Sagan og aðgengi í fyrirrúmi í endurhönnun göngugatna í hjarta borgarinnar

Borgarhönnun

Þrívíddarteikning af breytingum á Kirkjustræti við Alþingishúsið að degi.

Kirkjustræti og Templarasund fá nýjan og fallegan göngugötubúning en svæðið verður endurhannað. Forhönnun er nú lokið og samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar á fundi sínum í morgun að haldið verði áfram með undirbúning og farið í verkhönnun og gerð útboðsgagna.

Endurhönnun gatnanna leggur áherslu á að binda saman fortíð og framtíð, hið nýja við hið gamla og að tengja saman húsin, starfsemina og mannlífið. Jafnframt er vandaður frágangur í fyrirrúmi og efnisval sem hæfir staðsetningunni en þetta er í hjarta miðborgarinnar við Alþingi og dómkirkjuna við hlið Austurvallar. Þess má geta að viðamikið og reglulegt samráð var haft við hagaðila á forhönnunartíma.

Unnið með menningararfinn og söguna

Við hönnunina var farið í viðamikla rannsóknarvinnu þar sem leitað var í menningararfinn og söguna. Á meðal þess sem var skoðað voru gömul handrit og vefnaður. Mynstrið í hellunum er skírskotun í hefðbundinn bandvefnað og er um leið virðingarvottur til kvenna og brautryðjenda fyrri tíma.

Lýsing endurbætt og nútímavædd

Núverandi ljósabúnaður svæðisins er kominn til ára sinna og er hluti af honum ekki lengur í virkni. Búið  er  að  gera  ítarlega  greiningu  á  ljósvist  svæðisins  og  leggja  fram  heildstæðar  hugmyndir  að endurbótum. Lýsing við þessar merku byggingar og mikilvægu kennileiti í borginni verður gerð upp á nýtt í takt við nýja tíma. Meðal annars gefst þá tækifæri á að lýsa byggingarnar upp í mismunandi litum og mögulegt verður að leggja áherslu á ákveðna hluti Alþingisbyggingarinnar, svo eitthvað sé nefnt.

Aðgengi fyrir alla

Í forhönnun að  endurbótum  göturýmisins  hefur rík  áhersla  verið á  aðgengi  fyrir  alla  og  öruggt  og  skýrt flæði.   Það  er  meðal annars gert með  hindranalausum og vel upplýstum og snjóbræddum svæðum með viðeigandi efnisvali.

Tillagan er í samræmi við samþykkt umferðarskipulag Kvosarinnar um bann vélknúinnar umferðar á Kirkjustræti og hluta Templarasunds nema með leyfi skrifstofu Alþingis. Gert er ráð fyrir að rafdrifnir pollar verði notaðir til að takmarka almenna umferð inn á svæðið.

Forhönnunin var unnin af Hornsteinum arkitektum, Hildiberg Hönnunarhúsi og Verkfræðistofu Bjarna Viðarssonar.