Staða og líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum

Teikning af þremur krökkum á þríhjóli á leikskóla.

Ýmsar rannsóknir og kannanir hafa verið gerðar á stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum. Það er ljóst að við þurfum að gera betur til þess að tryggja bætta líðan þeirra og námsgengi.

Könnun um líðan hinsegin ungmenna

Árið 2017 stóðu GLSEN, Samtökin '78 og Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir könnun um líðan hinsegin ungmenna í íslensku skólaumhverfi. Könnunin náði til hinsegin nemenda á aldrinum 13-20 ára og var spurt um öryggistilfinningu í skólanum, fordómafulla orðanotkun, áreitni og ofbeldi, áhrif umhverfisins á mætingu og námsárangur, stuðning starfsfólks, stefnu skólans og námsefni.

Niðurstöður greina ekki frá svörum nemenda sem voru hinsegin vegna kynvitundar (trans) sökum þess hve fámennur sá hópur var. Helstu niðurstöður sýndu að þriðjungur nemenda greindi frá því að finna til óöryggis í skólanum síðasta árið vegna kynhneigðar sinnar og fimmtungur vegna kyntjáningar. Næstum þriðjungur hinsegin nemenda höfðu verið áreitt munnlega vegna kynhneigðar sinnar og um fjórðungur vegna kyntjáningar. Þá höfðu 12.6% hinsegin nemenda verið áreitt líkamlega vegna kynhneigðar sinnar, 6.2% vegna kyngervis og 5.3% vegna kyntjáningar. Einnig sýndu niðurstöður að starfsfólk sem var stuðningsríkt í garð hinsegin fólks hafði mikil áhrif á upplifun hinsegin nemenda í skólanum, þá skipti máli fjöldi starfsfólks sem studdi við hinsegin fólk (því fleiri, því betra), starfsfólk sem stöðvaði fordómafulla orðanotkun í garð hinsegin fólks og þau sem ræddu hinsegin málefni í jákvæðu ljósi í kennslu.

Hinsegin nemendur sem upplifðu ofantalið voru líklegri til að segja að samnemendur þeirra væru styðjandi, þeim fannst þau tilheyra skólasamfélaginu í meira mæli og voru síður líklegri til að vera fjarverandi úr skólanum sökum þess að þau upplifðu sig óörugga. Ljóst er að viðhorf, þekking, stefna og kennsluhættir kennara og annars starfsfólks skóla skipta miklu máli þegar kemur að líðan hinsegin ungmenna í skólaumhverfinu. 

Hlutverk skóla

Handbókin Ofbeldi gegn börnum. Hlutverk skóla frá árinu 2014 tilgreinir að hinsegin nemendur þarfnast sérstakrar umhyggju. Bent er á að þöggun sé ein algengasta birtingamynd fordóma í garð þeirra en þegar þögnin er rofin er einungis talað um samkynhneigða og er öll umræða um aðra hópa hinsegin samfélagsins er af skornum skammti. 

Eru gagnkynhneigð viðmið ríkjandi í kynfræðslu?

Rannsókn Sólveigar Rósar Másdóttur, Typpið mun finna þig (2015) skoðaði hvort að gagnkynhneigð viðmið væru ríkjandi í kynfræðslu í unglingadeildum grunnskóla Reykjavíkurborgar. Hún komst að svipaðri niðurstöðu, þ.e. að þrátt fyrir að einhverjir kennarar fjölluðu um hinsegin fólk var það oftast á þann veg að umræðan einskorðaðist við samkynhneigð og heilt yfir litaðist hún af gagnkynhneigðarhyggju.

En annars staðar?

Bandaríska könnunin The 2017 National School Climate Survey The Experiences of Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender, and Queer Youth in Our Nation’s Schools náði til meira en 23.000 hinsegin nemenda á aldrinum 13-21. árs. Niðurstöður sýndu að 59.5% hinsegin nemenda töldu sig ekki örugga í skólanum vegna kynhneigðar og 44.6% vegna kyntjáningar og 35% vegna kyns. Næstum allir (98.5%) hinsegin nemendurnir höfðu heyrt orð tengd hinsegin fólki notuð á neikvæðan og/eða niðurlægjandi hátt, oftast vegna kynhneigðar (95.3%) en einnig vegna kyntjáningar (94%) og í tengslum við trans fólk (87.4%). Kennarar og starfsfólk skóla var ekki undanskilið, en meira en helmingur hinsegin nemenda heyrði kennara eða starfsfólk skóla vera hómófóbískt og 71% heyrðu það tala neikvætt um kyntjáningu. Þá sagðist rúmlega helmingur þeirra sem höfðu upplifað einhvers konar áreitni eða árás í skólanum ekki hafa sagt skólayfirvöldum frá vegna þess að þeir höfðu ekki trú á að málið myndi leysast, en 60.4% þeirra nemenda sem sögðu skólayfirvöldum frá slíkum atvikum sögðu ekkert hafa verið gert eða að þeim hafi verið sagt að hunsa hegðunina. Rúmlega 70% nemendanna höfðu upplifað áreitni með orðum eða athugasemdum í tengslum við kynhneigð, rúmlega 59% vegna kyntjáningar og 53% vegna kyns. Þeir hinsegin nemendur í könnuninni sem upplifðu mikið einelti og mismunun vegna hinseginleika mættu sjaldnar í skólann en hinsegin nemendur sem upplifðu minna einelti og litla mismunun. Þeir voru einnig með lægri einkunnir, voru oftar skammaðir, höfðu lægra sjálfsálit og voru þunglyndari.

Hvernig veit hinsegin barn að þú ert styðjandi?

Þar sem við búum í samfélagi sem gerir iðulega ráð fyrir sís gagnkynhneigð þar til annað kemur í ljós, er ekki óeðlilegt að hinsegin nemendur upplifi sig á jaðrinum og jafnvel öðruvísi, þeir þurfa að koma reglulega út og oft svara fyrir eigin stöðu – ef þeir það kjósa. Slíkt getur verið erfitt, sérstaklega ef viðkomandi veit ekki hvaða viðbrögðum hann á von á. Þá er mikilvægt að spyrja sig: „Hvernig veit hinsegin nemandi að hann er velkominn og að hér sé að finna stuðningsríkt umhverfi?“ Hinsegin nemendur, rétt eins og aðrir, vita slíkt ekki fyrirfram og er það því í hlut kennarans og annarra starfsmanna að tryggja að jákvæð afstaða þeirra sé sýnileg og þekkt og að nemandi geti verið öruggur með það að vera hann sjálfur.