Velferðarráð - Fundur nr. 478

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 17. apríl var haldinn 478. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

 2. Fram fer kynning á samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu á starfssvæðum miðstöðva Reykjavíkurborgar. VEL24040013.

  Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar, Hákon Sigursteinsson, verkefnastjóri farsældar barna, og Hulda Björk Finnsdóttir, verkefnastjóri farsældar barna, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins fagnar því að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, skóla- og frístundaþjónusta og deild barna og fjölskyldna á miðstöðvum Reykjavíkurborgar, Barnaverndarþjónusta Reykjavíkur og framhaldsskólar í Reykjavík hafa ákveðið að vinna saman til að stuðla að farsæld fyrir börn sem eru í viðkvæmri stöðu. Mikilvægt er að hafa sem víðtækast samstarf til að tryggja farsæld barna og foreldra. Flokkur fólksins leggur áherslu á að þjónustan verði skilvirk og hún veitt eins fljótt og auðið er. Einnig að allir verkferlar séu skýrir og þjónustan samfelld. Mikilvægt er að samstarfsaðilar lýsa yfir skýrum vilja til að þróa áfram samvinnu til að tryggja vernd og umönnun barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

 3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 15. apríl 2024, með stöðumati á aðgerðaáætlun með velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali. VEL22090177.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 15. apríl 2024, um öryggisvistun, ásamt fylgiskjölum. VEL24040019.

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Velferðarráð Reykjavíkurborgar brýnir ríkisvaldið til að taka á málefnum einstaklinga sem hafa verið dæmdir á grundvelli 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beita sér fyrir setningu laga um öryggisráðstafanir og öryggisvistun. Velferðarráð lýsir miklum efasemdum um réttmæti dóma sem hafa fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur á síðustu árum þar sem einstaklingar hafa verið dæmdir á grundvelli 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til vistunar á „viðeigandi hæli“ og gert að búa í húsnæði á vegum sveitarfélagsins. Í þessu samhengi telur velferðarráð mikilvægt að ítreka að húsnæði á vegum sveitarfélaga er veitt íbúum þess á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Húsnæði fatlaðs fólks á vegum Reykjavíkurborgar er ekki úrræði í skilningi almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en í 62. gr. laganna kemur fram að unnt sé að ákveða, þegar talið er að refsing beri ekki árangur, að einstaklingi sé komið fyrir á „viðeigandi hæli“. Það er af og frá að telja að heimili fatlaðs fólks geti talist hæli í skilningi almennra hegningarlaga. Frumvarp til laga um framkvæmd öryggisráðstafana og öryggisvistunar voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í júní árið 2022 en frumvarp hefur ekki verið lagt fram á Alþingi í kjölfar þess. Því er enn um að ræða sama óvissuástand og ríkt hefur undanfarin ár.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. apríl 2024, um tímabundið samkomulag við Félagsbústaði vegna húsnæðis á Skeggjagötu, ásamt fylgiskjali:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki samkomulag við Félagsbústaði um greiðslu kostnaðar vegna mögulegra skemmda húsnæðis að Skeggjagötu 1. Hámark þeirrar fjárhæðar sem velferðarsvið ábyrgist nemur 20 m.kr. á gildistíma samkomulags. Velferðarsvið gerir ráð fyrir að hagræða innan sviðsins fyrir væntanlegum kostnaði.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24040017.
  Samþykkt.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér eru leigusamningar gerðir til þriggja mánaða í senn sem er stuttur tími. Mikilvægt er að unnið verði vel með framtíðaríbúum.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. apríl 2024, um þróun og rekstur sveigjanlegrar dagdvalar í Seljahlíð:

  Lagt er til að þróuð verði sveigjanleg dagdvöl í Seljahlíð fyrir eldra fólk. Áhersla verði á forvarnir, heilsueflingu, stuðning við sjálfsbjörg við athafnir daglegs lífs og jafnframt lögð áhersla á grunn heilbrigðisþjónustu. Þá bjóðist notendum að sækja þjónustuna á sveigjanlegum opnunartíma og jafnvel standi til boða sólarhringsdvöl í styttri tíma. Stefnt er að því að notendur heimaþjónustu Reykjavíkur hafi forgang og þannig mun þjónustustig í heimahúsum aukast.

  Óskað er eftir heimild til að hefja viðræður við ríkið um rekstur sveigjanlegrar dagdvalar í Seljahlíð.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24040020.
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með sveigjanlegri dagdvöl er verið að auka gæði í þjónustu með öryggi og bættan hag aldraðra að leiðarljósi. Engin dagdvöl er starfandi í Breiðholti og með þessu aukna samtali og samvinnu er verið að lengja þann tíma sem aldraðir veikir einstaklingar geti búið heima.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram tillaga öldungaráðs um samræmda upplýsingagjöf til eldra fólks um heilsueflingu og afþreyingu á vegum Reykjavíkurborgar, sem vísað var til umsagnar velferðarráðs, sbr. 4. lið fundargerðar öldungaráðs frá 13. mars 2024. Einnig lögð fram umsögn menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs um tillöguna, dags. 12. apríl 2024. MSS24030074.

  Vísað til meðferðar stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks. 

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Til umsagnar er tillaga öldungaráðs um samræmda upplýsingagjöf til eldra fólks um heilsueflingu og afþreyingu á vegum Reykjavíkurborgar. Í vinnu stýrihóps um málefni eldra fólks hefur ósk um samræmdan upplýsingavef fyrir eldra fólk ítrekað komið fram í vinnuhópum. Velferðarráð tekur vel í tillöguna og vísar henni til skoðunar hjá stýrihópi um málefni eldra fólks.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 5. apríl 2024, um lagafrumvarp um breytingu á lögum um örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. VEL24020048.

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Velferðarráð óskar eftir kynningu á lagafrumvarpi um breytingu á lögum um örorkulífeyriskerfi almannatrygginga.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um neyðarhúsnæði fyrir fólk sem misst hefur húsnæði sitt, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. október 2024, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 15. apríl 2024. VEL23100047.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan felur ekki í sér sparnað. Tekið er undir umsögn velferðarsviðs að öllu leyti.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að Reykjavíkurborg kæmi á fót húsnæði sem neyðarúrræði fyrir fjölskyldur sem missa húsnæði og lenda á götunni. Í svari er fyrst og fremst fjallað um leiguíbúðir á vegum Félagsbústaða og hvers vegna einstaklingar missa rétt sinn til að leigu. Fulltrúi Flokks fólksins hafði ekki í huga leigjendur hjá Félagsbústöðum heldur þær fjölmörgu fjölskyldur sem komast í vanda þegar þeim er sagt upp samningi á almennum markaði eða lenda á götunni af öðrum ófyrirsjáanlegum ástæðum. Eftir því sem erfiðara hefur árað í efnahagsmálum eru fleiri sem búa við óöryggi og liggur það fyrir að borgin hafi þurft í vaxandi mæli að greiða háar fjárhæðir í gistiheimiliskostnað vegna barnmargra fjölskyldna sem missa húsnæði sitt og hafa í engin hús að venda. Í svari segir að heildarkostnaður vegna greiðslu gistiheimila á árinu 2023 hafi verið um 5 m.kr. og að hluti af þeim kostnaði sé endurgreiddur af ríkinu. Þó hluti sé greiddur af ríkinu þá er það nú samt skattfé okkar borgaranna. Fulltrúi Flokks fólksins telur að slíkt neyðarhúsnæði sé alltaf til skammtíma á meðan fundin er önnur lausn. Það hefði t.d. verið hægt að grípa til slíks úrræðis þegar hjálpa þurfti fjölda fórnarlamba mansals nýlega.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal foreldra grunnskólabarna um skólasálfræðinga, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 13. mars 2024, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 15. apríl 2024. VEL24030035.

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu: 

  Lagt er til að í næstu foreldrakönnun um skóla-, frístunda- og velferðarþjónustu við börn verði spurt hvort að foreldrar og börn þekki hvaða stuðning börn geti fengið innan skólans.

  Samþykkt.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að kanna hvort að börn og fjölskyldur þeirra sé meðvituð um það hvert sé hægt að leita eftir þjónustu og stuðningi.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Birt er umsögn um tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um að gerð verði könnun meðal foreldra grunnskólabarna um hvort þeir viti hver skólasálfræðingur barna þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins er þess fullviss að fæstir foreldrar og hvað þá börnin viti hver sé skólasálfræðingurinn í skóla þeirra og jafnvel að slíkt sé lögbundið. Fram kemur í umsögn að ekki er áhugi fyrir að gera slíka könnun og er því tillögunni hafnað. Fulltrúi Flokks fólksins metur það svo að skóla- og frístundaráð og velferðarráð óttist e.t.v. niðurstöður slíkrar könnunar því þá kæmi í ljós hvað skólasálfræðingar eru kannski „vel faldir“ í skólakerfinu enda eru allir með starfsstöðvar á þjónustumiðstöðvum en ekki í skólum. Skólasálfræðingarnir eru í seinni tíð ekki að þjóna börnunum beint heldur þjónusta frekar starfsfólkið. Foreldar hafa heldur ekki aðgang að þeim . Börnin kvarta sáran og reyna ítrekað að benda á og kalla eftir að fá betra aðgengi að skólasálfræðingi sbr. tillögur ungmennaráða í borgarstjórn. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eins og veggur hafi verið reistur milli skólasálfræðinganna og barnanna og foreldra þeirra. Biðlisti barna til sálfræðings telur nú 1831 barn.

  Fylgigögn

 11. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun starfshóps um biðlista eftir skólaþjónustu í Reykjavík, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. mars 2024, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 15. apríl 2024. MSS24030028.

  Frestað.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. apríl 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað velferðarsviðs við leigu á gistiheimilum, sbr. 24. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. desember 2024. VEL23120021.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um kostnað velferðarsviðs vegna leigu á gistiheimilum á síðasta ári. Í svari kemur fram að heildarkostnaður vegna greiðslu gistiheimila á árinu 2023 var um 5,5 m.kr. og er hluti af þeim kostnaði endurgreiddur af ríkinu þ.e. sá kostnaður sem kemur til vegna erlendra ríkisborgara sem dvalið hafa á Íslandi skemur en tvö ár. Velferðarsvið hefur krafið Vinnumálastofnun um endurgreiðslu um 3,9 m.kr. og væntir velferðarsvið svara við endurgreiðslunni fljótlega. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta nokkuð hár gistikostnaður og þó hluti sé greiddur af ríkinu þá er það nú samt skattfé okkar borgaranna. Eins vitum við hvað það er oft á tíðum erfitt og mikil flækja að endurheimta kostnað vegna ýmissa mála frá ríkinu. Vegna þessa mikla kostnaðar þá lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg kæmi á fót húsnæði sem neyðarúrræði fyrir fjölskyldur sem missa húsnæði og lenda á götunni. Eftir því sem erfiðara hefur árað í efnahagsmálum eru fleiri sem búa við óöryggi og líkur eru á því að borgin þurfi í vaxandi mæli að greiða háar fjárhæðir í gistiheimiliskostnað vegna barnmargra fjölskyldna sem missa húsnæði sitt og hafa í engin hús að venda.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 15. apríl 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um samvinnu og verkaskiptingu milli Félagsbústaða og velferðarsviðs vegna mála leigjenda, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. nóvember 2023. VEL23110025.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsingar um hvernig samvinnu og samstarfi er háttað milli velferðarsviðs og Félagsbústaða og einnig miðstöðva borgarinnar? Svör gefa til kynna að samstarf sé ágætt. Upplýsa mætti betur um verkaskiptingu. Það er ekki öllum ljóst hver í raun úthlutar félagslegum íbúðum. Margir halda að Félagsbústaðir sjái um úthlutun íbúða. Félagsbústaðir stýra öllu viðhaldi og svo virðist sem velferðarsvið skipti sér ekki af vanskilamálum eða innheimtuaðferðum. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt harkalega nálgun Félagsbústaða gagnvart þeim sem lenda í vanskilum en allar skuldir eru sendar í innheimtu lögfræðinga með ómældum kostnaði. 

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. apríl 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um öldrunarráðgjafa á miðstöðvum og fíkniráðgjafateymi, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 13. mars 2024. VEL24030036.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um fjölda öldrunarráðgjafa hjá miðstöðvum borgarinnar og einnig um hver væri framtíðarsýn varðandi þjónustu fíkniráðgjafateymis. Flokkur fólksins þakkar svarið. Í svari kemur fram að í Norðurmiðstöð eru fjögur stöðugildi við öldrunarráðgjöf, eitt í Austurmiðstöð, eitt í Vesturmiðstöð og við rafræna ráðgjöf hjá Rafrænni miðstöð starfar einn öldrunarráðgjafi. Samkvæmt þessu eru sjö öldrunarráðgjafar starfandi hjá Reykjavíkurborg. Það sem vekur athygli fulltrúa Flokks fólksins er að enginn öldrunarráðgjafi er starfandi í Suðurmiðstöð. Þetta vekur furðu því Breiðholt er fjölmennt hverfi og þar er fólk líka vissulega að eldast. Samkvæmt þessu þá fá eldri Breiðholtsbúar eingöngu þjónustu frá öldrunarráðgjafa sem er nýtekinn til starfa á Rafrænni miðstöð. Svar vegna fíkniráðgjafateymis var nokkuð óljóst og engu svarað um hvort halda eigi áfram með fíkniráðgjafarteymi sem tók til starfa haustið 2021 á grunni samnings velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands um heimahjúkrun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérkennilegt að tala um teymi því einn maður er ekki teymi. Í upphafi voru fjórir ráðgjafar starfandi á Norðurmiðstöð í fíkniráðgjafarteyminu og þá var eðlilegt að tala um teymi.

  Fylgigögn

 15. Fram fer kynning á þátttöku fulltrúa í Reykjavíkurráði ungmenna á ULYNC ungmennaráðstefnu í mars 2024. VEL24040016.

  Gísli Ólafsson, verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði, Þorbjörg Arna S. Jónasdóttir, verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði, og Þröstur Flóki Klemensson, fulltrúi úr Reykjavíkurráði ungmenna, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

 16. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að velferðarráð endurskoði reglur um akstursþjónustu við aldrað fólk með það fyrir sjónum að þjónustan skerðist ekki sjálfkrafa við innlögn á hjúkrunarheimili heldur fari fram mat á þjónustuþörf viðkomandi með tilliti til þeirrar akstursþjónustu sem hjúkrunarheimilið kann að veita. VEL24040033.

  Frestað.

 17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í markvissa og skilvirka vinnu til að finna leiðir til að auka áhuga sérfræðinga eins og  sálfræðinga og talmeinafræðinga á að vinna hjá borginni. Með því að laga skipulagið og fyrirkomulagið þannig að þeir geti unnið í meiri samvinnu og teymisvinnu að heildstæðri greiningu á vanda barns er líklegt að hægt verði að gera störf skólasálfræðinga hjá borginni meira aðlaðandi en nú er.  Frumgreining gæti batnað og skilað meiri árangri ef þær yrðu unnar meira í teymi ólíkra sérfræðinga eftir því sem börnin þurfa. Með þessu myndi tilvísunum fækka í “frekari” greiningu nema kannski í allra þyngstu málunum s.s. hjá börnum sem þurfa fötlunargreiningu eða eru með alvarlegri geðrænan vanda sem þarfnast heilbrigðisþjónustu.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24040034.
  Frestað.

  Fylgigögn

 18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Tillaga um að gerð verði könnun á líðan barna og námsástundun og árangri í þeim skólum sem hafa sett sér reglur um símalausan skóla annars vegar og hins vegar skólum sem leyfa notkun á símum og niðurstöður beggja hópa bornar saman. Grunnskólar hafa sett sér reglur um símanotkun, sumir um algert símabann. Mikilvægt er að kanna nú hvort hægt sé að mæla mun á líðan og námsárangri og námsástundun barnanna eftir að reglur voru settar og hvort börn í símalausum skólum séu að koma betur út en börn í skólum sem ekki viðhafa símabann.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24040035.
  Frestað.

  Fylgigögn

 19. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Meirihlutinn í velferðarráði óskar eftir upplýsingum um hvers vegna úrræði fyrir heimilislausa karlmenn í miðborginni hefur ekki enn hafið starfsemi. Einnig er óskað eftir upplýsingum um kostnað velferðarsviðs vegna leigu á húsnæðinu við Skeggjagötu fram til þessa dags. 

  Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24040036.

  Fylgigögn

 20. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Meirihlutinn óskar eftir því að velferðarsvið greini frá því hvers vegna ekki hefur enn komið tillaga frá sviðinu um annað og hentugra húsnæði undir starfsemi Konukots í samræmi við bókun meirihlutans frá 5. október 2022. Þá er einnig óskað eftir því að velferðarsvið greini frá stöðu málsins á næsta fundi.  

  Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24040037.

  Fylgigögn

 21. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Meirihlutinn í velferðaráði óskar eftir því að velferðarsvið greini frá því hvers vegna ekki hefur enn komið tillaga frá sviðinu í samræmi við tillögu sem samþykkt var 2. nóvember 2022 þar sem sviðinu í samráði við Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar var falið að finna hentugra og hagkvæmara húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs til að brúa bilið þar til framtíðarhúsnæði sem er á fjárhagsáætlun er tilbúið. 

  Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24040038.

  Fylgigögn

 22. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Meirihlutinn í velferðarráði óskar eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig samninga velferðarsvið er með við gistiheimili eða hótel vegna einstaklinga eða fjölskyldna sem tímabundið eru húsnæðislaus vegna húsnæðismissis. Sömuleiðis er óskað eftir upplýsingum um kostnað vegna kaupa á gistinóttum á gistiheimilum og hótelum það sem af er ári 2024.

  Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24040039.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:07

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorvaldur Daníelsson

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 17. apríl 2024