Hinsegin félagsmiðstöðin
Félagsmiðstöð fyrir 13-16 ára
Spennistöðin við Barónsstíg 32a
101 Reykjavik
Hinsegin félagsmiðstöðin er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Samtakanna ´78 og er starfrækt af Tjörninni, frístundamiðstöð. Markhópurinn er börn og unglingar í 8.-10. bekk í allri Reykjavík. Einnig er boðið upp á opnanir fyrir 5.-7. bekk og eru þær á þriðjudögum frá 17:00-18:30. Hinsegin félagsmiðstöðin er í góðu samstarfi við aðrar félagsmiðstöðvar Tjarnarinnar og í borginni allri.
Markmið félagsmiðstöðvarinnar er að veita hinsegin börnum og unglingum öruggt rými til að vera þau sjálf, kynnast öðrum hinsegin unglingum, styrkja eigin sjálfsmynd og gefa þeim kost á að tilheyra hinsegin samfélagi. Þátttakendur þurfa þó ekki að vera hinsegin til að mæta og öll eru velkomin. Lagt er upp með að bjóða upp á fjölbreytt viðfangsefni sem höfða til ólíkra barna og unglinga með mismunandi áhugasvið og tryggja þeim öruggt umhverfi sem þeim líður vel í.
Hægt er að nálgast dagskrá hverrar viku og frekari upplýsingar á facebook-síðu Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar
- Forstöðukona er Hrefna Þórarinsdóttir s. 690-8904
Opnunartímar
Opið er fyrir fyrir unglinga í 8. – 10. bekk alla þriðjudaga kl. 19.30-21.45.
Opnunartími 10-12 ára er alla þriðjudaga frá 17:00-18:30.
Klúbbastarf er alla fimmtudaga frá 17:00-19:00.
Hagnýtar upplýsingar
Hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi
Til að bæta upplifun hinsegin barna og ungmenna vega tveir þættir þyngst, sýnilegur stuðningur annars vegar og hins vegar að stöðva mismunun og særandi orðræðu. Hvort tveggja eru þættir sem geta haft jákvæð áhrif á allt hinsegin samfélagið og einnig vini hinsegin fólks og fjölskyldur þeirra. Einnig skiptir máli að vinna að sértækari þáttum sem hafa áhrif á trans og intersex fólk, svo sem aðstöðumálum og inngildandi málnotkun.
Barn eða ungmenni kemur út
Flest okkar hafa ýmsar hugmyndir, ýmist meðvitaðar eða ómeðvitaðar, um það hvernig börnin í lífi okkar eru og eiga að vera. Við sjáum fyrir okkur ákveðna framtíð. Í dag eru sífellt fleiri opin fyrir því að börn eru alls konar en það er ekkert óeðlilegt að bregða þegar barn í okkar fjölskyldu fer út fyrir það sem við bjuggumst við og framtíðin sem við vorum búin að sjá fyrir okkur breytist.
Einelti í skóla- og frístundastarfi
Einelti og ofbeldi getur haft varanleg áhrif á sálarlíf barna og unglinga. Starfsstaðir skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar starfa eftir gátlista vegna eineltis sem unninn var í víðtæku samráði fagaðila. Hér má nálgast upplýsingar um hvað best er að gera ef barn verður fyrir einelti í grunnskóla eða frístundastarfi.
Röskun á skóla- og frístundastarf
Tilmæli eru um viðbrögð foreldra / forráðamanna barna í skólum og frístundastarfi. SHS hefur verið falið af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að fylgjast með veðri og veðurspám og senda út tilkynningar ef á þarf að halda, eftir atvikum í samráði við lögreglu og fræðsluyfirvöld.
Farsæld barna
Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi. Markmiðið er að tryggja að börn og forsjáraðilar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum. Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla. Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana. Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið farsældar.
Upplýsingar um tengiliði farsældar fyrir börn í Hinsegin félagsmiðstöðinni má finna á heimasíðum grunnskóla barnanna.