Loftslagsmál eru lífsgæðamál
Fyrsti aðalfundur með þátttakendum í Loftslagsborgarsamningi Reykjavíkur fór fram fyrir skemmstu í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Dagskráin var fjölbreytt og endurspeglaði áskoranirnar sem framundan eru í átt að kolefnishlutleysi. Ákveðið stef sem kom ítrekað upp var að loftslagsmál séu lífsgæðamál, það sé áskorun að breyta venjum fólks og það þurfi hugrekki og seiglu í þessari vegferð.
Um loftslagsborgarsamninginn
Fyrsti loftslagsborgarsamningur Reykjavíkur var undirritaður 7. október 2024. Reykjavíkurborg fékk samninginn síðan samþykktan við formlega athöfn á loftslagsráðstefnu í Vilníus í Litáen 7. maí 2025. Sá samningur inniheldur 15 aðgerðir með 18 þátttakendum. Þátttakendur í samningnum hafa skuldbundið sig til að móta aðgerðir sem draga mælanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við loftslagsmarkmið Reykjavíkurborgar um að verða kolefnishlutlaus 2030. Einnig til að taka þátt í árlegum samráðsfundum fram til ársins 2030 hið minnsta.
Borgarstjóri setti fundinn
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri setti fundinn og ræddi meðal annars í ávarpi sínu um að mikilvægt væri að horfa á heildina, búa til heilnæmara umhverfi, skemmtilegri borg með fleiri vakostum og þannig væru tekin jákvæð skref fyrir lífsgæði fólks. Hún ávarpaði það að það væri flókið að breyta venjum en við þyrftum að vinna með samfélaginu að breytingum. Líka að mikilægt væri að fagna þeim skrefum sem búið væri að taka eins og að fjölga ferðum Strætó og því sem áunnist hefði með því að taka gas og jarðgerðarstöðina í Álfsnesi í notkun.
„Þegar við verðum orðin kolefnishlutlaus verðum við ennþá eftirsóttari og fleiri munu vilja búa hérna,“ sagði hún og bætti við að hægt væri að gera margt á fimm árum.
Hrönn Hrafnsdóttir deildarstjóri loftslagsmála hjá Reykjavíkurborg tók undir þetta í sínu erindi og lagði líka áherslu á að á endanum snústi þetta um fólk og að tryggja góð lífsgæði fyrir íbúa. Hún minnti á að loftslagssamningurinn og Evrópusamstarfið í kringum hann sé langtímaverkefni til ársins 2030.
Forgangsatriði í samningunum
- Samgöngur – Áhersla á breytingar á ferðamáta og að styrkja innviði fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi vegfarendur.
- Orkuskipti – Orkuskipti í bílaflota og skipum í Reykjavík
- Úrgangur og hringrásarhagkerfi – aukin flokkun, endurvinnsla og endurnýting.
- Byggingargeirinn – Borgin hefur metnaðarfull markmið um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Því er mikilvægt að þessi uppbygging hafi sem minnst áhrif á loftslag og umhverfi
- Réttlát umskipti –Tryggja réttlát umskipti við þróun kolefnishlutlauss samfélags.
Ekki er skrýtið að samgöngur séu þarna efst á blaði því þegar kolefnisfótspor Reykjavíkur 2024 er skoðað sést að 52% af losun gróðurhúsalofttegunda sé vegna samgangna.
Líflegar pallborðsumræður
Dóra Björt Guðjónsdóttir, þáverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, Eiríkur Hjálmarsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Orkuveitunni og Þorsteinn Rúnar Hermannsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Betri samgangna, tóku þátt í pallborðsumræðum. Þar var meðal annars rætt að það mætti fagna litlu sigrunum betur, að við höfum ekki tíma til að bíða heldur þurfi að halda áfram af krafti og ekki hika. Mikilvægt sé að hafa seiglu og halda út í loftslagsmálunum því nú virðist vera minni áhugi á að tala fyrir þeim i opinberri umræðu. Það gæti skilað árangri að breyta gildum og búa til hagræna hvata sem styðji við nýjar venjur.
Ráðgjafar frá NetZeroCities
Eftir pallborðsumræður tóku við nokkrir fyrirlestrar til að veita innblástur og sýna þátttakendum í loftslagsborgarsamningnum tækifærin í samstarfinu. Við gerð loftslagsborgarsamningsins hefur verið fengin þétt og góð ráðgjöf frá evrópsku samtökunum NetZeroCities (NZC) og komu tveir ráðgjafar þeirra til landsins til þess að fylgjast með fundinum og flytja erindi.
Keira Webster, borgarráðgjafi frá NZC, hélt fyrirlestur og lagði áherslu á að þetta væri ákveðið lærdómsferli og það væri mikil áskorun í að brúa bilið. Hún tók nærtæk dæmi frá borgum á sömu vegferð og Reykjavík eins og finnsku borginni Espoo og norsku höfuðborginni Osló.
Annar ráðgjafi NZC, Henrik Rasmussen, fjármálaráðgjafi frá Bankers Without Borders hélt einnig erindi. Þau eru bæði sérstakir ráðgjafar Reykjavíkurborgar í samningnum. Henrik tók líka nokkur dæmi frá borgum sem eru þátttakendur í sambærilegum loftslagssamningum eins og Cork á Írlandi er varðaði innviðauppbyggingu í rafhleðslustöðvum.
Myndasyrpa frá fundinum
Örerindi til innblásturs
Eftir þetta voru flutt nokkur stutt og skemmtileg erindi, dæmisögur frá þátttakendum loftslagsborgarsamnings. Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri loftslags og náttúru hjá umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu reið á vaðið. Næst steig á stokk
Emma Soffía Elkjær Emilsdóttir, sérfræðingur í loftslags- og umhverfismálum hjá Orkuveitunni en hún fjallaði um loftslagsmarkmið Orkuveitunnar og leiðina að þeim.
Hannah Rós Sigurðardóttir Tobin, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, fór yfir verkefni sem tengist vistvænum samgöngum í Vatnsmýri og síðasta örerindið var síðan frá Frey Eyjólfssyni, verkefnastjóra hjá Sorpu og fjallaði það um um framtíðina í hringrásinni.
Eftir þetta tóku fundargestir þátt í vinnustofu þar sem spurningin var: Hvernig flýtum við Kolefnishlutleysi, sem er auðvitað stóra spurningin í þessu samhengi.
Loks flutti Dóra Björt Guðjónsdóttir lokaorð og þakkaði gestum fyrir komuna. Þar hvatti hún til þess að hugsa stórt þó það þurfi að búta hlutina niður og að hugrekki væri nauðsynlegt í vegferðinni í átt að kolefnishlutleysi. Hún sagði að við þyrftum að sýna að við trúum á verkefnin og þorum að standa við þau. Hún sagði að það þurfi líka að þora að gera tilraunir, stunda nýsköpun og vinna þvert á stofnanir og sveitarfélög. “Við þurfum ekki hræðsluáróður heldur stemningu og hvatningu,” sagði hún að lokum.