráðs að með útsjónarsemi skólastjórnenda og starfsfólks Fræðslumiðstöðvar verði unnt að bæta skólastarf í Reykjavík fyrir árið 2001 miðað við úthlutaðan fjárhagsramma. Stærsta málið sem bíður okkar er að skipuleggja skólastarfið á nýrri öld og árþúsundi, þar sem nám við hæfi hvers og eins og sveigjanleiki eru lykilorðin.

6.. Formaður fræðsluráðs lagði fram tillögu að stefnu fræðsluráðs í tölvumálum grunnskóla Reykjavíkur (fskj 117, 5.1). Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti skýrslu starfshóps varðandi stefnumörkun í tölvumálum. Fræðsluráð samþykkir í meginatriðum heildarstefnumörkun í tölvumálum fyrir grunnskóla Reykjavíkur, sem byggir á skýrslu starfshóps sem starfað hefur frá 1997 að undirbúningi hennar. Varðandi fjárhagshlið stefnumörkunarinnar er vísað til fjárhags- og starfsáætlunargerðar fyrir árið 2001.

Arthur Mortens vék af fundi kl. 13:53.

7. Kynnt tilboð Línu.Nets um ljósleiðaratengingar grunnskóla Reykjavíkur. Samkvæmt tilboði er rekstrarkostnaður ljósleiðaratenginga um 14 m.kr. á ári fyrir 7 skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Samþykkt að leita samninga um ljósleiðara við Línu.Net. Samkvæmt upplýsingum sem Fræðslumiðstöð hefur aflað eru þeir einu aðilarnir á landinu sem geta sinnt þessari þjónustu.

Eyþór Arnalds vék af fundi undir þessum lið.

8. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti áætlaðan nemendafjölda í skólum borgarinnar haustið 2000 (fskj 117, 6.1).

9. Forstöðumaður fjármálasviðs kynnti drög að endurúthlutun kennslumagns haustið 2000 í samræmi við breyttar forsendur (fskj 117, 7.1).

Fundi slitið kl. 14.06

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Bryndís Þórðardóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Eyþór Arnalds