Workplace hjá Reykjavíkurborg

Teikning af manni með snjallsíma, spjaldtölvu og borðtölvu.

Allar upplýsingar um Workplace sem gagnast geta í þínu daglegu starfi.

Hvernig skrái ég mig inn á Workplace?

Hvað er Workplace?

Workplace er samskiptamiðill fyrir vinnustaði. Workplace byggir á sömu eiginleikum og viðmóti og Facebook, enda er hugbúnaðurinn þróaður af sama aðila. Workplace-lausnin er sérsniðin fyrir umhverfi fyrirtækja og stofnana.

 

Spurt og svarað um Workplace

Hvers vegna notum við Workplace hjá Reykjavíkurborg?

  1. Auka samskipti og bæta flæði upplýsinga hjá borginni, bæði innan sviða, deilda og í þverfaglegum teymum. Þetta mun færa fólk nær hvert öðru, styrkja samheldni og minnka vinnustaðinn.

  2. Workplace bætir samvinnu, þekkingarmiðlun og verkferla. Með réttri notkun á Workplace má draga úr fyrirspurnum, símtölum og tölvupósti.

  3. Workplace er lokaður og öruggur samskiptamiðill fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar. Workplace er aðgangsstýrð lausn. Starfsfólk fær sjálfvirkt boð um skráningu. Við starfslok lokast fyrir aðgang.

  4. Workplace gerir öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar kleift að miðla fréttum og fjölbreyttum upplýsingum í eigin hópum (grúppum). Starfsfólk er eindregið hvatt til að taka virkan þátt í fréttamiðlun í sínum grúppum, í máli og myndum.

Hver eru fyrstu skrefin á Workplace?

  • Mikilvægt er að fullklára skráningu strax í upphafi en síðan er bara að hefjast handa og ganga í viðeigandi hópa (groups) og jafnvel stofna hóp, fylgja samstarfsfólki eftir (follow), stilla tilkynningar (notifications) og ná í öppin fyrir farsíma (Facebook Workplace og Facebook Workplace Chat).
  • Öppin eru ótrúlega gagnleg og líklegt að megnið af upplýsingaflæðinu fari þar fram í framtíðinni.
  • Öppin virka innan sem utan Reykjavíkurborgar, óháð sérstökum gagnatengingum.

Ertu að kafna í tilkynningapóstum?

Workplace sendir í tölvupósti allar tilkynningar allt sem er að gerast á miðlinum. Nýir notendur, fréttir, viðburðir, umræður og svo framvegis.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar er hvatt til þess að fara í stillingar á Workplace (bæði í vafra og snjallsíma-appi) og stilla að eigin þörfum. Með einföldum hætti má slökkva á þessum stillingum.

Tengist Workplace persónulegum Facebook reikningi mínum?

Nei!

  • Workplace er ekki Facebook, þótt hugbúnaðurinn komi frá sama aðila.
  • Útlitið, viðmótið og virknin er sú sama.
  • Engar upplýsingar flæða á milli Facebook og Workplace.
  • Workplace er vinnutól á meðan Facebook er persónulegur samskiptamiðill einstaklinga.
  • Hægt er að hafa bæði Workplace og Facebook opin í sama vafra og hoppa auðveldlega á milli.

Gilda sérstakar samskiptareglur á Workplace?

Nei!

  • Mikilvægt er að viðhafa sömu faglegu vinnubrögð og hegðun á Workplace eins og í öðrum störfum fyrir Reykjavíkurborg.
  • Workplace má ekki nota til að deila viðkvæmum upplýsingum um einstaklinga eða viðkvæma starfsemi.
  • Workplace er ekki málaskráningarkerfi eða skjalavistunarkerfi og skal ekki notast sem slíkt.
  • Sömu lögmál gilda um friðhelgi einkalífsins á Workplace eins og annars staðar.