Heimili á vegum Barnaverndar

Stundum þarf barn að fara af heimili sínu og dveljast annars staðar í lengri eða skemmri tíma til að fá hjálp og markvissan stuðning. Í boði eru vistheimili, fjölskylduheimili og fósturheimili.

Vistheimili

Vistheimilið Mánaberg er fyrir börn sem geta af ýmsum ástæðum ekki dvalið heima og þurfa því annað tímabundið heimili. Á heimilinu búa börnin við öruggar aðstæður í skemmri tíma.  

Foreldrar og börn fá stuðning samhliða dvöl barnsins á vistheimili og foreldrum getur verið boðið að verja þar tíma með barni sínu. Þá er unnið markvisst að því að hjálpa fjölskyldunni við samskipti og foreldrar fá þjálfun og stuðning við að mæta þörfum barna sinna.  

Fjölskylduheimili 

Fjölskylduheimili eru fyrir ungmenni 13 til 20 ára sem:  

  • Hafa ekki fengið varanlegt fósturheimili en eru í þörf fyrir það 
  • Hafa verið á fósturheimili en geta ekki búið þar lengur vegna erfiðleika 

Á fjölskylduheimilum fá börn einstaklingsmiðaða umönnun og uppeldi. Yfirleitt búa börn á heimilinu í 1 til 4 ár en stundum til skemmri tíma. 

Fósturheimili

  • Tímabundið fóstur

Börn búa tímabundið á fósturheimili þegar gert er ráð fyrir að foreldrar geti bætt aðstæður sínar og barnið snúið heim að nýju eftir dvöl sína á fósturheimilinu. Tímabundið fóstur getur í mesta lagi varað í tvö ár. 

  • Varanlegt fóstur

Börn búa varanlega á fósturheimili þegar aðstæður þeirra kalla á að þau alist upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Á varanlegu fósturheimili eru börnum tryggðar góðar uppeldisaðstæður og tækifæri til að mynda tengsl við fósturforeldra til frambúðar. Áður en kemur að varanlegu fóstri á sér stað reynslutímabil þar sem fósturforeldrar og börn fá tækifæri til að ná saman og kynnast.  

  • Styrkt fóstur 

Börn búa tímabundið á fósturheimili, að hámarki tvö ár. Þar fá þau mikinn stuðning fósturforeldra sem hafa menntun, reynslu og þekkingu til að styðja við börn sem búa við mikinn tilfinninga- og hegðunarvanda. Fósturforeldrar vinna náið með öðru fagfólki og stofnunum.