
Á Barnamenningarhátíð verður borgin skemmtilegri en aðra daga ársins. Börnin munu setja sitt mark á menningarlíf borgarinnar dagana 8.-13. apríl næstkomandi.
Fjölbreyttir viðburðir og sýningar
Börnum býðst að fara á fjölbreytta viðburði og sýningar en ekki síður að tjá sig um ýmis heimsins málefni af hjartans list.
Hægt er að finna alla viðburði hátíðarinnar á barnamenningarhatid.is.
Nú er komið að okkur öllum að njóta og upplifa og enginn þarf að greiða krónu fyrir, því allt er ókeypis!
Hlaupasting – lag barnamenningarhátíðar
Lag hátíðarinnar í ár, Hlaupasting, er flutt af stuðpinnunum í Inspector Spacetime, sem sömdu lagið en textinn er samstarfsverkefni þeirra og barnanna í fjórðu bekkjum borgarinnar. Nemendur fengu það verkefni að svara ýmsum spurningum um hvað felst í orðunum út að leika.
Liðsmenn hljómsveitarinnar Inspector Spacetime, þau Egill Gauti Sigurjónsson, Elías Geir Óskarsson og Vaka Agnarsdóttir fengu textann frá börnunum og gerðu söngtexta við lagið. Þau segja að samvinna við börnin hafi verið mjög skemmtileg og gefandi.

Inspector Spacetime flytja svo lagið á opnunarviðburði Barnamenningarhátíðar fyrir fullum sal barna í Eldborgarsal Hörpu þann 8. apríl.
Út að leika!
Í garðskálanum í Grasagarði Reykjavíkur verður boðið upp á listsýninguna Út að leika dagana 9. - 13. apríl. Listaverkin eru eftir börn í leikskólunum Austurborg, Bríetartúni, Hallgerðargötu, Hofi, Vinagerði, Laugasól, Múlaborg, Jörfa og Kvistaborg. Listaverkin eru fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að börnin fengu innblástur frá nærumhverfinu og útiveru.

Myndirnar lifna við
Á Borgarbókasafninu í Árbæ gefst einstakt tækifæri fyrir börn (og öll sem eru ung í anda) að hitta Tufta, þriggja metra háa vingjarnlega tröllkarlinn, sem gleður öll viðstödd með nærveru sinni og fjörugum samskiptum. Frábært tækifæri fyrir börnin að hitta alvöru tröll augliti til auglitis og upplifa töfra ævintýranna lifna við. Á sama tíma mun hinn ástsæli myndskreytir, Brian Pilkington, teikna hin ýmsu tröll og kynjaverur eftir óskum gesta, fanga á pappír töfrana úr hugum viðstaddra og sýna ferlið við að teikna furðuverur. Viðburðurinn er ekki bara skemmtilegur – hann er líka fræðandi! Í gegnum fjörleg samskipti Tufta og Brians við börnin læra þau um sagnagerð, myndskreytingar og töfra bókmenntanna, sem ýtir undir lestraráhuga og kveikir á ímyndunaraflinu. Með þessu býðst gestum frábært tækifæri til að upplifa listina og sjá hvernig sköpunarferlið er allt frá byrjun. Öll velkomin.
Sundlaugadiskó
Í tilefni Barnamenningarhátíðar ætla Dalslaug og Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal að slá höndum saman og bjóða upp á skemmtilega dagskrá. Byrjað verður á fjölskyldudiskói þar sem er tilvalið að dansa og skemmta sér. Síðan verður sundlaugadiskó í innilauginni og að því loknu er tilvalið að skella sér í náttfötin og fara á sögustund á bókasafninu. Frítt í sund fyrir börn 15 ára og yngri.

Hæ litla fræ
Grasagarðurinn býður fjölskyldum í plöntusmiðju á barnamenningarhátíð! Börnum og fjölskyldum þeirra er boðið að koma í garðskála Grasagarðsins og læra að sá fyrir sumarblómum og matjurtum. Þá læra krakkarnir (og fullorðnir líka) að dreifplanta eða prikla smáplöntum. Þátttakendur fá svo að taka plönturnar sínar með heim í lok viðburðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin!
Búum til fuglahús – Smiðja fyrir sniðuga krakka
Hugmyndasmiðir, Elliðaárstöð og Barnamenningarhátíð bjóða sniðugum krökkum á fría sköpunarsmiðju þar sem þar sem þátttakendur hanna og smíða fuglahús. Ninna hugmyndasmiður tekur á móti skapandi krökkum og fullorðnum fylgifiskum þeirra á Verkstæði Hugmyndasmiða í Rafstöðinni í Elliðaárstöð. Þátttakendur fá tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn og efla samvinnu fjölskyldunnar. Unnið verður með endurnýttan efnivið sem við björgum til að skapa eitthvað alveg nýtt og spennandi í gegnum smíðar, leiki, föndur, tilraunir og prófanir.
Fýlupúkarnir
Fýlupúkarnir er þátttökusýning á Dansverkstæðinu, Hjarðarhaga 47, ætluð börnum frá 9 mánaða til 3 ára og forsjáraðilum. Sýningin er upplifun byggð á skynjun og leik í gegnum stutta sögu um tvo fýlupúka sem búa á Ruslaeyju. Á eyjunni er allt í rusli en í ruslinu leynist ýmislegt skemmtilegt! Fjölskylduskemmtun af bestu sort!

Hver vill vera prinsessa?
Nýr söngleikur, eftir Raddbandið og Söru Martí, verður í Tjarnarbíói. Sýningin er í anda Disney ævintýranna sem allir þekkja og elska. Sýningin er stútfull af litríkri og töfrandi tónlist eftir Stefán Örn Gunnlaugsson og Rakel Björk Björnsdóttur.
Þrjár prinsessur mætast óvænt og átta sig allar á að þær eru að díla við sama vandamálið. Þær eru að bíða eftir prinsinum sínum. Þær geta ómögulega lifað hamingjusamlega til æviloka nema hann komi.....eða hvað? Óvæntir atburðir henda þeim af stað í ferðalag sem mun breyta lífi þeirra að eilífu en prinsessurnar læra að þeim eru allir vegir færir.
Hvers virði er líðan mín? Sýning 8b Hagaskóla
Sýnd verða listaverk eftir nemendur í 8. bekk í Hagaskóla á Þjóðminjasafninu. Líðan unglinga hefur mikið verið í umræðunni og með þessu verkefni fá þau sjálf orðið í þeirri umræðu. Unnið var út frá verkum listakonunnar Söru Vilbergs sem hefur grandskoða fólk, samskipti þess og tjáningu með svipbrigðum, og saumað út í striga. Gerð var óformleg og óvísindaleg könnun og nemendur beðnir að nefna þær þrjár tegundir líðanar sem þeir finna oftast fyrir. Miðað við niðurstöður unnu nemendur með eftirfarandi líðan í verkefninu: gleði, kvíði, pirringur, reiði, stress, spenna, þreyta, sorg. Eftir kynninguna á listakonunni og hennar verkum drógu nemendur miða með líðan sem þeir áttu að birta á striganum.
Út að leika í fjörunni - fjöruferð í Gróttu
Náttúruminjasafn Íslands og Náttúruverndarstofnun bjóða upp á fjöruferð í Gróttu. Þar verða kynntir töfrar fjörunnar og helstu lífverur sem þar búa.
Kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur til að skemmta sér og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt. Við hvetjum þátttakendur til að taka með ílát til að auðvelda leitina og vera klædd til að leika sér í fjörunni.
Krakkar kenna krökkum
Leiklistarskóli Borgarleikhússins býður upp á skemmtilega leiklistarsmiðju í samstarfi við Barnamenningarhátíð í Reykjavík. Um er að ræða 90 mínútna leiklistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 8-11 ára undir leiðsögn útskrifaðra nemenda úr Leiklistarskóla Borgarleikhússins og meðlimum ungmennaráðs Borgarleikhússins. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á leikgleði þar sem krakkarnir leiða skapandi leiklistaræfingar sem henta vel byrjendum í leiklist. Aðgangur er ókeypis en vegna fjöldatakmarkana í smiðjuna er nauðsynlegt að skrá sig.

Ævintýrahöllin
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður heim helgina 12. -13. apríl með glæsilegri dagskrá Ævintýrahallarinnar. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtidagskrá og ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi. Fjölskyldujóga, brekkusöngur, ratleikir og útileikir, sirkus, tónlist og dans. Frítt inn!
Gleðilega hátíð og góða skemmtun!