Áætlað er að nýtt íbúðahverfi bætist við á svæðinu vestan og norðan Leirtjarnar í Úlfarsárdal. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti skipulagslýsingu hverfisins á fundi sínum í morgun en framundan er mikil vinna við deiliskipulagið sjálft. Stefnt er að markvissu samráðsferli á skipulagstímabilinu þar sem íbúar og aðrir hagaðilar geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
Tilgangur skipulagslýsingarinnar er að greina frá svæðinu, áherslum og markmiðum við skipulagsgerðina, forsendum sem liggja að baki og fyrirhuguðu skipulagsferli. Vinna við tillögu að nýju deiliskipulagi mun standa fram á næsta ár en búist er við því að deiliskipulagstillaga verði auglýst næsta vor og brugðist við athugasemdum í framhaldinu.
Núverandi hverfi
Núverandi íbúðahverfi í Úlfarsárdal hefur verið í uppbyggingu síðan 2006 og hefur nú öllum lóðum verið úthlutað. Hverfið er nærri því fullbyggt með fyrirtaks umhverfi fyrir skóla-, íþrótta og menningarstarfsemi sem er langt komin í framkvæmd nú. Uppbygging fyrir verslun og þjónustu er hafin á lóð á núverandi Leirtjarnarsvæði. Í næsta nágrenni hverfisins eru margar af helstu náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins svo sem Úlfarsárdalurinn sjálfur, Úlfarsfell og Reynisvatn.
Í tillögu að nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir íbúðabyggð með möguleika á samfélagsþjónustu, til dæmis hjúkrunarheimili, þjónustukjörnum eða leikskóla. Vegna nálægðar við verslun og þjónustu á núverandi Leirtjarnarsvæði er ekki gert ráð fyrir því í fyrsta áfanga. Gert er ráð fyrir að nýtingarhlutfall alls svæðisins geti orðið 0,6-0,7. Ekki er hægt að fastsetja slíkt þar sem kortleggja þarf hvort sprungur eru á svæðinu, líkt og á því svæði sem nú er uppbyggt. Gert er ráð fyrir að hæð bygginga verði á bilinu 2-5 hæðir en aðlagist á sama skapi að útivistarsvæði og núverandi byggð.
Deiliskipulagt í áföngum
Hverfið verður deiliskipulagt í áföngum. Byrjað verður á syðri áfanganum sem liggur að norðan við núverandi byggð og Leirtjörn en svæðið í heild er 8,6 hektarar.
Í núverandi deiliskipulagi fyrir Úlfarsárdal sem tók gildi árið 2018 er fjallað um uppbyggingarsvæði norðan Skyggnisbrautar, við Leirtjörn: „Reiknað er með að nýtt byggingarsvæði við Leirtjörn verði ríflega 6 ha að stærð og þar rúmist um 360 íbúðir í fjölbýlishúsum og sérbýlishúsum, aðallega raðhúsum. Fjölbýlishúsin eru á lóðum við Skyggnisbraut en raðhúsin móta jaðar byggðarinnar við opna náttúru Úlfarsfells.“ Horft verður til þess við gerð nýs deiliskipulags.
Byggðin verður að hluta til fyrir eldra fólk en fyrir liggja samningar um uppbyggingu lífsgæðakjarna, húsnæðisuppbyggingar fyrir eldri borgara með fjölbreyttu framboði af þjónustu í nærumhverfinu, meðal annars á þessu svæði.
Meginmarkmið með gerð deiliskipulagsins
- Að móta sannfærandi fyrirkomulag byggðar og að hún stuðli að fjölbreyttu og aðlaðandi borgarumhverfi sem verði eftirsóknarvert til búsetu og starfa. Leitast verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla þjóðfélagshópa.
- Styrkja og nýta tengsl og samhengi við núverandi íbúðarhverfi og náttúrulegt umhverfi.
- Leggja grunn að byggð sem stuðlar að góðri byggingarlist og yfirbragði með áherslu á gæði götu- og garðrýma.
- Móta byggð sem fellur vel að markmiðum Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, meðal annars með viðunandi birtuskilyrðum á dvalarsvæðum.
- Uppbygging verði hagkvæm og auðveld áfangaskipting. Með áherslu á hagkvæmni er ekki síður átt við hagkvæmni í notkun, rekstri og viðhaldi bygginga heldur en uppbyggingu.
Helstu áherslur í deiliskipulagsgerðinni
- Nýtt húsnæði verði að stórum hluta íbúðarhúsnæði. Fjölbreyttar tegundir íbúða sem njóti umhverfisgæða en hafi gæði og hagkvæmni að leiðarljósi. Á einhverjum jarðhæðum næst núverandi götum verði lifandi jarðhæðir með verslunar- , þjónustu- og samfélagsstarfsemi.
- Að móta gott byggðarmynstur þar fléttist saman gæði bygginga og græn, björt, aðlaðandi og skjólrík útirými.
- Blágrænar ofanvatnslausnir, gróðurþekja og góð hljóðvist í útirýmum sem njóta birtu. Grænu yfirbragði verði gert hátt undir höfði. Trjágróður fái rými til að vaxa fyrir bæði rætur og krónu. Hugað verður að tengslum byggðarinnar við útivistarsvæði.
- Mikilvægt að huga að góðu samtali við nærliggjandi byggðar og þeim hugmyndir og möguleika sem eru um þróun þar.
- Fjöldi bílastæða er fundinn út frá bíla- og hjólastæðastefnu og reglum Reykjavíkurborgar. Bílastæði geta verið neðan- sem ofanjarðar en skulu hönnuð og útfærð út frá hugmyndum um blágrænar ofanvatnslausnir og góða borgarhönnun.
- Hugað verði vel að góðum tengslum byggðar við almenningssamgöngur.
- Ný byggð, göturými og annað umhverfi skal gera aðgengismálum og algildri hönnun hátt undir höfði.