Einar Þorsteinsson
Um Einar
Einar Þorsteinsson er borgarstjóri Reykjavíkur. Einar er oddviti Framsóknar í borgarstjórn og fyrsti borgarstjóri flokksins. Hann tók við starfinu í byrjun árs 2024.
Einar er fæddur 24. desember 1978 á Landspítalanum í Reykjavík. Hann er alinn upp í Kópavogi, sonur Soffíu Ingibjargar Guðmundsdóttur verkefnisstjóra á launadeild LSH og Þorsteins Einarssonar fyrrverandi mannauðsstjóra Kópavogs.
Einar gekk í Menntaskólann í Reykjavík og stundaði stjórnmálafræði og stjórnsýslufræði MPA í Háskóla Íslands auk skiptináms í University of Miami. Á háskólaárunum var Einar formaður Politica, félags stjórnmálafræðinema og sat í stjórn Vöku.
Árið 2004 réð Einar sig til starfa á Ríkisútvarpinu, fyrst sem íþróttafréttamaður en lengst af vann hann þar sem fréttamaður, fréttaþulur og umsjónarmaður í Kastljósi, frétta- og mannlífsþætti í sjónvarpi. Einar stýrði kosningasjónvarpi fyrir alþingis-, sveitarstjórna- og forsetakosningar um árabil.
Einar sagði upp starfi sínu á RÚV snemma árs 2022 þegar hann gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og bauð sig fram sem oddviti flokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningar í mars 2022. Í þeim kosningum hlaut Framsókn fjóra borgarfulltrúa.
Einar býr ásamt fjölskyldu sinni í Seljahverfi. Hann er giftur Millu Ósk Magnúsdóttur lögfræðingi og aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra. Hann á tvær dætur úr fyrra sambandi, þær Auði Bertu og Soffíu Kristínu. Saman eiga Einar og Milla soninn Emil Magnús.