Velferðarráð - Fundur nr. 470

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 17. janúar var haldinn 470. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Suðurmiðstöð, Álfabakka 10. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer skoðunarferð um Suðurmiðstöð.

    Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Fram fer kynning á starfsemi Suðurmiðstöðvar. VEL24010016.

    Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Fram fer kynning á niðurstöðum rannsóknar um félagslegt landslag í Reykjavík. MSS22020030.

    Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi skýrsla staðfestir að ójöfnuður og fátækt hefur aukist í Reykjavík. Þetta sýna einnig nýlegar niðurstöður Gallup. Um 14% landsmanna áttu að eigin sögn ekki fyrir jólahaldinu og eru það 5% fleiri en árið áður. Hér er um ungt fólks að ræða, barnafjölskyldur. Staðan er misjöfn eftir hverfum. Aðskilnaður í búsetu hátekjufólks og lágtekjufólks hefur þannig aukist innan Reykjavíkur. Í Efra Breiðholti, Fellahverfi sem dæmi, búa langflestir innflytjendur og fólk sem glímir við erfiðan fjárhag, fátækt fólk. Þessi þróun hófst fyrir mörgum árum. Félagsleg blöndun mistókst í þessum hverfum. Til stóð hjá síðasta meirihluta að blanda saman húsnæði og atvinnumöguleikum. Það hefur ekki tekist sem skyldi. Langt er á milli heimilis og atvinnu hjá flestum sem skapar mikla umferð í borginni. Ef borið er niður í skýrsluna þá eru fimm hverfi sem standa verr hvað varðar lágtekjuhlutföll eða vægi hópa sem búa við auknar líkur á fátækt. Lágtekjuhlutföllin eru hæst í skólahverfum Austur- og Vesturbæjarskóla en Fellaskólahverfi, Hólabrekkuskólahverfi, Breiðholts-skólahverfi eru með há hlutföll barna með lögheimili hjá einstæðum foreldrum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst áhugaverð sú niðurstaða að allt bendir til þess að rótgrónir lágtekjuhópar leita í auknum mæli út fyrir Reykjavík og að innflytjendur hafi komið í þeirra stað.
     

    Fylgigögn

  4. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 17. janúar 2024, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á starfsemi félagsmiðstöðva í Árbæjarhverfi, Háaleitishverfi og Laugardal, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september 2023. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í fyrirspurn er spurt um hvort að draga eigi úr starfsemi félagsmiðstöðva velferðarsviðs í Árbæjarhverfi, Háaleitishverfi og Laugardal og leggja jafnvel einhverjar þeirra niður. Lýst er yfir áhyggjum af skerðingum á þessu sviði því þessar félagsmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki í viðkomandi hverfum, ekki síst fyrir eldri borgara og fatlað fólk. Flokkur fólksins skilur þessar áhyggjur því víða er verið að skerða þjónustu við borgarbúa eins og sjá má í skerðingu á opnunartíma sundlauga og bókasafna borgarinnar. Í svari sviðsins kemur fram að stýrihópur sé að störfum sem sé m.a. með það verkefni að kortleggja húsakynni og starfsemi félagsmiðstöðva. Stýrihópurinn virðist eiga að koma með tillögur að framtíðarnýtingu félagsmiðstöðva. Gott væri að fá frekari upplýsingar um hvernig þessari vinnu miðar.
     

    Fylgigögn

  5. Svar Félagsbústaða við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um skráningu lögheimilis í íbúðum á vegum Félagsbústaða. VEL23040017. 
    Frestað.

  6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um ráðleggingar frá BUGL til að stytta biðlista, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. desember 2023. VEL23120017.
    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að velferðarsvið hafi milligöngu um að fá kynningu frá BUGL fyrir velferðarráð um þær leiðir sem BUGL fór til að stytta biðlista barna eftir þjónustu. Tillagan var samþykkt einróma í velferðarráði og fagnar fulltrúi Flokks fólksins því.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram uppfært erindisbréf stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks, dags. 15. janúar 2024, ásamt reglum Reykjavíkurborgar um starfs- og stýrihópa. VEL22070013.
    Frestað.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á lýðheilsuvísum Reykjavíkurborgar. VEL24010019.

    Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynntir eru lýðheilsuvísar Reykjavíkur fyrir árið 2022 en þeir hafa verið gefnir út árlega síðan 2019. Gagnlegt er að bera saman lýðheilsuvísana milli ára. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sláandi að sjá að enn og aftur koma niðurstöður sem benda eindregið til þess að andleg líðan barna og ungmenna hafi versnað. Einmanaleiki og kvíðaeinkenni barna hafa aukist. Það er sláandi að sjá hversu stór munur er milli drengja og stúlkna. Stúlkur eru greinilega með meiri kvíðaeinkenni og þær upplifa sig mun oftar einmana en drengir. Það er áhyggjuefni að sjá að þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi hefur minnkað og stúlkur eru með minni þátttöku en drengir. Andleg heilsa fullorðinna Reykvíkinga virðist líka hafa versnað og fleiri finna fyrir einmanaleika. Streitueinkenni fullorðinna og þunglyndislyfjanotkun hefur aukist. Fjölgað hefur í hópi þeirra sem eiga frekar eða mjög erfitt með að ná endum saman. Það er athyglisvert að sjá mikinn mun milli kynja. Andleg líðan kvenna er mun verri en karla og konur eiga erfiðara með að ná endum saman. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að þessar vísbendingar verði teknar alvarlega af stjórnvöldum. Það er augljóst að það þarf að efla markvisst lýðheilsustarf Reykjavíkurborgar og auka heilsueflingu og forvarnir.

     

  9. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

  10. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg sé með eitthvað sérstakt úrræði eða sérstaka verkferla fyrir einstaklinga  og börn í sorg? Eru miðstöðvar borgarinnar með þjónustu fyrir fólk sem verður fyrir skyndilegum  áföllum og missi s.s. að styðja við syrgjendur, veita ráðgjöf og fræðslu einstaklingslega eða með hópavinnu? VEL24010032.
     

  11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Liðsauki í sjálfstæðri búsetu var sett á fót  í febrúar 2020. Markmið úrræðisins, eins og það er kynnt, er færanlegt teymi sem veitir ungu fullorðnu fólki stuðning í sinni búsetu, innan sem utan heimilis með það að markmiði að efla færni einstaklinga til að búa sjálfstætt (á eigin heimilum) og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu.  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig þetta úrræði hafi gengið/árangur þessa úrræðis. Hversu margir einstaklingar eru í þessu úrræði? 
    Hversu margir af þessum einstaklingum sækja vinnu eða nám?   
    Í hópi þeirra sem sækja þjónustu Liðsaukans eru einstaklingar með væg þroskafrávik og skyldar raskanir, geðrænar áskoranir, einstaklingar með framheilaskaða og aðrir sem samsama sig ekki öðrum úrræðum sem í boði eru. Hvernig er þjónusta Liðsauka frábrugðin þjónustu einstaklinga með þroskaskerðingar? Hvernig er lagt mat á að skjólstæðingar Liðsaukans samsami sig ekki öðrum úrræðum? Hvernig eru einstaklingar valdir í þetta úrræði ? Á hvaða fyrirmynd byggir starfsemi Liðsauka. VEL23010033.

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um hvort velferðaryfirvöld og velferðarsvið eru að sinna sértækri aðstoð og ráðgjöf fyrir t.d. stúlkur sem glíma við vanlíðan á borð við kvíða og þunglyndi? Rannsóknir hafa sýnt sem og komið hefur fram í lærðum skýrslum að unglingsstúlkur glíma við ýmis konar tilfinningalegan og félagslegan vanda sem rekja má til ákveðinna þátta í nútímasamfélagi. Niðurstöður hafa sýnt okkur að huga þarf sérstaklega að stúlkum þegar kemur að ímyndinni, sjálfsmynd og sjálfsöryggi. Fjölmargir umhverfisþættir spila án efa sitt hlutverk s.s. jafningahópurinn, lífsstíll og samfélagsmiðlar ásamt auðvitað persónulegum þáttum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort miðstöðvar eru að sinna þessum hópi sérstaklega? Nýlega var ákveðið að styrkja Jafnréttisskólann og er því spurt hvort hlutverk hans sé að halda utan um einstaka hópa eins og t.d. unglingsstúlkur. VEL24010034.

Fundi slitið kl. 16:03

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson

Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 17. janúar 2024