Skólabrú í Vogabyggð

Framkvæmdir Skóli og frístund

Í vinningstillögunni er skólinn byggður sem brú, alveg upp að Vörputorgi og er garður á þaki hans útivistarsvæði hverfisins, í framhaldi af torginu. Þannig verður skólinn hluti af og í beinum tengslum við það borgarhverfi sem hann á að þjóna.
Þrívíddarteikning af nýjum skóla í Vogabyggð.

Úti og inni arkitektar í samstarfi við Landform landslagsarkitekta og ONNO þrívíddarvinnslu fengu fyrstu verðlaun í samkeppni um nýjan samþættan leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð auk nýrrar göngu- og hjólabrúar í Fleyvangi. Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna Skólabrú segir að þar sé „djörf og fersk tillaga sem byggir á sterkri skipulagslegri sýn“. Mannvirkjunum er ætlað að þjóna nýrri Vogabyggð en gert er ráð fyrir allt að 1.500 íbúðum á svæðinu. 

Einar Þorsteinsson borgarstjóri tilkynnti úrslitin í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni nú síðdegis en sýning á verðlaunatillögunum stendur yfir í þjónustuverinu til 3. maí. „Með þessu verður til miðja í Vogabyggð sem glæðir hverfið lífi enda eru skólarnir hjörtun í hverfum borgarinnar. Tillagan er afar spennandi og býr til heildstæða umgjörð fyrir skóla- og frístundastarf í mikilli nálægð við einstaka náttúru á svæðinu,“ sagði borgarstjóri.

Fólk með blóm.

Mynd/ Róbert Reynisson - Borgarstjóri með verðlaunahöfum.

Nýtt útivistarsvæði og almenningsrými

Í dómnefndarálitinu segir ennfremur að vinningstillagan sé bæði frumleg og sterk og gefi „fyrirheit um framúrskarandi og framsýna byggingu sem skapar spennandi umhverfi um skóla- og frístundastarf á svæðinu og leikur lykilhlutverk í virkni hverfisins.“

Á Fleyvangi verður einnig nýtt útivistarsvæði og almenningsrými borgarbúa og var útfærsla svæðisins hluti samkeppninnar. Brúin sem tengja á skólabygginguna við Vogabyggð verður aðal samgönguæð til og frá skóla og mikilvægt kennileiti í borgarlandinu.

Framkvæmdin verður áfangaskipt og gera má ráð fyrir byggingu fyrir allt að 720 nemendur að uppbyggingu lokinni. Niðurstaða samkeppninnar verður grunnur að breyttu deiliskipulagi.

Vinningstillagan gefur fyrirheit um framúrskarandi og framsýna byggingu sem skapar spennandi umhverfi um skóla- og frístundastarf á svæðinu og leikur lykilhlutverk í virkni hverfisins

Skólinn byggður sem brú með garð á þakinu

Í vinningstillögunni er skólinn einmitt byggður sem brú, alveg upp að Vörputorgi og er garður á þaki hans útivistarsvæði hverfisins, í framhaldi af torginu. Þannig verður skólinn hluti af og í beinum tengslum við það borgarhverfi sem hann á að þjóna. Með þessu móti er fótspor bygginga á Fleyvangi lágmarkað og sömuleiðis umfang útivistarsvæða hámarkað auk þess sem þak skólans nýtist sem slíkt. Utan á skólabyggingunni liggur svo göngu- og hjólabrú, sem liggur frá Vörputorgi að Fleyvangi.

Dómnefnd mælir eindregið með vinningstillögunni Skólabrú til nánari útfærslu og segir að miðað við frumathugun rúmist tillagan innan kostnaðarramma Reykjavíkurborgar.

Önnur og þriðju verðlaun

Höfundar tillögunnar Fleyvangur sem hlaut 2. verðlaun eru Trípólí + GS Teiknistofa og Landslag ehf. Dómnefnd segir meðal annars í áliti: „Lágstemmd tillaga að klasabyggingu sem liggur meðfram Ketlibjarnarsýki. Útisvæði skólans eru austan við hann og tenging við Vogabyggð eru um lágbrú.“

Höfundar tillögunnar Skip Ketilbjarnar sem hlaut 3. verðlaun eru SNA / Arkteikn, Landmótun og K-I Krabbenhøft & Ingolfsson. Dómnefnd segir meðal annars í áliti: „Tillagan er vandlega unninn og sú nálgun sem hún byggir á er áhugaverð en hún líður fyrir flókna aðkomu, samsetningu og erfiðar áfangaskiptingar.“

Um samkeppnina

Samkeppnin var tveggja þrepa og alls bárust 24 tillögur. Fimm tillögur voru valdar áfram til frekar vinnslu á seinna þrepi og fengu þær fimm allar fimm milljónir króna auk vsk. Fyrir fyrstu verðlaun voru veittar fimm milljónir til viðbótar auk vsk. Tillögum á fyrra þrepi var skilað inn 15. ágúst 2023 og tillögum á seinna þremur þann 9. janúar 2024.

Tillöguhöfundar sem valdir voru til áframhaldandi vinnu fengu senda umsögn dómnefndar um styrkleika og veikleika tillagnanna. Keppendur voru hvattir til að skerpa á tillögum sínum, vera óhræddir við að endurmeta þær og þróa síðan hugmynd um skýra og heildstæða sýn á verkefnið í heild sem gæti raungerst.

Dómnefnd var einróma í niðurstöðu sinni, óskar vinningshöfum til hamingju með góðar tillögur og þakkar keppendum öllum fyrir faglega unnar og fjölbreyttar tillögur. Jafnframt þakkar dómnefnd þeim ráðgjöfum sem lögðu sitt af mörkum við yfirferð tillagnanna.