Hinsegin málefni og skyldur skóla

Aðalnámskrá

Jafnrétti er ein af sex grunnstoðum aðalnámskrár frá árinu 2011. Í henni kemur fram að jafnréttismenntun eigi að fara fram á öllum skólastigum en hún „…felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.“ Kynhneigð er meðal þeirra þátta sem nefndir eru undir regnhlífinni jafnrétti. Einnig eru tilgreindar fræðigreinar sem er talið eðlilegt að séu nýttar í skólastarfinu, en meðal þeirra eru hinseginfræði og kynjafræði.

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Í 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 kemur m.a. fram að Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda m.a. án tillits til kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar og kyneinkenna. Í grein 7.3. er kveðið á um Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu út frá ofangreindum breytum og í grein 7.3.1. kemur fram að „Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og menningarstarf taki mið af því að þátttakendur geti verið hinsegin. Margs konar fjölskyldugerðir á að ræða á opinskáan og fordómalausan hátt. Kennarar og starfsfólk í skólum, frístundamiðstöðvum og öðru starfi með börnum og ungmennum geri fjölbreytileika mannlífisins sýnilegan í starfi sínu, til að mynda með vali á fræðslu- og afþreyingarefni sem notað er á öllum skólastigum. Skólastjórnendur og ábyrgðarfólk skóla- og frístundastarfs á vegum borgarinnar á að sjá til þess nemendur hljóti hinsegin fræðslu enda er það stefna borgarinnar að hinsegin fólk njóti virðingar og að um það sé fjallað í samræmi við almennan hluta aðalnámskrár frá árinu 2011.“

Lög um kynrænt sjálfræði

Í 5. gr. laga nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði kemur fram að barn yngra en 15 ára getur með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns (og þar með nafni). Frá 15 ára aldri getur barn breytt opinberri kynskráningu og nafni af sjálfsdáðum. Það gefur augaleið að skólar þurfa að vera transvænir til þess að tryggja stöðu og vellíðan trans barna. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa hefur tekið saman upplýsingaefni um trans börn í skólum.