Loftslagsborgarsamningur
Loftslagsborgarsamningurinn er skuldbinding Reykjavíkurborgar um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030, í samvinnu við stofnanir, fyrirtæki, háskólasamfélagið og íbúa. Þátttakendur í samningnum hafa skuldbundið sig til að móta aðgerðir sem draga mælanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við loftslagsmarkmið Reykjavíkurborgar um að verða kolefnishlutlaus 2030.
Samningurinn sjálfur
Fyrsti loftslagsborgarsamningur Reykjavíkur var undirritaður 7. október 2024. Reykjavíkurborg fékk samninginn síðan samþykktan við formlega athöfn á loftslagsráðstefnu í Vilníus í Litáen 7. maí 2025. Sá samningur inniheldur 15 aðgerðir með 18 þátttakendum. Samningurinn verður endurskoðaður á tveggja ára fresti og hafa þátttakendur skuldbundið sig til að taka þátt í árlegum samráðsfundum.
Reykjavíkurborg er ein 112 leiðandi borga í loftslagsmálum sem voru valdar af 377 umsækjendum til að finna leiðir til að hraða kolefnishlutleysi fyrir 2030 sem fyrirmynd fyrir aðrar borgir. Loftslagsborgarsamningur er umgjörð sem hjálpar evrópskum borgum að plana og skuldbinda sig að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2030, með samstilltum aðgerðum, fjárfestingaráætlun og samfélagsþátttöku.
Samvinna við borgarbúa
Aðkoma samningsaðilana 18 færir okkur nær því að uppfylla skuldbindingar samningsins um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030. Borgarbúar eru mikilvægur liður í vegferðinni að kolefnishlutleysi, þar sem daglegar venjur skipta máli eins og flokkun úrgans, hófleg vatns- og orkunotkun og breyttar ferðavenjur. Við þurfum öll að leggjast á eitt til að koma auga á hindranir, forgangsraða og hraða ferlinu í átt að kolefnishlutleysi.
Hver er ávinningur þess að vera með?
Það eru forréttindi að vera þátttakandi í hópi 112 leiðandi borga á sviði loftslagsmála, bæði fyrir Reykjavíkurborg, fyrirtæki og stofnanir.
- Sterkt samstarf milli einka- og opinbera geirans.
- Aðgangur að erlendum ráðgjöfum á vegum NetZeroCities.
- Tæknilegur og ráðgefandi stuðningur við aðgerðir.
- Tengslanet og miðlun þekkingar á sviði sjálfbærni.
- Fjármögnunarmöguleikar fyrir grænar lausnir sem styðja við markmið samningsins.
- Þátttaka og samstarf í tilraunaverkefnum.
Nýsköpun og rannsóknir
Hugmyndin er að Evrópuborgirnar 112 sem taka þátt í verkefninu verði miðstöðvar nýsköpunar og rannsókna svo aðrar borgir Evrópu geti lært af reynslunni til að verða kolefnihlutlausar árið 2050. Ísland skrifaði undir Parísarsáttmálann árið 2015 en hann gengur út á það að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Til þess þarf heimurinn að hafa náð kolefnishlutleysi árið 2050.
Ráðgjöf
Reykjavíkurborg fær sérsniðna ráðgjöf frá alþjóðlegu samtökunum NetZeroCities. Þau halda utan um verkefnið í samstafi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samtökin Climate-KIC, Eurocities og ICLEI.
Samgöngur stærsti þátturinn
Til að ná markmiðinu þarf að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda það kolefni sem ekki næst að draga úr.
Stærsti valdur gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík eru vegasamgöngur og þá einna helst í gegnum notkun einkabílsins.
Því þarf að finna leiðir til þess að fækka ferðum með einkabílnum.