Reykjavíkurborg í hópi leiðandi loftslagsborga

A-einkunn er veitt borgum sem skila ítarlegum og áreiðanlegum gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda, áhættumat og aðgerðaáætlanir. Mynd/Arctic Images - Ragnar Th.
loftmynd af Reykjavík sem sýnir Hallgrímskirkju.

Reykjavíkurborg er í hópi 120 borga á lista óháða matsfyrirtækisins CDP, sem fá hæstu einkunn fyrir að hafa heildstæða áætlun aðgerða tengda loftslagsvá í stefnumörkun sinni. Alls skiluðu 738 borgir inn gögnum til CDP og komust aðeins 16% þeirra inn á A-listann fyrir árið 2025. Það að komast á listann þýðir að Reykjavíkurborg er talin vera í hópi þeirra borga sem eru leiðandi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Flestar borganna eru í Evrópu og Bandaríkjunum.

A-einkunn er veitt borgum sem skila ítarlegum og áreiðanlegum gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda, áhættumat og aðgerðaáætlanir. Þetta sýnir að borgin er opin og ábyrg gagnvart íbúum og alþjóðasamfélaginu en gegnsæi er mikilvægt í einkunnagjöfinni.

Til að komast á A-lista þarf borgin að:

  • Hafa metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi. Reykjavíkurborg hefur undirritað loftslagsborgarsamning og er ein 112 borga í Evrópu sem valdar hafa verið í tilraunaverkefni um kolefnishlutleysi 2030.
  • Hafa áætlun með raunverulegum aðgerðum til að draga úr losun.
  • Meta og bregðast við loftslagsáhættu, til dæmis flóðum, en Reykjavík hefur unnið að því að verja borgina gegn hækkun sjávarstöðu sem og því að endurhanna frárennsli þannig að kerfin þoli mikla ofankomu og flóð á landi.
  • Að það sé skipulega unnið að því að efla almenningssamgöngur og aðgengi fyrir gangandi og hjólandi þannig að annað en einkabíll sé raunhæfur valmöguleiki.

Til viðbótar má geta þess að aðeins komust tvö ríki á A-listann í flokki ríkja og svæða en þau eru Colorado og Kalifornía, sem eru bæði í Bandaríkjunum. 91 ríki og svæði skilaði inn gögnum. Í þessum ríkjum, svæðum og borgunum 738 býr samtals um milljarður manns.