Hönnunarsamkeppni um framtíðarbókasafn miðborgarinnar

Reykjavíkurborg efnir til hönnunarsamkeppni um endurhönnun á Grófarhúsi í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Samkeppnin er hönnunar-og framkvæmdasamkeppni með forvali.

Umsóknum í forval skal skilað fyrir kl. 12:00 á hádegi 10. febrúar 2022.

Grófarhús

Lifandi samfélagsrými og þátttökugátt fyrir íbúa Reykjavíkur.

 

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur óskar eftir umsóknum arkitekta/hönnunarteyma til þátttöku í forvali.

 

Forvalsnefnd fer yfir umsóknir sem berast og velur fimm teymi til þátttöku í samkeppni um breytingar og endurbætur á Grófarhúsi við Tryggvagötu sem á að hýsa framtíðarbókasafn miðborgarinnar.

Teiknuð mynd af mögulegri samsetningu Grófarhúss.

Skil umsókna og helstu dagsetningar

Þrep 1

Forval, umsókn með umbeðnum gögnum fyrir þrep 1 skilað inn.

Umsóknum í forval skal skilað fyrir kl. 12:00 á hádegi 10. febrúar 2022.

Þrep 2

Fimm teymi valin áfram og, að uppfylltum skilyrðum fyrir þrep 2, boðið að taka þátt í samkeppninni.

Þrep 3

Vinningstillaga er valin og að uppfylltum skilyrðum fyrir þrep 3 er gengið til samninga.

Ófrávíkjanleg skilyrði þess að umsókn sé veitt viðtaka og hún dæmd, er að henni sé skilað á réttum tíma og nafnleyndar sé gætt.

Tímalína fyrir hönnunarsamkeppni

  • 7. janúar 2022: Forval og samkeppni auglýst 
  • 21. janúar: Fyrirspurnarfrestur bjóðanda fyrir 12 á hádegi 
  • 1. febrúar: Svarfrestur kaupanda 
  • 10. febrúar: Skilafrestur umsókna fyrir kl. 12 á hádegi 
  • 4. mars: Niðurstaða forvals 
  • 11. mars: Samningar gerðir og hönnunarsamkeppnisgögn gefin út til keppenda 
  • 13. apríl: Fyrirspurnarfrestur bjóðanda fyrir 12 á hádegi 
  • 27. apríl: Svarfrestur kaupanda 
  • 18. maí: Keppendur skila inn tillögum fyrir 12 á hádegi 
  • 15. júní: Niðurstaða dómnefndar liggur fyrir

Markmið og nefndir

Markmið fyrir nýtt aðalsafn Borgarbókasafnsins:

Opið rými allra – Lýðræðisvettvangur með sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi

  • Að nýtt aðalsafn Borgarbókasafnsins verði  lifandi menningar- og samfélagshús, lýðræðisvettvangur með sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi fyrir íbúa Reykjavíkur. Það sé sannkallað Opið rými allra þar sem tekið er mið af gerbreyttri starfsemi bókasafna í nútímasamfélagi. 
  • Að safnið verði endurhannað þannig að það komi til móts við framtíðarþarfir íbúa Reykjavíkur og bjóði upp á aðgengi að upplýsingum, upplifun og þjónustu líkt og ný bókasöfn í mörgum höfuðborgum erlendis sem við viljum bera okkur saman við, um leið og það taki mið af íslenskri menningu og sérkennum. 
  • Að bókasafnið verði snertiflötur þess stafræna og mannlega í þjónustuveitingu, hlutlaus vettvangur samsköpunar þar sem við þorum að hugsa hlutina upp á nýtt, getum brugðist skjótt við örum samfélagsbreytingum og þörfum borgarbúa.
  • Að íbúar taki virkan þátt í að skapa umgjörð, upplifun og þjónustu fyrir nýtt safn í samvinnu við hönnunarteymi hússins. Í endurmótun verði horft til þess að bókasafnið er lifandi vettvangur þar sem gera verður ráð fyrir áframhaldandi þróun í starfsemi og breytingum í samvinnu við íbúa.
  • Áhersla er lögð á, raunhæfa og spennandi tillögu sem sómir sér vel í umhverfinu enda er um sögulega byggingu að ræða. Gerð er krafa um að umhverfissjónarmið, sjálfbærni og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval. Stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð með BREEAM.

Reykjavíkurborg og Borgarbókasafnið vinna með hönnunarhugsun að leiðarljósi og verður áhersla á þátttöku og samvinnu með íbúum Reykjavíkur í hönnunarferlinu.

Forvalsnefndir, dómnefnd o.fl.

Forvalsnefnd

  • Fulltrúi USK - Ámundi V Brynjólfsson, verkfræðingur og skrifstofustjóri
  • Fulltrúi USK - Sólveig Sigurðardóttir, arkitekt og verkefnastjóri
  • Fulltrúi Borgarbókasafns - Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður og deildarstjóri
  • Fulltrúi frá Hönnunarmiðstöð - Thelma Guðmundsdóttir, innanhúsarkitekt
  • Fulltrúi AÍ - Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt

Dómnefnd

  • Fulltrúi USK - Ólöf Örvarsdóttir, formaður dómnefndar, arkitekt og sviðstjóri
  • Fulltrúi USK - Guðni Guðmundsson, byggingartæknifræðingur
  • Fulltrúi Borgarbókasafns - Pálína Magnúsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur og borgarbókavörður
  • Fulltrúi AÍ - Marcos Zotes, arkitekt
  • Fulltrúi AÍ - Halldór Eiríksson, arkitekt

Ritari: Gréta Þórsdóttir Björnsson, arkitekt og verkefnastjóri
Ráðgjafi/verkefnastjóri: Gísli Sæmundsson arkitekt

Ráðgjafar dómnefndar

  • Aat Vos, arkitekt og ráðgjafi
  • Arna Ýr Sævarsdóttir, skrifstofustjóri þjónustuhönnunar
  • Arnar Snæberg Jónsson, verkefnastjóri á velferðarsviði
  • Elías Bjarnason, verkefnastjóri á skrifstofu framkvæmda og viðhalds
  • Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi

Trúnaðarmaður
Trúnaðarmaður samkeppninnar er Helga Guðjónsdóttir. Netfang: trunadarmadur@ai.is  Símanúmer: 7802228 / 8483306

Hönnun og framkvæmd samkeppnissvæðis er á vegum Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg býður samkeppnina út á Evrópska efnahagssvæðinu.

Öllum sem uppfylla skilyrði er frjáls þátttaka í forvalinu og óskað er eftir að mynduð séu þverfagleg teymi sem í eru að minnsta kosti einn arkitekt, einn innanhússarkitekt og einn upplifunarhönnuður þegar sótt er um í forvali.

Þau 5 teymi sem valin verða í forvalinu og koma með tillögur fyrir samkeppnina frá greiddar 5.000.000 kr. hvert fyrir gerð samkeppnistillögu. Vinningstillaga fær að auki 5.000.000 kr. auk þess sem gert er ráð fyrir að ná samningi um hönnun verkefnisins.

Forvalslýsing og fylgigögn

Forvalslýsing er aðgengileg frá og með 7. janúar  2022 og er hægt að nálgast hana á https://utbod.reykjavik.is.

Keppendur þurfa að skrá sig inn á útboðsvef Reykjavíkurborgar til þátttöku. Þátttakendum er bent á það að til að tryggja að allar upplýsingar varðandi samkeppnina berist er mikilvægt að skrá sig inn á útboðsvefinn.

Fyrirspurnir og svör við þeim verða aðgengilegar á útboðsvefnum. Fyrirspurnarfrestur forvalsins er 21. janúar 2022 fyrir 12 á hádegi.

Stefnt er að því að svör við fyrirspurnum muni liggja fyrir innan 10 virkra daga.