Kanon arkitektar eiga vinningstillögu um Kringlusvæðið

Skipulagsmál

""

Reykjavíkurborg og Arkitektafélag Íslands í samvinnu við Reiti fasteignafélag efndu til hugmyndasamkeppni um Kringlusvæðið. Alls bárust fimm hugmyndir að skipulagi svæðisins en tillaga Kanon arkitekta varð hlutskörpust.

Frumkvæðið að því að hefja vinnu við skipulag svæðisins kom frá Reitum fasteignafélagi sem eru stærsti einstaki handhafi fasteigna og lóða á svæðinu. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 bendir til að góður samhljómur sé milli væntinga Reita um uppbyggingu Kringlusvæðisins og opinberrar stefnu borgarinnar um að þróa svæðið og efla það sem eitt mikilvægasta verslunar- og athafnasvæði borgarinnar. Að auki er Reykjavíkurborg eigandi fasteigna á svæðinu, þ.e. Borgarleikhússins og Borgarbókasafnsins.

Eftirsóknarvert borgarumhverfi

Keppendur í hugmyndasamkeppninni voru sérstaklega beðnir um að leggja fram framsæknar skipulagshugmyndir fyrir reitinn með sérstakri áherslu á góða nýtingu svæðisins ásamt fjölbreyttu og aðlaðandi borgarumhverfi sem verði eftirsóknarvert til búsetu og starfa. Einnig var tilgreint að byggðin ætti að vera með heildstæðu yfirbragði í gönguvænu umhverfi með gæðum í opnum rými. Sýna ætti heildstæðar götumyndir og meiri randbyggð en nú er. Þá átti að sýna staðsetningu biðstöðva Borgarlínu og almenningsvagna í tengslum við svæðið og sýna með skýrum hætti hvernig gönguleiðir innan svæðis og að/frá aðliggjandi svæðum tengjast biðstöðvunum.

Afmörkun samkeppnissvæðis

Í samkeppninni afmarkast Kringlusvæðið af Miklubraut, Kringlumýrarbraut, Listabraut og eystri hluta þeirrar götu sem liggur í „U“ um svæðið út frá Listabraut og ber sama nafn og verslunarmiðstöðin Kringlan.

Einföld reitaskipting fellur að byggðamynstri

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir að unnið sé með  einfalda reitaskiptingu sem falli vel að hefðbundnu byggðarmynstri borgarinnar og skapi sterka heild. Borgarlínustöð er staðsett við Kringlumýrarbraut og getur þá bæði þjónað Kringlusvæðinu og Menntaskólanum við Hamrahlíð. Gatnakerfi er vel útfært og býður upp á hefðbundnar borgargötur með rólegri bílaumferð og lífvænlegri þjónustu á jarðhæðum. Húsareitir eru ferningslaga með rúmgóðum, opnum inngörðum. Gert er ráð fyrir allstóru almenningsrými á miðju svæðisins, sem kallast Kringlustétt. Hamrahlíð er framlengd inn á svæðið og nýr inngangur í Kringluna hafður í öndvegi við enda götunnar. Hús Sjóvár og Hús verslunarinnar eru felld haganlega inn í nýja byggð. Eins konar fortorg sunnan við Borgarleikhúsið gæti lyft húsinu upp í umhverfinu og gert aðkomuna að því skemmtilegri en nú er.

Fimm til sjö hæða byggð

Húshæðir í vinningstillögunni eru að jafnaði fimm til sjö, en hærri byggingar rísa upp úr randbyggðinni á nokkrum stöðum og kallast á við Hús verslunarinnar og önnur hærri hús sem eru fyrir á svæðinu..  

Í umsögn dómnefndar segir að tillagan feli í sér sveigjanlega landnotkun og möguleika á hentugri áfangaskiptingu. Styrkur hennar felst meðal annars í einfaldleika og gæðum þrautreynds fyrirkomulags borgargatna og húsa.

Í dómnefnd voru Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs sem var formaður, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs, Áslaug Friðriksdóttir, fyrir hönd umhverfis- og skipulagsráðs, Friðjón Sigurðarson, fyrir hönd Reita fasteignafélags hf, Freyr Frostason arkitekt, fyrir hönd Reita fasteignafélags hf, Gunnar Örn Sigurðsson, fyrir hönd fagfélaga AÍ, Hildigunnur Sverrisdóttir, fyrir hönd fagfélaga AÍ

Tekið skal fram að hugmyndasamkeppni sem þessi er forstig þeirrar skipulagsvinnu sem eftir er áður en svæðið kemst í uppbyggingu en getur lagt línurnar að deiliskipulagi fyrir svæðið.

Dómnefndarálit

Tillaga Kanon arkitekta

Uppdráttur af Kringlusvæðinu