Skilgreiningar

Hinsegin

Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir þá sem falla út fyrir það sem telst normið eða algengt hvað varðar kynhneigð, kyntjáningu, kyneinkenni og/eða kynvitund, t.d. hommar, lesbíur, trans fólk, intersex fólk o.fl. Hugtakið má líta á sem praktískt, róttækt, sögulegt og fræðilegt en einnig umdeilt.

Kynhneigð

Kynhneigð segir til um það hverjum fólk getur orðið skotið í, ástfangið af og laðast að.

  • Samkynhneigð (lesbía/hommi): að laðast að fólki af sama kyni
  • Tvíkynhneigð: að laðast að tveimur kynjum
  • Pankynhneigð: að laðast að fólki óháð kyni, stundum kallað persónukynhneigð
  • Gagnkynhneigð: að laðast að fólki af öðru kyni

Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni, en hún hefur ekki með kyneinkenni, kynhneigð eða útlit að gera. Sumt fólk fer í aðgerðir eða tekur inn hormón til að laga líkama sinn og útlit að kynvitund sinni en aðrir ekki. 

  • Trans kona: kona sem var úthlutað karlkyni við fæðingu
  • Trans karl: karl sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu
  • Kynsegin fólk tengir hvorki við að vera karl eða kona, er blanda af hvoru tveggja eða flakkar á milli
  • Kvár: fullorðinn kynsegin einstaklingur
  • Stálp: kynsegin barn
  • Sís (sís-kynja): fólk er sátt við það kyn sem það fékk úthlutað við fæðingu

Kyneinkenni

Kyneinkenni eru líffræðilegir þættir sem eru notaðir til þess að flokka fólk eftir kyni, t.d. litningar, kynfæri, kynkirtlar, hormónar og fleira. Sumir fæðast þannig að ekki er hægt að flokka þá auðveldlega sem karl- eða kvenkyns út frá kyneinkennum og falla þá undir regnhlífarhugtakið intersex.

  • Intersex fólk fæðist með ódæmigerð kyneinkenni sem stangast á við staðlaðar hugmyndir um hvernig líkamar kvenna og karla eru
  • Markkynja fólk fæðist með dæmigerð kyneinkenni sem falla að stöðluðum hugmyndum um hvernig líkamar kvenna og karla eru

Kyntjáning segir til um hvernig fólk tjáir kynvitund sína dagsdaglega, t.d. með klæðavali, hárgreiðslu og líkamstjáningu. Kyntjáning er hluti af lífi allra; sumir tjá kyn sitt á óhefðbundinn hátt á meðan kyntjáning annarra fellur betur að væntingum samfélagsins um kyn.

  • Dæmigerð kyntjáning er t.d. karllæg kyntjáning hjá körlum sem er í samræmi við ríkjandi hugmyndir um karlmennsku og kvenlæg kyntjáning hjá konum sem er í samræmi við ríkjandi hugmyndir um kvenleika
  • Ódæmigerð kyntjáning er á einhvern hátt á skjön við ríkjandi hugmyndir um hvernig fólk eigi að tjá sig út frá kyni, t.d. kvenleg kyntjáning karlmanns og manneskja sem blandar kvenleika og karlmennsku o.s.frv.

Gagnkynhneigð viðmið

Viðmið eru sú ályktun að allir séu gagnkynhneigðir og sískynja og að það sé eðlilegt. Tengt þessu er sú trú að gagnkynhneigð sé náttúruleg og æðri öðrum kynhneigðum. Þá eru einnig ríkjandi hugmyndir um „eðlilegt“ kyn, að kynfæri stýri kynvitund, að kynin séu einungis tvö (karl og kona) og að alvöru konur fari eftir viðteknum hugmyndum um kvenleika og alvöru karlar eftir viðteknum hugmyndum um karlmennsku og kynin tjá kyn sitt á dæmigerðan hátt. Um leið er spurningamerki sett við þá sem upplifa og tjá kyn sitt á annan hátt.

Par að dansa

Öráreitni

Minnihlutaálag er nokkuð sem hinsegin fólk upplifir og hefur neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu þeirra. Minnihlutaálag er afleiðing þess að geta hvar og hvenær sem er orðið fyrir fordómum, þöggun, mismunun og neikvæðri orðræðu og jafnvel ofbeldi sökum hinseginleika síns. Þetta er nokkuð sem fylgir samfélagsgerðinni sem við búum við, þ.e. gagnkynhneigðum sís viðmiðum. Með öðrum orðum þá veit hinsegin fólk aldrei hvaða viðbrögðum það getur átt von á vegna hinseginleika síns. Þetta getur orðið til þess að vantraust og óöryggi séu til staðar hjá einhverju hinsegin fólki, óháð því hvort það eigi rétt á sér í einstaka tilvikum. Þetta getur einnig gert það að verkum að hinsegin fólk feli hinseginleika sinn til að komast hjá viðbrögðum við honum, sem e.t.v. eykur álagið. 

Þessu tengt er öráreitni sem margt hinsegin fólk upplifir, en það eru hversdagslegar athafnir, athugasemdir, brandarar, umhverfisþættir og fleira sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir hinsegin fólk. Hvert atriði getur þótt smávægilegt eitt og sér, en þegar þau eru viðvarandi hluti af tilveru hinsegin fólks hafa þau oft mikil og neikvæð áhrif. Til að minnka minnihlutaálagið og öráreitnina er mikilvægt að hinsegin fólk viti að skólinn, vinnustaðurinn, frístundin o.s.frv. séu hinseginvæn og að tryggt sé að viðbrögð sem það upplifir við hinseginleika sínum séu jákvæð og virðingarfull.