Borgarstjórn

Borgarstjórn er æðsti ákvörðunaraðili Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn er skipuð 23 borgarfulltrúum og 23 varaborgarfulltrúum.

Borgarstjórn fundar tvisvar í mánuði á þriðjudögum kl. 12 og eru fundir haldnir fyrir opnum dyrum. Íbúar geta fylgst með fundum borgarstjórnar í beinu streymi á vef borgarinnar eða frá áhorfendapöllum í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Hlutverk borgarstjórnar

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum hefur borgarstjórn ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna Reykjavíkurborgar og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast. Hún skal sjá um að ákvæðum laga um sveitarstjórnarmál sé framfylgt, sem og reglugerðum og samþykktum Reykjavíkurborgar. Þá getur borgarstjórn ályktað um hvert það málefni sem hún telur að varði Reykjavíkurborg. Í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar eru talin upp helstu verkefni: 

 • Að sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að viðeigandi reglum sé fylgt í störfum Reykjavíkurborgar.  
 • Að kjósa forseta og fjóra varaforseta borgarstjórnar, borgarráð og aðrar nefndir, ráð og stjórnir, skipa í endurskoðunarnefnd og ráða löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast skal endurskoðun hjá Reykjavíkurborg 
 • Að setja borgarstjórn siðareglur 
 • Að ákveða stjórnskipan Reykjavíkurborgar, ráða eða kjósa borgarstjóra. Á fundi borgarstjórnar 16. janúar 2024 var Einar Þorsteinsson kosinn borgarstjóri. 
 • Að móta stefnu fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar, deilda og stofnana, setja starfsemi Reykjavíkurborgar reglur og setja samþykktir og gjaldskrár eftir því sem lög mæla fyrir um og þörf krefur. 
 • Að fara með fjárstjórnarvald Reykjavíkurborgar og gera fjárhagsáætlanir  
 • Að bera ábyrgð á fjármálum Reykjavíkurborgar, stofnana hennar og fyrirtækja, og taka ákvarðanir um verulegar skuldbindingar borgarinnar til lengri tíma.  
 • Að hafa eftirlit með framkvæmd samstarfsverkefna og þjónustusamninga 
 • Að veita íbúum Reykjavíkurborgar og þeim sem njóta þjónustu hennar upplýsingar um málefni sem snerta hagi þeirra og um samstarf sem sveitarfélagið hefur við önnur sveitarfélög. 

Fundir borgarstjórnar 

Borgarstjórn fundar að jafnaði tvisvar í mánuði í Ráðhúsi Reykjavíkur á þriðjudögum kl. 12:00. Fundir borgarstjórnar eru haldnir fyrir opnum dyrum nema annað sé ákveðið. Heimilt er að fella niður fundi í allt að tvo mánuði að sumarlagi.

Hægt er að fylgjast með fundum borgarstjórnar í beinni útsendingu á netinu

Samkvæmt samþykkt um borgarstjórn má taka eftirfarandi mál á dagskrá: 

 • Lögákveðnar kosningar, svo sem kosningar forseta borgarstjórnar og fjögurra varaforseta, kosningar nefnda, ráða og stjórna á vegum borgarinnar, svo og kosningu eða ráðningu borgarstjóra og endurskoðenda hennar. 
 • Fundargerðir borgarráðs ásamt fundargerðum eftirtalinna nefnda og ráða: forsætisnefndar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, skóla- og frístundaráðs, stafræns ráðs, umhverfis- og skipulagsráðs og velferðarráðs. 
 • Ályktanir og tillögur sem fram koma í fundargerðum, og þarfnast staðfestingar borgarstjórnar.  
 • Önnur mál sem falla undir verksvið borgarstjórnar og forsætisnefnd, borgarstjóri eða forseti ákveða að taka á dagskrá eða borgarfulltrúi óskar eftir að verði tekin á dagskrá.  

Forseti borgarstjórnar og varaforsetar 

Borgarstjórn kýs sér forseta og fjóra varaforseta úr röðum borgarfulltrúa til eins árs í senn. Forseti borgarstjórnar er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Forseti borgarstjórnar boðar borgarstjórnarfundi. Forsetinn semur dagskrá fundanna í samráði við borgarstjóra og forsætisnefnd. Forseti borgarstjórnar stjórnar umræðum á fundum hennar. Hann setur fund, kannar lögmæti hans, stjórnar umræðum og afgreiðslu mála og slítur fundi þegar dagskrá hans er tæmd. Hann sér um að fundargerðir séu færðar í gerðabók og að allar tillögur og ályktanir séu rétt og nákvæmlega bókaðar, svo og hverja afgreiðslu þær hljóta.  

Skrifarar 

Borgarstjórn kýs tvo skrifara og tvo varaskrifara úr hópi borgarfulltrúa til eins árs í senn. Skrifarar hafa það hlutverk að telja saman atkvæði þegar atkvæðagreiðslur fara fram og bera ábyrgð á frágangi fundargerða með forseta borgarstjórnar. Magnús Davíð Norðdahl og Líf Magneudóttir eru skrifarar borgarstjórnar. Varaskrifarar eru Alexandra Briem og Friðjón R. Friðjónsson.

Borgarstjórn í beinni

Borgarstjórn fundar að jafnaði tvisvar í mánuði í Ráðhúsi Reykjavíkur á þriðjudögum kl. 12:00.

 

Fundir borgarstjórnar eru haldnir fyrir opnum dyrum nema annað sé ákveðið. Heimilt er að fella niður fundi í allt að tvo mánuði að sumarlagi.