Nýi Skerjafjörður

Framundan er uppbygging á nýju íbúahverfi í Skerjafirði, sem býður upp á vistvænan lífsstíl. Við hönnun hverfisins er lögð áhersla á vistvænar samgöngur, lífseigan gróður, mannlíf og einstakt yfirbragð. 

Nýtt íbúahverfi

Nýi Skerjafjörður er nýtt íbúahverfi sem verður byggt við suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Deiliskipulagið byggir á vinningstillögu ASK arkitekta og sækir innblástur frá Þingholtunum og gamla Skerjafirði. Byggingar eru fjölbreyttar að útliti og gerð og allt umhverfið er skipulagt þannig að það verði gróskumikið og grænt. Í hverfinu verða mismunandi tegundir íbúða fyrir íbúa með ólíkan bakgrunn.

Skipulagsmál

Deiliskipulag fyrri áfanga Nýja Skerjafjarðar var samþykkt vorið 2021. Gert er ráð fyrir 600-700 íbúðum í fyrri áfanga og minniháttar atvinnustarfsemi.

 

Íbúðirnar eru ætlaðar fyrir almennan markað og einnig til úthlutunar til húsnæðisfélaga án hagnaðarsjónarmiða í samræmi við hússnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Einnig er gert ráð fyrir leikskóla, grunnskóla, bílageymsluhúsi, verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. 

 

Í síðari áfanga uppbyggingarinnar mun hverfið stækka til suðurs. Gert er ráð fyrir að hluti þeirrar byggðar verði á landfyllingu.

Teikning af Nýja Skerjafirði

Gangandi og hjólandi í forgangi

Gangandi og hjólandi notendur verða í fyrsta forgangi í allri hönnun í hverfinu. Gatnahönnun miðar við mjög hæga umferð og eru bílastæði fyrir lóðir að öllu leyti leyst í miðlægu bílastæðahúsi þó einhver bílastæði verði staðsett við götur og þá helst fyrir hreyfihamlaða.

Allar götur verða akfærar en aðaláherslan er á samskipti fólks og að skapa góða nágrannastemningu. Götur verða grænar með fallegum dvalarsvæðum.

Hönnunarleiðbeiningar

Í hönnunarleiðbeiningum fyrir nýtt hverfi í Skerjafirði eru lagðar markvissar línur fyrir vistvæna byggð en í leiðbeiningunum er sett fram heildarstefna um hönnun almenningsrýma á svæðinu. Takmarkið er að skapa sterkt samband milli náttúru og borgar og búa til umhverfi sem hvetur til félagslegra athafna og er umhverfislega og efnahagslega sjálfbært. Nýi Skerjafjörður býður íbúum upp á vistvænan lífsstíl.

Teikning af samsetningu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis

Spurt og svarað um Nýja Skerjafjörð

Upplýsingar

Áhersla er lögð á góða upplýsingamiðlun og verður nýjum upplýsingum og gögnum bætt við á þessa upplýsingasíðu þegar þau liggja fyrir.

 

  • Umhverfis- og skipulagssvið, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík, sími 411 1111

Hægt er að hafa samband í tölvupósti á netfangið mailto:skipulag@reykjavik.is ef einhverjar spurningar vakna.