Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 262

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 27. nóvember, var haldinn 262. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (S), Alexandra Briem (P), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Stefán Pálsson (V). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. nóvember 2023, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla fyrir skólaárið 2023-2024 ásamt starfsáætlunum eftirtalinna leikskóla: Austurborg, Álftaborg, Árborg, Bakkaborg, Bjartahlíð, Blásalir, Borg, Brákarborg, Brekkuborg, Drafnarsteinn, Engjaborg, Fífuborg, Funaborg, Furuskógur, Garðaborg, Geislabaugur, Grandaborg, Grænaborg, Gullborg, Hagaborg, Hamrar, Hálsaskógur, Heiðarborg, Hlíð, Hof, Holt, Hólaborg, Hraunborg, Hulduheimar, Jöklaborg, Jörfi, Klambrar, Klettaborg, Kvistaborg, Langholt, Laufskálar, Laugasól, Lyngheimar, Maríuborg, Miðborg, Múlaborg, Nóaborg, Rauðaborg, Rauðhóll, Reynisholt, Rofaborg, Seljaborg-Seljakot, Sólborg, Stakkaborg, Steinahlíð, Suðurborg, Sunnuás, Sunnufold, Sæborg, Tjörn, Ungbarnaleikskólinn Bríetartúni og Hallgerðargötu, Vesturborg, Vinagerði, Ægisborg, Ævintýraborg Eggertsgötu, Ævintýraborg Nauthólsvegi, Ævintýraborg Vogabyggð, Ösp, Dalskóli, Klébergsskóli (leikskólinn Berg), Ártúnsskóli, Askja, Barnaheimilið Ós, Fossakot og Korpukot, Krílasel, Laufásborg, Lundur, Mánagarður, Regnboginn, Skerjagarður, Sólgarður, Ungbarnaleikskólinn Ársól, Vinagarður, Vinaminni og Waldorfleikskólinn Sólstafir.

  Samþykkt. SFS23060004

  Elísabet Helga Pálmadóttir, Gyða Guðmundsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir og Valborg Hlín Guðlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Starfsáætlanir leikskólanna bera vott um sérþekkingu og áhuga fyrir fjölbreyttu starfi og verkefnum leikskólanna í borginni. Það liggur fyrir að starfsumhverfi leikskólanna býr við miklar áskoranir og þá sérstaklega við að geta þjónustað fjöltyngd börn og börn með áfallasögu vegna stríðsátaka. Stjórnendum og starfsfólki leikskólanna er þakkað fyrir vel unnin störf og skýra framtíðarsýn í vinnu við starfsáætlanirnar og afburða vinnu á krefjandi tímum í þágu barnanna í borginni.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. nóvember 2023, um ráðgerðar breytingar á úrræðum vegna dagforeldramála ásamt drögum að breyttum reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum, drögum að þjónustusamningi við dagforeldra í Reykjavík og drögum að breyttum reglum um stofnstyrki og aðstöðustyrki vegna daggæslu barna í heimahúsum í Reykjavík. SFS23060023

  Elísabet Helga Pálmadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihlutinn í Reykjavík hefur lagt mikla og faglega vinnu í að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum. Mikilvægur liður í því er að efla dagforeldrakerfið og laða nýja dagforeldra til starfa. Ein af fjölmörgum tillögum er að bæta starfsaðstæður dagforeldra, auka niðurgreiðslu og létta þar með undir með barnafjölskyldum. Reykjavíkurborg hefur einnig sett af stað átak til þess að finna húsnæði fyrir dagforeldra bæði með eigin húsnæði en einnig frá einkaaðilum. Hér erum við að mæta þeim fjölskyldum sem hafa beðið lengst eftir leikskólaplássi og eru hjá dagforeldrum með því að jafna kostnað þeirra en þegar barn nær 18 mánaða aldri greiða foreldrar til dagforeldris sama gjald og í leikskóla Reykjavíkurborgar. Við leggjum áherslu á mikilvægi þess að fullafgreiða þessar útfærslur strax og þær koma úr umsagnaferli. Miklu máli skiptir að klára þessar breytingar sem fyrst.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á stöðu mála varðandi úrræði í dagforeldramálum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að efla og styðja betur við dagforeldrakerfið m.a. á fundum skóla- og frístundaráðs, í borgarráði og borgarstjórn. Meirihlutaflokkarnir hafa á hinn bóginn sýnt andvaraleysi gagnvart uppbyggingu kerfisins, sem endurspeglast m.a. í því að dagforeldrum fækkaði úr 206 í 78 á tæpum áratug og árið 2014 voru 689 börn í vistun hjá dagforeldrum en fóru niður í 371 árið 2022. Þessi úrræði sem hér hafa verið kynnt eru til bóta og vonandi tekst að hrinda þeim flestum í framkvæmd sem fyrst. Minnt er á að formaður borgarráðs, Einar Þorsteinsson, lofaði því opinberlega í byrjun nóvember sl. að tilteknar niðurgreiðslur yrðu tryggðar frá og með 15. júní á þessu ári en samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er miðað við að afturvirku greiðslurnar hefjist 1. september 2023.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Mikilvægt er að halda til haga að þessar tillögur eru nú í umsagnarferli og geta tekið breytingum eftir atvikum en rétt er að benda á að úthlutun leikskólaplássa miðast við aldur 1. september.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2023:

  Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Hálsaskógar – Borgar, að Hálsaseli 27 - 29 og að starfsemin flytjist í Ævintýraborg í Vogabyggð. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til 1. mars 2025 og að þá verði öll starfsemi að nýju að Hálsaseli 27 – 29 í Reykjavík.

  Greinargerð fylgir.

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23110084

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2023:

  Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Grandaborgar, Boðagranda 9 og að starfsemin flytjist í færanlegt hús við leikskólann Hagaborg. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til 1. mars 2025 og að þá verði öll starfsemi að nýju að Boðagranda 9 í Reykjavík.

  Greinargerð fylgir.

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23110085

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja þær tafir sem orðið hafa á framkvæmdum við leikskólana Garðaborg, Grandaborg og Árborg séu verulega gagnrýniverðar. Fyrir ári síðan kom í ljós við ástandsskoðun að í umræddum leikskólum væru miklar rakaskemmdir og mygla. Með þær staðreyndir í huga, og í ljósi þess að nú þegar eru rúmlega 360 leikskólapláss ónýtanleg vegna ástands leikskólahúsnæðis í borginni, sé ámælisvert að fyrst núna sé verið að ljúka hönnun og undirbúa útboðsgögn vegna framkvæmda og endurbóta við leikskólana þannig að framkvæmdum muni ekki ljúka fyrr en árið 2025.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2023:

  Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Árborgar, Hlaðbæ 17 og að starfsemin flytjist í hluta Selásskóla. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til 1. mars 2025 og að þá verði öll starfsemi að nýju að Hlaðbæ 17 í Reykjavík.

  Greinargerð fylgir.

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23110086

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja þær tafir sem orðið hafa á framkvæmdum við leikskólana Garðaborg, Grandaborg og Árborg séu verulega gagnrýniverðar. Fyrir ári síðan kom í ljós við ástandsskoðun að í umræddum leikskólum væru miklar rakaskemmdir og mygla. Með þær staðreyndir í huga, og í ljósi þess að nú þegar eru rúmlega 360 leikskólapláss ónýtanleg vegna ástands leikskólahúsnæðis í borginni, sé ámælisvert að fyrst núna sé verið að ljúka hönnun og undirbúa útboðsgögn vegna framkvæmda og endurbóta við leikskólana þannig að framkvæmdum muni ekki ljúka fyrr en árið 2025.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2023:

  Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Garðaborgar, Bústaðavegi 81 og að starfsemin flytjist að Brákarsundi 1. Gert er ráð fyrir að breytingin nái til 1. mars 2025 og að þá verði öll starfsemi að nýju að Bústaðavegi 81 í Reykjavík.

  Greinargerð fylgir.

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23110087

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja þær tafir sem orðið hafa á framkvæmdum við leikskólana Garðaborg, Grandaborg og Árborg séu verulega gagnrýniverðar. Fyrir ári síðan kom í ljós við ástandsskoðun að í umræddum leikskólum væru miklar rakaskemmdir og mygla. Með þær staðreyndir í huga, og í ljósi þess að nú þegar eru rúmlega 360 leikskólapláss ónýtanleg vegna ástands leikskólahúsnæðis í borginni, sé ámælisvert að fyrst núna sé verið að ljúka hönnun og undirbúa útboðsgögn vegna framkvæmda og endurbóta við leikskólana þannig að framkvæmdum muni ekki ljúka fyrr en árið 2025.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. nóvember 2023, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 21. nóvember 2023. SFS23060085

  Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Þökkum kynningu á stöðu á ráðningum í leikskólum Reykjavíkurborgar og fögnum því að tekist hefur að ráða í fleiri stöðugildi frá 17. október. Mikilvægt er að hafa góða yfirsýn yfir stöðu ráðninga fagfólks og starfsmanna í leikskólum Reykjavíkurborgar, hægt er þá að bregðast við með viðeigandi aðgerðum eða endurskoða það verklag sem nú er unnið eftir. Því mikilvægt er að leikskólar borgarinnar séu fullmannaðir til að hægt sé að halda úti faglegu starfi fyrir fjölbreytan hóp nemenda.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 21. nóvember 2023. Það er ljóst af þeim tölum sem fyrir liggja að enn vantar að ráða 64 stöður á leikskólum. Að auki á eftir að ráða í samtals 21 stöðugildi í eldhús og vegna afleysinga vegna undirbúningstíma og skammtímaveikinda. Auk þessara stöðugilda sem vantar á gefnum degi vænta leikskólastjórar þess að þeir þurfi að ráða í um 39 önnur stöðugildi í stað núverandi starfsfólks sem mun fara í leyfi eða hætta störfum á komandi vikum og mánuðum, margir um áramót. Sem fyrr þarf að leita allra leiða til að manna leikskólana sem fyrst. Skerpa þarf stefnumótun á þessu sviði og skoða eftir atvikum hvernig nágrannasveitarfélög hafa bryddað upp á nýjungum til að laða að starfsfólk í leikskólum.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 9. nóvember 2023, um afgreiðslu borgarráðs á breytingu á rekstrarleyfi leikskólans Öskju. SFS23040049

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 9. nóvember 2023, um afgreiðslu borgarráðs á framlagi vegna leikskólans Öskju. SFS23040049

  Fylgigögn

 10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hvernig upplýsinga um kyn leikskólabarna er aflað, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2023. SFS23050138

  Fylgigögn

 11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu í fyrsta skipti haustið 2023, sbr. 27. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023. SFS23100042

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins laut að meðalaldri barna við inngöngu (ekki innritun) í borgarreknum leikskólum haustið 2023. Sambærileg spurning var lögð fram af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins haustið 2022, sbr. t.d. 13. og 14. dagskrárlið fundar ráðsins 16. janúar 2023. Tölfræði beggja þessara svara staðfestir að meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla er vel yfir 20 mánaða og hefur verið í mörg ár í röð. Það samrýmist ekki loforðum Samfylkingarinnar í þessum málaflokki, sbr. t.d. í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna vorið 2022.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leikskóla sem eru í fleiri en einni byggingu og lausar stofur, sbr. 29. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023. SFS23100045

  Fylgigögn

 13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tafir við opnun ungbarnaleikskólans við Hallgerðargötu, sbr. 30. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023. SFS23100046

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ljóst er að áætlanir um opnun ungbarnaleikskólans hafa ekki staðist en til stóð að hann yrði tekinn í notkun um mánaðamótin júlí/ágúst, en ein deild leikskólans, fyrir 20 börn, var ekki opnuð fyrr en í lok október. Nú fer að styttast í áramót og ekki enn búið að taka í notkun allar deildir í þessum 60 barna ungbarnaleikskóla þannig að enn á eftir að taka í notkun 40 pláss. Brýnt er miðað við stöðu biðlista eftir leikskólaplássi sem telur hátt í 800 börn að þessi pláss verði tekin í notkun sem allra fyrst.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda ofbeldismála gagnvart börnum í leikskólum í Reykjavík, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. maí 2023. SFS23050027

  Fylgigögn

 15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um ástæður þess að börn þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd fái ekki að fara í leikskóla, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. september 2023. SFS23090149

  Fylgigögn

 16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um stöðu þjónustusamninga við dagforeldra, sbr. 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 2. nóvember 2023. SFS23060023

  Fylgigögn

 17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. október 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um afslætti af leikskólagjöldum, sbr. 35. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst 2023. SFS23080152

  Fylgigögn

 18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra leikskólabarna um fjölda fagmenntaðra starfsmanna, fjölda barna og hverfi leikskóla, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2023. SFS23060224

  Fylgigögn

 19. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. nóvember 2023, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009

  Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar skóla- og frístundaráðs óska nýráðnum leikskólastjóra velfarnaðar í starfi og þakka fráfarandi leikskólastjóra vel unnin störf í þágu leikskólastarfs í Reykjavík.

  Fylgigögn

 20. Fram fer umræða um fundarsköp. SFS23110063

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Illu heilli er nauðsynlegt, enn einu sinni, að ræða fundarsköp á fundi skóla- og frístundaráðs. Að þessu sinni stafar það af því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þurftu að standa í argaþrasi við það eitt að fá það á dagskrá þessa fundar að rætt yrði um umfang eftirlits miðlægrar stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs með starfsemi leikskóla en sá dagskrárliður hefur verið settur aftast á dagskrá fundarins í dag, á eftir liðum eins og svörum við fyrirspurnum. Svo sem ítrekað hefur verið í bókunum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. fundargerðir ráðsins dags. 28. ágúst sl. og 13. nóvember sl., þá er það óskoraður réttur kjörins fulltrúa ráðsins að fá mál á dagskrá, sbr. 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. ml. 2. mgr. 7. gr. samþykkta skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Þessi réttur hefur verið staðfestur með áliti innviðaráðuneytisins, dags. 13. nóvember sl., en þar var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á rétti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að setja mál á dagskrá borgarstjórnar. Ástæða er til að hvetja formann skóla- og frístundaráðs til að fara eftir fyrirmælum laga um rétt kjörins fulltrúa til að setja mál á dagskrá fundar ráðsins.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Enginn ágreiningur er um rétt fulltrúa minnihluta til að setja mál á dagskrá og haldið skal til haga að umrætt mál var á dagskrá fundarins. Hins vegar er ekki óumdeilt að réttur til að setja mál á dagskrá eigi alltaf við um næsta fund, enda geti verið misjafnlega auðvelt að afla nauðsynlegra og umbeðinna gagna. Fulltrúar meirihlutans leggja til að ágreiningur um þetta verði tekinn fyrir í forsætisnefnd sem ákveði hvernig beri að haga verklagi þegar kemur að dagskrá.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Ítrekað er hver sé óskoraður réttur kjörins fulltrúa til að setja mál á dagskrá fundar.

 21. Umræða um umfang eftirlits miðlægrar stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs með leikskólastarfi. SFS23110124

  Frestað með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

  Kl. 15.42 víkur Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum.

  Kl. 15.48 víkja Helgi Grímsson, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Albína Hulda Pálsdóttir og Linda Ósk Sigurðardóttir af fundinum.

 22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir gátlistum sem sviðið hefur samið og sent til stjórnenda leikskóla á tímabilinu 1. júní 2022 – 27. nóvember 2023. Til áréttingar fyrirspurninni er lögð áhersla á að það eru ekki allir gátlistar opinberir og því væri upplýsandi að fá aðgang að gátlistum sem hafa verið sendir út en eru ekki aðgengilegir á opnu vefsvæði á vegum Reykjavíkurborgar.

  SFS23110141

Fundi slitið kl. 16:07

Sabine Leskopf Alexandra Briem

Ásta Björg Björgvinsdóttir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Skóla- og frístundaráð 27.11.2023 - prentvæn útgáfa