Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti framtíðarsýn fyrir umferðarskipulag Kvosarinnar á fundi sínum í vikunni. Markmið breytinganna er að stuðla að bættu aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda, hreyfihamlaðra og þjónustuaðila ásamt því að auðga mannlíf og vöxt miðborgarinnar.
Til framtíðar verður kjarni Kvosarinnar göngugötusvæði en aðliggjandi götur verða vistgötur. Utan með svæðinu verða hefðbundnar umferðargötur. Á vistgötum og á jaðri göngugötusvæðisins er gert ráð fyrir stæðum fyrir vöruafgreiðslu en innan göngugötusvæðisins verður vöruafgreiðsla bundin við ákveðinn tíma dagsins.
Fleiri stæði fyrir hreyfihamlaða
Mikið og gott samráð var haft við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins, Alþingi, Öryrkjabandalag Íslands og fleiri hagaðila en óskað var eftir umsögnum um tillögu sem birt var á vefnum 23. september og var hún uppfærð í kjölfarið. Vel má sjá á meðfylgjandi myndum hvar áætlað er að stæði fyrir hreyfihamlaða verði að finna og hefur þeim verið fjölgað frá því sem er í dag en hönnun breytinganna hefur ekki farið fram svo staðsetningin stæðanna er ekki nákvæm.
Bréf var sent á fjölda aðila þar sem óskað var eftir umsögnum. Enn fremur var haldinn einn sameiginlegur kynningar‐ og samráðsfundur valinna aðila 28. september síðastliðinn. Alls bárust 15 ábendingar og umsagnir.
Innleitt í áföngum
Áætlunin verður innleidd í áföngum en stór hluti svæðisins er nú þegar göngugötur eða vistgötur. Til að byrja með er gert ráð fyrir að sá kjarni sem síðar er gert ráð fyrir að verði göngugötur verði gerður að vistgötum. Samhliða því verður almennum bílastæðum í þeim götum fækkað verulega en stæðum fyrir hreyfihamlaða og til vöruafgreiðslu fjölgað.
Í uppfærðri tillögu að umferðarskipulag Kvosarinnar er gert ráð fyrir að Kirkjustræti við Alþingishús og Dómkirkju verði göngugata til samræmi við ósk Alþingis.
Aðgengi fyrir alla að leiðarljósi í hönnun sem og aðgengi fyrir vöruafgreiðslu
Þar sem svæðið fyrirhugað göngusvæði er stórt er gert ráð fyrir að stæði fyrir hreyfihamlaða geti verið innan göngugötusvæðisins.
Gildandi umferðarlög setja veghaldara þröngar skorður um hvaða umferð er heimil á göngugötum. Verði tillaga að breytingum á umferðarlögum sem liggur fyrir Alþingi að lögum verður svigrúm Reykjavíkurborgar til að tryggja íbúum innan göngugötusvæða áfram aðgengi að eignum sínum á bíl, mun meira.
Ekki er um tímasetta áætlun að ræða. Breytingar göturýmis hafa ekki verið hannaðar en við hönnun rýmisins verða sjónarmið aðgengis fyrir alla, höfð að leiðarljósi sem og aðgengi fyrir vöruafgreiðslu. Þá munu gefast fleiri tækifæri til samtals um útfærslur áður göturýmum verður breytt.
Hér er hægt að lesa sér nánar til um málið og skoða athugasemdir.
Tengd frétt: Bætt öryggi og meira mannlíf með breyttu umferðarskipulagi