Nýsköpunarvikan

Reykjavíkurborg er einn af bakhjörlum Nýsköpunarvikunnar (e. Iceland Innovation Week) þar sem fyrirtækjum og frumkvöðlum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum, fyrirlestrum og uppákomum með margs konar snertiflötum.

 

Nýsköpunarvikan 2023

Nýsköpun fyrir fólk er málþing um nýsköpun og stafræna vegferð borgarinnar, þar sem þátttakendur fá innsýn inn í þá miklu þróun sem á sér stað í öllum hornum borgarkerfisins. Viðburðurinn verður haldinn fimmtudaginn 25. maí kl. 9-11 í Grósku. Facebook viðburður hér.

 

Yfirtaka á Grósku. Nýsköpunarvikan tekur yfir Grósku þriðjudaginn 23. maí og mun Reykjavíkurborg vera með bás á staðnum og sýna og segja frá nýsköpun hjá borginni. Sjá nánar á síðu Nýsköpunarvikunnar

 

Ferðalag notandans. Í tengslum við Nýsköpunarvikuna heldur borgin vinnustofu fyrir starfsfólk borgarinnar sem er æfing í notendamiðaðri hönnun. Á vinnustofunni setja þátttakendur sig í spor notenda og kortleggja upplifun þeirra. Með þessum aðferðum getur starfsfólk borgarinnar séð starf sitt í nýju ljósi og komið auga á tækifæri til umbóta og nýsköpunar. Uppbókað er á vinnustofuna. Frekari vinnustofur auglýstar síðar.

Nýsköpunarvikan - logo

Dagskrá og skráning á málþingið

Nýsköpun fyrir fólk er málþing á vegum Reykjavíkurborgar á Nýsköpunarvikunni. Málþingið verður haldið fimmtudaginn 25. maí kl. 9-11 í Grósku, þar sem þátttakendur fá innsýn inn í nýsköpun og stafræna vegferð Reykjavíkurborgar. Vigdís Hafliðadóttir, heimspekingur, söngkona, uppistandari með meiru verður fundarstjóri.

Viðburðurinn er ókeypis og öll velkomin. Hægt er að skrá sig hér.

Tækifærin eru ótalmörg til að gera þjónustu borgarinnar ennþá notendamiðaðri, faglegri og skilvirkari með hjálp nýsköpunar og stafrænna lausna. Um leið varpa þessir umbreytingatímar upp siðferðislegum spurningum sem þarft er að eiga samtal um.

  • Á málþinginu mun Arnar Sigurðsson stofnandi East Moon og frumkvöðull í samfélagslegri nýsköpun halda opnunarerindið um réttinn til að gera mistök.
  • Þar á eftir verða flutt sex örerindi frá Reykjavíkurborg þar sem farið verður yfir hvert borgin stefnir í nýsköpunarmálum og hvaða aðferðarfræði er beitt í notendamiðaðri hönnun verkefna. Tekin verða dæmi um verkefni sem miða að því að gera þjónustu borgarinnar skilvirkari,  auka gæði velferðarþjónustunnar, umbreyta til góðs fyrir skólasamfélagið og skoða hvaða siðferðislegu ábyrgð við berum í stafrænni þróun.
  • Að lokum verða pallborðsumræður um tækifæri og áskoranir sem felast í nýsköpun og stafrænni þróun hjá Reykjavíkurborg. Þátttakendur í panel verða Kristinn Jón Ólafsson, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, Arnar Sigurðsson, samfélagslegur frumkvöðull, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, baráttukona fyrir bættu aðgengi í stafrænum heimi og handhafi aðgengisviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2022 og Ásta Þöll Gylfadóttir, teymisstjóri stafrænna leiðtoga hjá Reykjavíkurborg.

Viðburðurinn er hluti af opnum fundum stafræns ráðs.

Skráðu þig á viðburðinn hér.

Fyrri viðburðir

Nýsköpunarmenning var til umfjöllunar á opnum fundi og vinnustofu sem Reykjavíkurborg bauð til árið 2022 í tengslum við Nýsköpunarvikuna þar sem sérstaklega var rætt um vinnustaðamenningu og hvernig hún getur stutt við stafræna vegferð. Með þátttöku sinni á hátíðinni vill borgin efla nýsköpunarmenningu í starfsemi sinni bæði innan stjórnsýslunnar sem utan. Slíkt hugarfar rímar vel við nýlega samþykkta atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur, en hún ber yfirskriftina Nýsköpun alls staðar.  

Nýsköpun alls staðar

Við sjáum nýsköpun sem afrakstur hugmyndaauðgi sem athafnasamt fólk hefur hrint í framkvæmd um alla borg.

 

Nýsköpun birtist gjarnan í umræðu um hátæknifyrirtæki. En nýsköpun er ekki síður undirstaða víðtækrar starfsemi sem tengist menningu, listsköpun, þriðja geiranum, stjórnsýslu og margvíslegum þjónustufyrirtækjum.

 

Nýsköpun er ekki skrautfjöður í hatti. Hún er hluti af sjálfsmynd Reykjavíkur og mótar hvernig við sem búum og störfum í borginni nálgumst viðfangsefnin okkar. Við ætlum að skapa jarðveg þar sem nýjar hugmyndir geta blómstrað.

 

Nýsköpun er rauður þráður í gegnum atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur. Það er vegna þess að nýsköpun er forsenda verðmætasköpunar á öllum sviðum samfélagsins og gerir okkur í stakk búin að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Hvers vegna nýsköpunarvika?

Markmiðið með aðkomu Reykjavíkurborgar að nýsköpunarviku er að auka aðgengi og sýnileika nýsköpunar þvert á atvinnugreinar og fyrirtæki og frumkvöðlar fá tækifæri til að deila mikilvægri þekkingu. Hátíðin vekur jafnframt athygli á Reykjavíkurborg sem nýsköpunarborg, laðar til sín fjármagn, fjárfesta og erlenda sérfræðinga á sviði nýsköpunar og grænna lausna og skapar samlegðaráhrif með öðrum verkefnum líkt og Vísindaborgin Reykjavík (e. Reykjavík Science City).

Sjá nánar á heimasíðu Græna plansins

Hvar fæ ég frekar upplýsingar?

Starfshópur stýrihóps verkefnisins skipa starfsfólk frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, menningar- og íþróttasviði, þjónustu- og nýsköpunarsviði, velferðarsviði og skóla- og frístundasviði.

  • Tengill erindisbréfs um starfshóps vegna Nýsköpunarviku

Viltu vita meira eða ertu með athugasemd? Sendu tölvupóst á athafnaborgin@reykjavik.is