Kynjuð fjárhags- og starfsáætlanagerð

Lýsing á aðgerð og markmið

Aðgerð Græna plansins

Innleiðing kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar (KFS) hjá Reykjavíkurborg byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, lögum um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020, mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, og Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Markmiðið er að samþætta mannréttindastefnu borgarinnar við fjárhags- og starfsáætlunargerð og stuðla þannig að jafnrétti. Stefnt er að betri og réttlátari nýtingu fjármuna með tilliti til ólíkra þarfa borgarbúa. Helstu verkefni í tengslum við framkvæmd KFS eru greiningar þjónustuþátta, jafnréttisskimanir og jafnréttismöt.

 

Framkvæmdatími

Viðvarandi verkefni frá árinu 2011

Staða: Í vinnslu

Stöðulýsing 1. júlí 2023

Lokið var við KFS greiningu á þjónustuþættinum húsnæði fyrir fatlað fólk á árinu 2023. Greiningin er birt á KFS vef borgarinnar og verður kynnt fyrir velferðarráði og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði. Öðrum greiningum sem voru áætlaðar var frestað til næsta árs. Alls hafa nú verið framkvæmdar 64 greiningar á þjónustuþáttum með aðferðafræði KFS.

Fjárhagsáætlun 2024 var samþykkt á fundi borgarstjórnar 5.desember. Öll fag- og kjarnasvið skiluðu greinargerðum um KFS fyrir fjárhagsáætlun.

Vel gekk að fylgja verklagi varðandi jafnréttisskimun viðauka við samþykkta fjárhagsáætlun ársins 2023. Alls átti að skima 13 viðauka  og leiddi skimun í ljós að 60% af upphæð viðaukanna var talin hafa jákvæð jafnréttisáhrif. 45 viðaukar voru undanþegnir skimun skv. samþykktum undanþágulista.

Gerður hefur verið samningur við Just Consulting um átta vikna fræðsluátak fyrir starfsfólk í KFS starfshópum sem mun fara fram í upphafi árs 2024.

Vinnu við rafræna jafnréttiskimun lauk í lok árs og verður rafræna formið tekið í notkun í upphafi árs 2024.

Eldri stöðulýsingar

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá eldri stöðulýsingar sem veita upplýsingar um framvindu aðgerðarinnar frá upphafi (ef þú ert í síma er betra að snúa símanum á hlið).
Tímasetning Lýsing framvindu
Júlí 2023 Í upphafi árs var kallað eftir jafnréttisskimunum vegna undirbúnings fjárhags- og fjárfestingáætlana borgarinnar. Öllum tillögum að nýjum verkefnum í fjárhagsáætlun og tillögum að fjárfestingarkostum á að fylgja skimun. Þá er áætlað að níu þjónustuþættir verði greindir með aðgerðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlanagerðar á árinu, og munu greiningarnar liggja fyrir í desember. Ný aðgerðaáætlun borgarinnar í jafnréttis- og mannréttindamálum var samþykkt á fundi borgarráðs þann 20. júní 2023 og er gildistími áætlunarinnar út árið 2026. Áætlunin er í samræmi við 13. grein laga um stjórnsýslu jafnréttismála sem kveður m.a. á um að áætlunin skuli taka til markmiða og aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, og eru settar fram sex aðgerðir til að stuðla að jafnrétti við ráðstöfun fjármagns.
Janúar 2023   Búið er að innleiða 12 af 18 tillögum sem koma að framtíðar skipulagi og framkvæmd jafnréttisskimunar. Þær sex sem eftir standa eru í vinnslu og verða komnar til framkvæmdar um mitt ár 2023, m.a. rafvæðing jafnréttisskimana og rafræn fræðsla fyrir starfsfólk. Breytingar á samþykktri fjárhagsáætlun ársins í formi viðauka á að jafnréttisskima. Jafnréttisskimanir vegna viðauka á árinu voru 37 að samtals upphæð 1.832.715 þús. kr., og var niðurstaða skimana sú að 68% upphæðarinnar var talin hafa jákvæð jafnréttisáhrif eða jákvæð áhrif á jaðarsetta hópa. Í desember 2022 skiluðu fag- og kjarnasvið greiningum ársins á þjónustuþáttum út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Lokið var við sjö greiningar á árinu 2022, og hefur borgin nú greint 63 þjónustuþætti með aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Haustið 2022 var opnaður vefur með Þekkingarkistu um kynja- og jafnréttissjónarmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum.
Júlí 2022

Á fundi borgarstjórnar 20. janúar voru samþykktar tillögur starfshóps um framtíðar skipulag og framkvæmd jafnréttisskimunar og jafnréttismats. Þar eru settar fram 18 tillögur sem snúa meðal annars að ferlum, rafvæðingu jafnréttisskimanir, leiðbeiningum, fræðslu, sniðmátum, undanþágulista, eftirliti, endurgjöf, ábyrgð, verkaskiptingu og innri upplýsingamiðlum. Búið er að innleiða 11 af þessum 18 tillögum, en þær sjö sem eftir standa eru í vinnslu og verða komnar til framkvæmdar fyrir lok árs meðal annars rafvæðing jafnréttisskimana og rafræn fræðsla fyrir starfsfólk.

Við undirbúningsvinnu við fjárhags- og fjárfestingaráætlana borgarinnar voru framkvæmdar jafnréttisskimanir á nýjum verkefnum og breytingum á verkefnum í samræmi við verklagsreglur borgarinnar. Í apríl skiluðu fag- og kjarnasvið borgarinnar áætlun um greiningar þjónustuþátta og vinna nú að þeim greiningum sem lagt var upp með. Alls er áætlað að 12 þjónustuþættir verði greindir á árinu 2022, en nú þegar hefur borgin greint 56 þjónustuþætti með aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar.

Á fundi borgarstjórnar 21. júní var gerð sú breyting að kynjuð fjárhags- og starfsáætlun heyrir nú undir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð en áður heyrði verkefnið undir pólitískan stýrihóp.

Tengdar aðgerðir

Taflan hér fyrir neðan inniheldur þær aðgerðir sem tengjast þessari aðgerð og hægt er að nálgast frekari upplýsingar með því að smella á "heiti aðgerðar" í töflunni (ef þú ert í síma er betra að snúa símanum á hlið).