Streymisfundur um landfyllingu í Nýja Skerjafirði

Streymisfundur fyrir almenning um frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar við landfyllingu í Skerjafirði 13. janúar 2022 kl. 19.30.

Skýrsla

Reykjavíkurborg lagði fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar við landfyllingu í Nýja Skerjafirði í nóvember 2021.

Mat á umhverfisáhrifum

Reykjavíkurborg hafði frumkvæði að því að setja framkvæmd landfyllingar í Nýja Skerjafirði í mat á umhverfisáhrifum til að fá umsagnir og athugasemdir áður en framkvæmdir hefjast og til að leggja drög að mótvægisaðgerðum. Samkvæmt samþykktri aðalskipulagsbreytingu fyrir Nýja Skerjafjörð er gert ráð fyrir 1.300 íbúða byggð á svæðinu.

Streymisfundur verður nú haldinn eins og áformað var. Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir til 25. janúar. Á fundinum munu fulltrúar Reykjavíkurborgar og EFLU kynna málið. Hægt verður að horfa á fundinn á þessari síðu, YouTube og á Facebooksíðu Reykjavíkurborgar. 

Eldra efni - sagan

Streymisfundur var haldinn 3. júní 2020 um tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir nýja byggð í Skerjafirði. Mjög gott áhorf var á fundinn og fjölmargar fyrirspurnir bárust. Sérfræðingar hafa nú svarað þeim og er þeim svarað hér:

Spurningar sem bárust í tengslum við almennan kynningarfund skipulagsfulltrúa 3. júní 2020 vegna uppbyggingar nýrrar íbúabyggðar í Skerjafirði ásamt svörum skipulagsfulltrúa.

Sagan: Vorið 2017 boðaði umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur til hugmyndaleitar um skipulag fyrir nýtt hverfi í Skerjafirði. Fimm teymi sendu inn tillögur að skipulagi svæðisins og var tillaga ASK arkitekta, EFLU verkfræðistofu og Landslags landslagsarkitekta valin. Í kjölfar var farið í gerð rammaskipulags til að útfæra sigurtillögu nánar. Rammaskipulag var samþykkt í borgarráði 28. júní 2018 og kynnt í fjölmiðlum og á vef Reykjavíkurborgar – ásamt því að tillaga var send lögaðilum til umsagnar. Nýtt deiliskipulag fyrir nýja byggð í Skerjafirði er hluti af framfylgd fjölda samninga milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Skipulagið mun hvorki skerða núverandi starfsemi né nýtingu Reykjavíkurflugvallar.

Tillaga að nýju deiliskipulagi og mat

Hver er skipulagshugmyndin?

Uppbygging hverfisins mun eiga sér stað í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga verður heimiluð uppbygging um 700 íbúða af ýmsum stærðum og gerðum, leik- og grunnskóla og bílageymsluhúsi með matvöruverslun á jarðhæð og minniháttar þjónustu. Hæðir húsa verða frá 2 til 5 hæðir. Skipulag seinni áfanga er ekki hluti þessa skipulags því ákveðið var að fara í mat á umhverfisáhrifum á nýrri landfyllingu og strönd sem er hluti seinni áfanga. Unnið verður sérstakt skipulag fyrir seinni áfangann. Fullbyggt hverfi verður með um 1300 – 1500 íbúðum sem styður við uppbyggingu nýrra skólamannvirkja og hverfisþjónustu. 

Gangandi og hjólandi notendur verða í fyrsta forgangi í allri hönnun í hverfinu. Gatnahönnun miðar við mjög hæga umferð og eru bílastæði fyrir lóðir að öllu leyti leyst í miðlægu bílastæðahúsi þó einhver bílastæði verði staðsett við götur og þá helst fyrir hreyfihamlaða. Við bílageymsluhús verður hverfistorg þar sem gert er ráð fyrir meginstoppistöð strætisvagna – Stefnt er að hverfistorg fari í sérstaka hönnunarsamkeppni.

Hverfið verður umlukið grænum geirum, nýju strandsvæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leik- og dvalarsvæðum og mikilli gróðursælu. Allt regnvatn sem fellur til í hverfinu verður hreinsað með blágrænum ofanvatnslausnum áður en því er veitt til sjávar. Við hönnun hverfisins er tekið sérstakt tillit til hækkunar sjávarborðs með því að staðsetja hús ekki lægra en 5 m. yfir sjávarmáli.

Samgöngutengingar við hverfið verða frá Einarsnesi í vestri og um nýja vegtengingu í austri sem nær suður fyrir Reykjavíkurflugvöll til viðbótar við núverandi göngu- og hjólastíga. Vegtenging til austurs verður einungis ætluð almenningssamgöngum og tengist inn á aðliggjandi deiliskipulag sem nefnist „Brú yfir Fossvog“ sem var samþykkt fyrrihluta árs 2019. Umferð um Einarsnes mun aukast vegna uppbyggingarinnar og verður núverandi gata endurhönnuð svo tryggja megi hæga og örugga umferð. Samgöngumat sem unnið er í tengslum við deiliskipulagið sýnir að áætluð heildarumferð yfir daginn verði um 7 þúsund ökutæki, sem er áþekkt götum á borð við Nesveg eða Skeiðarvogi.

Hvað með umferð yfir framkvæmdartíma?

Uppbyggingu er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfangi er innan svæðis þar sem núverandi flugvallargirðing afmarkar. Eftir færslu flugvallargirðingar hefst vinna við að fjarlægja jarðveg og undirbúa gatnaframkvæmdir fyrir nýtt hverfi.

Vöruflutningar fara fyrst um sinn eftir Einarsnesi til vesturs en stefnt er að því að opna nýjan framkvæmdarveg suður fyrir Reykjavíkurflugvöll þar sem mun meginþorri umferðar vegna framkvæmda við nýtt hverfi mun fara um.

Ef áætlanir ganga eftir verður nýr framkvæmdarvegur tilbúinn til notkunar 2021/22. Framkvæmdir vegna seinni áfanga þ.á.m. gerð landfyllingar og mótun nýrrar náttúrustrandar verða leystar eftir nýjum framkvæmdarvegi með fyrirvara um mat á umhverfisáhrifum og samþykki þess.

Tryggt verður yfir framkvæmdartíma að núverandi göngu- og hjólastígatenging haldist opin.

Er mengun í jarðvegi?

Við undirbúning deiliskipulags fór fram umfangsmikil jarðkönnun og mengunarrannsókn á jarðvegi. Alls voru 96 holur boraðar og/eða athugaðar. Þar af voru tekin 64 jarðvegssýni og send til Noregs til rannsóknar. Niðurstöður gefa til kynna að mjög mismunandi jarðvegsaðstæður séu fyrir hendi vegna fyrri athafnastarfsemi á svæðinu. Sumstaðar er mengun mikil og þarf að fjarlægja eða hreinsa, en annarsstaðar er jarðvegur lítið eða ekkert mengaður og öruggur fyrir áframhaldandi notkun á svæðinu til dæmis fyrir jarðvegsmanir eða landfyllingu. Fagsvið Reykjavíkurborgar búa að mikilli reynslu við að eiga við mengaðan jarðveg á framkvæmdarsvæðum. Á meðal nýlegra dæma má nefna nýja íbúabyggð á Kirkjusandi og endurnýjun veitumannvirkja í Elliðaárdal.

Hver er tímalínan?

Reykjavíkurborg leggur mikinn metnað í að Nýi Skerjafjörður verði fallegt og sjálfbært hverfi þar sem stutt er í helstu þjónustu og aðgengi að grænum svæðum gott.

Stefnan er að deiliskipulagstillaga fyrri áfanga fari í auglýsingu í byrjun júlí 2020. Auglýsingaferlið stendur yfir í um tvo mánuði eða til 1. september. Stefnan er að samþykktarferli verði lokið um mánaðarmótin september / október 2020. Gert er ráð fyrir því að færsla flugvallargirðingar í samvinnu við ISAVIA hefjist sumarið 2020 og að undirbúningur við nýjan framkvæmdaveg suður fyrir Reykjavíkurflugvöll hefjist haust eða vetur 2020. Gert er ráð fyrir að haustið 2020 verði lóðir í fyrri áfanga auglýstar til sölu með útboðsfyrirkomulagi. Reykjavíkurborg hefur þegar gefið Félagsstofnun Stúdenta, Bjarg íbúðarfélagi og HOOS1 ehf. vilyrði til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum.

Stefnt er að því að fyrstu jarðvegsframkvæmdir hefjist í lok árs 2020 en að framkvæmdir við vegi og mannvirki hefjist ekki fyrr en vorið 2021. Líklegt er að skipulagsvinna við annan áfanga fari í kynningar- og samþykktarferli vor eða sumar 2021.

Olíubirgðastöð Shell við Skerjafjörð á loftmynd frá 1930

Frummatsskýrsla um landfyllingu í Nýja Skerjafirði

Núverandi strönd er röskuð eftir áratuga starfsemi olíubirgðastöðvar við flugvöllinn en vissulega verður með fyllingu að hluta til raskað lífríki sem telst verðmætt. Leitast verður við að líkja eftir náttúrulegri strönd með því að mynda fjöru með mismunandi kornastærð í líkingu við þá sem er nú þegar á svæðinu. Strandir austan og vestanvert eru hverfisverndaðar og ná alla leið að Gróttu í vestri. Þess má einnig geta að í gangi er vinna við friðlýsingu fjörusvæðisins vestan við Skeljanes.

Í þessari frummatsskýrslu er gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og áhrif hennar metin á eftirfarandi þætti: Gróður, strand- og sjávarlífríki, fuglalíf, strauma, fornminjar, verndarsvæði, landslag og ásýnd, umferð, umferðarmyndun og öryggi, hljóðvist og loftgæði, útivist, hjóla- og göngustíga. Framkvæmdin er talin hafa óveruleg áhrif á strauma, fornminjar, umferð, umferðarmyndun- og öryggi, hljóðvist og loftgæði ásamt útivist og göngustíga. Hins vegar telur framkvæmdaraðili að framkvæmdin hafi talsvert neikvæð áhrif á fuglalíf og verndarsvæði, og verulega neikvæð áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Einnig er áformað að bjóða upp á kynningarfund sem verður auglýstur síðar.

Skipulagsstofnun - mál í kynningu

Fornleifaskrá og húsakönnun

Nýi Skerjafjörður: Fornleifaskrá og húsakönnun - Drífa Kristín Þrastardóttir Anna Lísa Guðmundsdóttir

Dagskrá streymisfundar um landfyllingu í Skerjafirði

Streymi og viðburður á facebook

  • Ávarp: Pawel Bartozek formaður skipulags- og samgönguráðs 
  • Skipulag: Sigurður Örn Jónsson byggingaverkfræðingur EFLU
  • Umhverfismat: Ragnhildur Gunnarsdóttir, umhverfisverkfræðingur EFLU
  • Spurningar og svör