Umfangsmesta endurbygging í sögu Reykjavíkur

Framkvæmdir Samgöngur

""
Í dag var skrifað undir samninga um umfangsmestu endurbyggingu hverfis í Reykjavík, en það er Vogabyggð sem afmarkast af Sæbraut, Kleppsmýrarvegi og Súðarvogi. Samningarnir ná til hluta Vogabyggðar, svæðis 2, en stærstu lóðarhafar þar eru Gámakó og Vogabyggð dótturfyrirtæki Hamla, sem eru í eigu Landsbankans.  Samtals ráða þessi fyrirtæki yfir 70% lóða á svæði 2.
Samningarnir marka tímamót að því leyti að lóðarhafar taka þátt í kostnaði við breytingar á innviðum hverfisins og er það í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í eldri hverfum. 
 
Dagur B. Eggertssson borgarstjóri segir samningana afar mikilvægt skref í átt að uppbyggingu hverfisins. „Það er mjög metnaðarfullt skipulag sem liggur fyrir og Vogabyggðin sjálf er náttúrlega á besta stað í borginni. Fjórðungur íbúðanna sem þarna rísa verða undir leigu- og búseturéttaríbúðir og höfum við nú samið við lóðarhafa um þátttöku í uppbyggingu innviða. Verkefnið í heild er svo eitt af lykilsvæðum í Aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að ég er mjög spenntur fyrir þessu,“ segir Dagur.  
 
„Það er fagnaðarefni að sjá glæsilega íbúðabyggð rísa á gömlu og lúnu iðnaðarsvæði.  Við höfum lengi beðið eftir þessu,“ segir Gunnar Bragason framkvæmdastjóri Gámakó og Gámaþjónustunnar hf.  Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans tekur í sama streng: „Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi og ánægjulegt fyrir Landsbankann að taka þátt í einum umfangsmestu endurbyggingar-áformum í Reykjavík í langan tíma. Við höfum unnið með borginni í þessu verkefni frá ársbyrjun 2013 og það er ánægjulegt að taka þátt í að skapa nýja framtíð hér á svæðinu.“
 
 
Hugmyndir arkitekta

Allt að fjórðungur íbúða leiguíbúðir

Miðað við þær skipulagsáætlanir sem nú er unnið að er gert ráð fyrir að í hverfinu verði 1.100 – 1.300 íbúðir og atvinnuhúsnæði um 56.000 fermetrar.  Gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 450 íbúðum og því er ljóst er að þessi fjölgun íbúða í hverfinu kallar á byggingu grunn- og leikskóla, en miðað er við að ráðist verði í þær framkvæmdir í samræmi við uppbyggingu íbúðabyggðar.  Í samningum er kvöð um að leiguíbúðir, stúdenta- og búseturéttaríbúðir verði 20 – 25% íbúða.

Skipulag svæðisins gerir ráð fyrir metnaðarfullri uppbyggingu með áherslu á góða hönnun og vandaðar útfærslur. Í Vogabyggð eru áformaðar framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar og Veitna við gerð gatna, torga, stíga, strandstíga, landfyllinga, grjótvarna og nýrra stofnlagna, útsýnis- og göngupalla í samræmi við hugmynd að nýju deiliskipulagi. Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu skólpdælustöðvar. 
 
Heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi verður í Vogabyggð og húsnæðið blönduð íbúðabyggð með skrifstofum, verslunum og þjónustu og áhersla á samfellda 3-5 hæða húsaröð sem liggur þétt við götu. Borgarumhverfið verður í samspili við strandsvæði Elliðaárvogs og almenningsrými á að grípa staðaranda Vogabyggðar og stuðla að gæðum umhverfis og samfélags.

Áhersla er lögð á fjölbreytta ferðamáta gangandi, hjólandi, í strætó og akandi á fólksbílum.  Hámarkshraði í hverfinu verður 30 km og umferð á forsendum gangandi og hjólandi. Strætó mun fara aðalgötuna og verða tengingar við aðliggjandi stofnstígahjólreinar í götunni.
 
Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar við uppbyggingu skóla og allra innviða í hverfinu er um 8 milljarðar króna.

Samningurinn nær til níu stórra lóða

Undir samninginn rituðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, Hermann Hermannsson framkvæmdastjóri Hamla fyrir Vogabyggð og Gunnar Bragason, framkvæmdastjóri Gámakó.  Samið er við Gámakó um samstarf og uppbyggingu á lóðinni Súðarvogur 2 og við Vogabyggð um lóðirnar Súðarvog nr. 1, 3 , 4, 6 og 12, lóðirnar Dugguvog 1a, 2 og 4.
 
Vinna við deiliskipulag er í höndum Teiknistofunnar Traðar og hollenskra samstarfsaðila hennar Jvantspijker og Felixx.  Hugmyndir þeirra voru á liðnu ári kynntar á nokkrum fundum starfshóps Reykjavíkurborgar með hagsmunaaðilum á svæðinu.  Áhersla hefur verið lögð á að gera gögn aðgengileg á upplýsingasíðu verkefnisins í framkvæmdasjá.
 

Nánari upplýsingar